Ritverk Árna Árnasonar/Mælirinn
Jón hét maður Einarsson, faðir Sveins Jónssonar, sem nú (1938) býr á Landmótum hér. Hann var til heimilis í Hlaðbæ og stundaði sjóróðra hér, en var þó jafnan sjóhræddur og átti því oft þátt í því að telja úr sjósókn og róðrarlengd, sem og því, hve lengi var verið á færunum.
Einn dag sem oftar réru menn á sjó, þó fáir, enda var stinnings stormur og veðurútlit ekki sem best.
Hannes sál. Jónsson á Miðhúsum var þá formaður. Hafði hann keypt sér loftþyngdarmæli (Barometer), en það var þá sjaldséður gripur hér í Eyjum.
Hannes var á sjó þennan dag og lagði skammt frá skipi því, er Jón var á.
Jón hafði nú orð á því við skipstjóra sinn, að „hann væri orðinn nokkuð stífur og vart ráðlegt að sitja lengur í slíku veðri.“ En skipstjóri hélt að óhætt væri meðan Hannes sæti, því að hann ætti þó baromet. „Já, það er nú til þess að fara eftir bölvuðum glópnum honum Hannesi,‟ sagði þá Jón, „ég get þá sagt ykkur það, að ég sá ósköp vel, hvernig hann lét, kötturinn í Vanangur, og dýrin vita vel, hvað að þeim snýr, það eitt veit ég‟.
Og það varð úr, að menn héldu heim og trúðu veðurspádómi kattarins í Vanangri. En þó undarlegt megi virðast, gerði ágætis veður skömmu eftir að heim var komið og þóttust menn illa hafa af sér setið, því að Hannes kom heim um kvöldið með góðan afla.
Jón var staddur niðri í Læk og voru menn að hafa orð á því við hann, hversvegna þeir hefðu ekki setið lengur. „Já, ég sagði þetta alltaf, ‟ svaraði hann, „að það væri varla til þess að vera að taka mark á helvítis fresskettinum þarna í Vanangur, það væri svo sem óhætt að fara eftir honum Hannesi, hann hefir þó mælirinn.‟