Ritverk Árna Árnasonar/Hún fæddist upp til fjalla

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Hún fæddist upp til fjalla


Hún fæddist upp til fjalla
við fagra vatnið blá,
þar falla friðar elfur
og fossar hörpu slá.
Hún unni sumarsólu
og Snælands vatnagrund.
Í óbyggð óháð mönnum
var alsæl hennar lund.
Er húma fór á Fróni
og frostið gekk um lönd,
þá brátt var búin förin
að bjartra landa strönd.
Þar dvald´i hún heilan vetur,
og hugur fylltist þrá,
því Frónsins fjalla vötnin
hún fegin vildi sjá.
Svo var hún langa leiðin
til landsins norðu´r í Pól
með hröðu flugi hafin
og hugur gleði ól.
Á Íslands syðstu eyju
hún áði sumardag
og svam á smáu vatni
og söng sitt gleðilag.
En blóðþyrst búkarls sála
með byssu fór um grund
og sá hvar sæl hún synti
með sumargleði í lund.
Hann læddist hljótt að steini
og hönd að auga bar
með sigurhrós í svipnum
hann skaut — án miskunnar.
Með blóðugt sár á bringu
hún bærði í hinzta sinn
þá stóru vængi og sterku,
en strax hvarf mátturinn.
Ó, vei þeim vesalingum,
sem venja sig á það
að farga hverjum fugli,
er fá þeir áorkað.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit