Ritverk Árna Árnasonar/Kveðið um vinkonu

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Kveðið um vinkonu
Þú lítur yfir liðna daga,
lífið hafði margt að færa,
yndi, fegurð, gæfu, gengi,
gleðistundir, vini kæra.
Einnig köld og válynd veður,
vinaslit og sára harma.
En í gegnum geigvæn myrkur
guðstrú örugg sendi bjarma.
Lítilmögnum vörn þú veittir,
að veikum hlúðir eftir megni.
Djörf í hugsun, djörf í máli,
drenglyndari hverjum þegni.
Ei var bugast, ei var hikað,
oft þó vindar svalir næddu.
Hégómlegar hræsnitungur
harla lítið á þér græddu.
Heill þér, trausta heiðurskona,
með hjartað fullt af kærleikseldi.
Silfurhærur signi bjartar
sól þíns guðs á ævikveldi.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit