Ritverk Árna Árnasonar/Fyrstu olíugeymar í Vestmannaeyjum

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Fyrstu olíugeymar í Vestmannaeyjum


Eitt af vandamálum útgerðarinnar hér, eftir að vélbátarnir komu, var hið tilfinnanlega olíuleysi, sem oft átti sér stað, þá verst gegndi, t.d. á miðri vertíð.
Kom það þó nokkrum sinnum fyrir, að bátar urðu að vera í landi í blíðu veðri og mikilli fiskigöngu. Svo var t.d. 13. mars 1917, að aðeins 12 bátar gátu farið á sjó vegna þess að olíuafskipun frá Rvík hafði tafist. Olía var allt til 1919-20 flutt hingað á trétunnum, sem voru mjög rúmfrekar á flutningspláss skipanna og gekk því hálf erfiðlega um flutninga hennar hingað. Má nærri geta, að allur sá fjöldi vélbáta, sem gerður var út hér á árunum 1915-20, hafi þarfnast mikillar olíu. Þessutan var heimilisnotkun af olíu mjög mikil o.fl., t.d. rafstöðin.
Utanlands voru um þessar mundir olíugeymar komnir í allflestum borgum og bæjum, uppsettir af hinum stærri olíusamlögum og fyrirtækjum, svo sem „Shell“, „BP“, „Nafta“ „Anglo Am Oil“ o.fl., og þóttu geymarnir bæði sjálfsagðir og ómissandi.
Menn, sem sigldu héðan til útlanda, t.d. Englands og Danmerkur, voru margbúnir að sjá þessa geyma og dást að hagkvæmum útbúnaði þeirra. Þeim hafði og dottið í hug, að einmitt með slíkum geymum væri hægt að leysa eitt af stærstu vandamálum útgerðarinnar hér, en þar við sat líka. Þeir höfðu ekki bolmagn til byggingar á slíkum geymum, sem kostuðu offjár.
Gísli J. Johnsen kom hér fram á sjónarsviðið sem í svo mörgum velferðarmálum Eyjanna. Hann fékk og réttu hugdettuna að fá hingað einhver af þessum olíusamlögum utanlands í lið með sér og koma upp olíusölu í Vestmannaeyjum frá geymum. Shell varð fyrir valinu og, hvað svo sem gerst hefir, fór svo, að 1919 var byrjað á að laga til fyrir undirstöðu geyma á Nausthamri austan við bryggju Gísla Johnsen.
Gísli hafði þá mikla útgerð, marga báta, fjölda fólks í þjónustu sinni, enda þá stærstur útgerðarmaður hér í Eyjum. Áhugi fyrir geymunum var mikill, enda gekk vel að byggja þá, og voru þeir uppkomnir haustið 1921. Var strax flutt olía í þá, og tók olíusala þessi strax til starfa. Þetta voru hinir fyrstu olíugeymar, sem byggðir voru á Íslandi, vel vandaðir að frágangi öllum og byggðir af vélsmiðjunni Héðni í Reykjavík, og var umsjónarmaður verksins og aðal-byggingameistari danskur maður að nafni Rasmusen, sem kvæntur var Ingu frá Hól hér, en hann lést í Reykjavík.
Þegar svo Olíusamlag Vestmannaeyja var stofnað hér 1937, voru olúgeymar byggðir á uppfyllingunni við Básaskersbryggju. Einn 1000 kúbikmetra eða ca 850 tonn og 2 minni eða ca 20 tonn hvor. Eru þeir minni aðalega til millidælingar og fyrir ljósaolíu. Stóri geymirinn voru byggður af Kristjáni Gíslasyni frá Rvík, en efnið var frá firmanu Kastrup í Köbenhavn. Minni tankarnir komu samsettir frá Köbenhavn og var þeim fleytt inn höfnina (komu í heilu lagi).
Fyrstu stjórn Olíusamlags Vestmannaeyja skipuðu Kjartan Guðmundsson, Ástþór Matthíasson og Ólafur Auðunsson, en, er Ólafur andaðist, gekk Eiríkur Ásbjörnsson inn í stjórnina og situr sú stjórn enn þann dag í dag.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit