Ritverk Árna Árnasonar/Hörð eru sig í Háubælum

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Hörð eru sig í Háubælum


Vestmannaeyingar hafa jafnan þótt með mestu og bestu fjallamönnum á landinu. Í Heimaey og úteyjum eru víða hættuleg og mikil sig, sem engum eru fær nema bestu fjallamönnum og hinum hraustustu mönnum. Jafnvel þeim uxu í augum sumar þessar fjallaferðir og kölluðu þeir þó ekki allt ömmu sína. Eftirfarandi vísa bendir og til þessa:

Hörð eru sig í Háubælum og hættuleg,
Hábrandinn og hræðist ég,
en Hellisey er ógnarleg.

Það er sögn manna hér, að Jón dynkur hafi ort þessa vísu. Var hann mikill fjallamaður og lét sér fátt fyrir brjósti brenna. Annars er sögnin um hrap hans svo:
Einu sinni var hann við sig í Bjarnarey, allhátt uppi í berginu, á svokölluðum Langvíuréttum. Fór hann laus um bergið, en var af vangá kippt niður með gagnvað. Féll hann í sjóinn skammt frá bát þeim, sem fylgdi honum.
Um leið og honum skaut upp úr kafinu varð honum að orði við þá, sem lágu á bát: „Heyrðuð þið ekki dynk, piltar“. Fékk hann af þessu viðurnefnið „dynkur‟, sem áður er sagt. Jón þessi hrapaði síðar til bana í Molda.
Aths. Missagnir eru miklar um vísuna Hörð eru sig etc., um aðra hendingu hennar. Faðir minn taldi sig hafa lært vísuna á unga aldri og vel muna hana og hafði hann hendinguna þannig:

Hábrandinn og hræðist ég,
Aðrir hafa hana
Hábrandin ei hræðist ég.

Það hlýtur að vera vitlaust vegna þess að vísa þessi er til orðin til þess að lýsa hættulegum bjargsigum hér, en ekki þeim, sem ekkert eru athugaverð. Og hversvegna í ósköpunum skyldi þá höfundur vísunnar fara að sletta inn í hana settningu, sem blátt áfram mælir í mót efninu, algjör mótsögn. Að öllu athuguðu virðist orðið „og“ rímast betur og bindast í réttan kveðskap. –Á.Á –


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit