Ritverk Árna Árnasonar/Gömul sögn um ósiðlæti Vestmannaeyinga

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search




Úr fórum Árna Árnasonar


Gömul sögn um ósiðlæti Vestmannaeyinga


Það er kunnara en frá þurfi að segja, að jafnan hefir farið slark-orð af Vestmannaeyjum. Nú á tímum eru Vestmannaeyjar og Siglufjörður látin að líku, hvað þetta snertir. Áður fyrri höfðu Vestmannaeyjar einveldi á þessu sviði, í almenningsálitinu. Lítur helst út fyrir, að menn annarsstaðar á landinu hafi verið sammála um það, að Vestmannaeyingar og Vestmannaeyjar sköruðu fram úr öðrum landshlutum að ósiðlæti.
Þannig segir Jón Espólin í árbókum sínum um Vestmannaeyjar: „... hafa þeir ok jafnan ósiðvandastir verið“. Einnig fer Gísli biskup Oddsson hörðum orðum um Vestmannaeyinga (1635) í bréfi einu til þeirra. Segist hann hafa heyrt, að ýmiss konar ósómi fari þar fram, sem ekki eigi sér stað annarsstaðar. Til dæmis standi menn í erfiði við fiskflutning á helgidögum og bænadögum og jafnvel undir embætti. Óafleystir menn trani sér í kór, og að sumir sé óafleystir fyrir opinberar hneykslanir í 1-2 ár, og geri ekkert til þess að friða sig eða sætta. Skorar biskup á menn að bæta ráð sitt og hafa hugfastar þær ógnir og neyð, sem yfir Vestmannaeyinga hafi gengið og minnir menn á Tyrkjaránin og það, að á einu ári hafi við Vestmannaeyjar drukknað 57 menn, en 8 hrapað.
Ekki virðist áminningar biskups hafa haft nein áhrif, að minnsta kosti kveður æ við, að ástandið sé hið sama.
Þennan orðróm kunnu Eyjaskeggjar illa við sem von var til, því að ekki var hann á neinum rökum byggður. En hitt er víst, að eftir því sem fjær dró Vestmannaeyjum þeim mun siðlausari voru og eru Eyjaskeggjar sagðir vera. Það er með þetta eins og snjókúluna, eftir því sem hún veltur lengur í lausamjöllinni, hleður hún meira utan á sig.
Margir urðu og hafa ætíð orðið til þess að reyna til að hrinda þessum orðrómi af Vestmannaeyingum, en misjafnlega tekist. Meðal þeirra eru Síra Jón Austmann prestur að Ofanleiti, dáinn 1858. - Í lýsingu, sem hann hefir ritað af Vestmannaeyjum, farast honum orð á þessa leið:
„Siðferðinu hér er eins og annarsstaðar mikið ábótavant, eins og lærðustu menn nú á dögum hafa um ritað og talað, og er það mikið íhugunarvert að tala svo um sína eigin landa að orsakalausu eða þá eftir einberri sögusögn og hleypidómum, því að hinir siðferðislegu brestir, svo sem: þjófnaður, hórdómur, frillulifnaður, þrætur, fjandskapur o.s.frv. eru hér engan veginn algengari en í hverri annarri sveit. En það er auðvitað, að þessir lestir stinga sér hér niður eins og annarsstaðar, einkum drykkjuskapur og frillulifnaður, því hér eru syndum spilltir menn eins og annarsstaðar og hafa máske þeir stóru og lágu herrar, sem fellt hafa og fella svo þunga dóma um oss, ekki gætt að þessu, eða ætlast til að svo væri. En siðferðinu hér fer óneitanlega fram, þareð þekking trúarbragðanna, sem áður var hér langtum minni en nú er, fór að hafa sín heillasömu áhrif á breytni innbúanna, og betri stjórn frá því háyfirvöldin, á hverju hér var áður þurrð, tóku sér hér algjörlega bólfestu.“
Um sama leyti tók annar maður upp hanskann fyrir Vestmannaeyinga. Það var Jón Jónsson, sem nefndur var Jón Torfabróðir. Hann var góður hagyrðingur og hefur ort margt og sumt hnyttið. Hann átti í kvæðadeilum við Pál skálda Jónsson og er sagt, að orðið hafi að áhrínsorðum þessar vísur Páls:

„Þú hefir lengi lífs um tíð,
lagt þig í að slaðra
bölvað haugabull og níð
bæði um mig og aðra.
Það færi betur fyrir þitt sprok
þú fengir að rata í sandinn
og að skærist upp við kok
úr þér tungu fjandinn.“

Sá orðrómur gékk hér og annarsstaðar manna á meðal, að sira Páll skáldi væri kraftaskáld og gerði hann lítt til að hnekkja þeim orðrómi. En hvað sem því líður, þá virtist sem þessar vísur hans um Jón yrðu áhrínsorð. Jón drukknaði í Álnum árið 1843 og segir sagan, að hann væri tungulaus, þegar hann fannst.
Til varnar ósiðlætisorðrómi Vestmannaeyinga orti Jón mjög langt kvæði, 42 erindi. Er það misjafn kveðskapur, og tek ég hér lítið sýnishorn úr því, vísur á við og dreif. Kvæðið er tekið upp eftir eigin handriti Jóns og er fyrirsögnin á þessa leið: „Álit og dómar ýmsra útsveitamanna um Vestmannaeyinga og þeirra lífernisháttu, ódygðir, drykkjusvall, lauslæti, þjófnað, drauga, forynjur, útburði og meinvætti í plássinu ásamt „Mitt álit“ yfir allt hið áðurnefnda eftir vetra reynslu“.
Erindin eru hér tölusett eins og hjá Jóni.

1. Úr fjærliggjandi sýslna sveitum
(svo við þar af dæmis leitum)
um þá slíkt ég vitnað veit.
„Að varla séu í húsum hæfir
og hér til tæpast niðurgræfir
í guðsbarnanna akur-reit“.
3. Orsök þar til á að vera
ávextina góða bera
unnt þeim varla orðið sé,
heldur skammir háskalegar
hóran, stuldur, morð og lygar
sé þeim daglegt sælgæti.
5. Þar á að vera um hölkn og hauga
háskalega fullt með drauga
í dimmunni, þegar dagsett er,
sem vilja menn og færa úr fötum
forynjur þar standa á götum
líka stöku landvættir.
8. Akurdraug þar ýmsir líta
ásján þó ei beri hvíta,
(hjátrú manna helst svo við).
Prestur „Skers“ um reyðar reiti
rær oft upp að „Ofanleiti“
nóttina fyrir nýárið.
10. Hann Neptúnus heit sín efndi
í hellir sela fjölda stefndi
þrettánda þá komið var kvöld.
Í álögum þar ýta dróttir
eru selir mosflekkóttir
forlaga dísna fyrir völd.
25. Um laussinni þó lýðir klagi
lands í fleiri stöðum, bagi
af því hlauzt vorn hólma í kring.
Allvíða á Adam heima,
í eskjum klaustra er bágt að geyma
tímgunarstarfa tilhneiging.
26. Hvaðan eru Eyjabúar?
Eg vil vera þeirrar trúar
að yfirvega, umþað las.
Eru þeir himni ofanaf dottnir
í jurtagörðum máske sprottnir,
eða úti á jörð, sem annað gras?
28. Lögðu og þangað leiðir kringar
lítilfjörlegir mannaumingjar,
upp til hópa hvatt og blautt,
og þóttist fá hjá fyrirverandi
fæði meira en inni á landi,
hvar bygðarlag að björg var snautt.
29. Skaftárgljúfurs undan eldi
til Eyja trúi ég nokkrir héldi
húsvilltir, að lengja líf.
Veitti guð af vinskap heitum
í Vestmannaeyjum, sem fleiri sveitum
fólki þjáðu fæði og hlíf.
36. Þar eru margir fimir í fjöllum
og fírugir að störfum öllum
vistaföng að vinna sér.
Plássið gott af boðum og björgum
blessan þaraf veitist mörgum
lýðum þar og líka hér.
39. Eg vil meina að innbyrlingar
orki að gera sjónhverfingar
og óttafullum augnaspaug.
Trúgirnin kann til að stoða
og töluverðan mynda voða
af áðurnefndum Akurdraug.
40. Skrímsli þar í felist fjöllum
fádæmum þeim ég neita öllum
hjátrúnni, sem getið gat.
Hann, sem sé í hættum Eyja
hafi ekki af slíku að segja
ellegar hann, sem undir sat.
42. Í björtu og dimmu um straum og stræti
stöðugrar sjerhver jafnan gæti
varúðar, sem vit gat þekkt.
Öllum þeim frá háska hlífi
er hjálpar æskja sínu lífi
voldug drottins varatekt.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit