Ritverk Árna Árnasonar/Lóðsinn á Reyðarfirði

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Lóðsinn á Reyðarfirði


Einu sinni kom danskt skip á Reyðarfjörð og inn til Vattarness í slæmu veðri og hafði lóðsflagg uppi.
Nú stóð svo á, að lóðsinn var, ásamt fleiri mönnum, að moldargreftri, er skipið bar að, og þar eð veður var slæmt, gaf hann sér ei tíma til að hafa fataskipti, en lét setja fram bát og róa út að skipinu.
Hann fór strax upp og bjóst til að taka skipið inn á leguna, en áður en svo yrði gert, rauk upp með mesta foraðsveður, svo að engin tiltök voru að komast inn fjörðinn.
Rak skipið út allan fjörð og var við lítið ráðið vegna veðurs.
Þannig liðu margir dagar og rak skipið sífellt á haf út.
Er niður til Færeyja kom, reyndist ógerningur að taka þar land að heldur, svo að skipstjóri afréð að halda áfram þessu ferðalagi og freista að komast til Danmerkur og hætta við Íslandslandtökuna.
Danirnir voru manni þessum mjög slæmir um borð, vildu þeir helst kenna honum um, að landtaka á Íslandi hafði ei tekist, og allt hrakningsferðalag þetta væri honum að kenna.
Mat fékk hann tæplega eða mjög af skornum skammti, og ekki gat hann haft fataskipti, svo að hann varð að bera moldarklæði sín skítug og meira og minna rifin.
Þannig leið hver dagurinn af öðrum og loks komu þeir til Kaupmannahafnar. Var hann þá rekinn frá borði í land. Ekkert kunni hann í dönsku máli, svo að aðstæður hans voru ekki glæsilegar.
Honum varð samt reikað upp í borgina frá höfninni og gekk öðru megin breiða götu með steinlögðum gangstéttum til beggja hliða. Þannig gekk hann lengi og vissi ekki, hvað til bragðs skyldi taka.
Þá tekur hann eftir manni, sem gengur hinum megin á gangstéttinni og verður honum starsýnt á mann þennan. Finnst honum hann eitthvað öðruvísi en aðrir, er þarna voru á ferð og fannst hann jafnvel horfa til sín.
Lóðsinn afréð þegar að fara yfir til manns þessa og freista þess, hversu viðræður og fyrirgreiðsla tækist.
Maðurinn, sem var mjög fyrirmannlegur á velli, gengur í móti lóðsinum, og er þeir mætast, ávarpar hinn fyrirmannlegi maður hann á íslensku.
Lóðsinn þóttist nú himin hafa höndum tekið. Segir hann honum allt af létta um ferðalag sitt, hann sé hungraður og allslaus og hafi hvergi höfði sínu að halla um mat, klæði og vini.
Hinn aðkomni maður segir honum bera engan kvíðboga þessu öllu, hörmungum hans sé nú lokið.
Fer hann með lóðsinn á gistihús, hvar hann fékk mat og ný klæði utast sem innst og herbergi og aðra fyrirgreiðslu sem best var á kosið.
Síðan ganga mál um þessar aðfarir danska skipstjórans og fór svo, að hann var dæmdur til að greiða allan kostnað við þessa för lóðsins og greiða honum fullt mánaðarkaup, frá því að hann kom um borð, þar til hann kæmi aftur heim til átthaga sinna á Íslandi, þar með talið frítt far með póstskipinu.
Nú vilduð þið víst vita, hver hinn fyrirmannlegi Íslendingur í Höfn var, sem reyndist lóðsinum svona höfðinglega?
Það var enginn annar en Jón Sigurðsson forseti. En lóðsinn var Þorsteinn gamli smásali á Reyðarfirði, og er Ágúst í vínversluninni hér tengdur honum þannig, að bróðir Ágústs er kvæntur dóttur Þorsteins gamla.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit