Ritverk Árna Árnasonar/Kveðið við Kötlu og fleira

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Starf Árna á Vestmannaeyjaradíó fólst ekki einungis í samskiptum við flotann, heldur var oft um fjarskipti við land að ræða, eins og t.d. var í júní 1955, þegar rannsóknarleiðangur undir stjórn Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings hélt á Mýrdalsjökul til rannsókna á Kötlu. Þeir voru í talstöðvarsambandi við Vestmannaeyjaradíó allan tímann. Þegar þeim leiðangri var um það bil að ljúka, fengu leiðangursmenn eftirfarandi kveðju frá Árna Árnasyni (Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012):

Kötlufarar, Mýrdalsjökli. – Frá VM radio.
Það mun ekki heiglum hent
hjá að gista Mýrdals-Kötlu,
þó bóndann hafi burtu sent
og brosi, rúin hverri pjötlu.

Þessu var að sjálfsögðu ekki látið ósvarað og til baka kom þetta, bókað hjá Vm-radíó:
Eftirfarandi kveðja móttekin á VM radio kl. 18:30 21.6. frá snjóbílnum R-345, staddur á miðjum Mýrdalsjökli, vestan við Kötlu:

Njótum lífsins ekki um of,
er það bagi,
að hlýrra skuli Kaldaklof
en Kötlumagi.
S. Þórarinsson o.fl.
Áfram héldu leiðangursmenn að senda ljóðmæli
til símritarans í Vestmannaeyjum. Næst kom þetta
og fyrst vikið að umræðu um landsmál,
áður en sagt er frá líðan leiðangursmanna:
Sparnað kunnum mjög að meta,
mun nú borgið landsins högum,
ef að þingmenn okkar éta
aðeins snjó á tyllidögum.
Liggjum undir háum hól
í hlé´i fyrir norðan gjóstum,
nú er þerrir, nú er sól,
nú er gott á Kötlubrjóstum.
Og síðasta sendingin frá þeim félögum
á jöklinum var þannig, og vistin greinilega
orðin erfið á jöklinum:
Kúrum hér í krapi og snjó,
klén er matarlystin.
Erum kverkaþurrir þó,
þykir blautleg vistin.
Jón Eyþórsson, Sigurður Þórarinsson
Sigurjón Rist, Guðmundur Jónasson, Jean Martin.Gamli kakósöngurinn á Klifinu.
Uppi á Klifinu sælt er að sitja,
þegar sólin á himninum skín,
Vínarpylsur og brauðið að brytja,
því bæði hafa þau D-vítamín.
Frammi á brúninni Slommubjartur slæpist
og stelur myndum af litfögrum fýl.
Hvernig færi, ef drengurinn dræpist?
Það yrði að drasla honum strax heim í bíl.
Gísli mundi grafa honum holu,
Geiri mundi semja einn brag,
gæðamennið Gvendur í Volu
gjöra mundi steinsteypulag
yfir hans Slommbjartar snarla
sem var sniðugur drengur og klár.
En vér hyggjum í heiminum varla
myndi hrynja eitt einasta tár.
(Höfundur og tilefni óþekkt)


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit