Ritverk Árna Árnasonar/Einkennileg skipakoma til Vestmannaeyja

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Einkennileg skipakoma til Vestmannaeyja


Þann 27. júlí 1880 kom hingað til Eyja útlent skip með óvanalegu siglingalagi. Það var nokkurskonar skonnorta, um 30 lestir að stærð.
Skipsáhöfnin var aðeins 3 menn. Skipstjóri var sagður hollenzkur að ætt, stýrimaður norskur og háseti sænskur. Kváðust þeir hafa villzt hingað, er þeir voru að makrílveiðum vestur við Ameríku, enda höfðu þeir aflað um hundrað tunnur.
Skipið var að innan hið skrautlegasta, einna líkast lystisnekkju. Það þótti mönnum, er komu út á skipið, undarlegt, að því er sumir sögðu, 16 rúm með rúmfötum.
Þegar skipverjar voru spurðir, hvernig á þessu stæði, kváðu þeir það stafa af því, að svo margir menn hefðu að vísu verið á skipinu, en þeir, sem væru framyfir þá núverandi 3 menn, hefði verið hleypt í land í Ameríku, því þaðan hefðu þeir verið. Þó var ekki allra þeirra frásögn samhljóða í þessu efni.
Þeir höfðu hér á boðstólum bæði rúmfatnað, skófatnað og annað fleira, er þeir létu fyrir lítið verð. Kváðust þeir hafa fengið þessa muni hjá fyrri félögum sínum fyrir gjafverð. Á skipinu sást, að það var nýlega nefnt upp og kallað „Pilen“, en svert yfir þess rétta nafn, sem auðsjáanlega hafði staðið á gaflinum.
Skip þetta lá hér aðeins nokkra daga. Eftir burtför þess hafa menn þótzt sjá staðfestan grun sinn um það, að eitthvað væri ótryggilegt við skipshöfnina, því undirmaðurinn – sá sænski – hafði sagt kunningja sínum, er hann hitti hér á dönsku skipi ‒ verslunarskipi ‒, að þeim skipsverjum, sem verið hefðu, hefði lent drukknir í áflogum, og hefðu þannig týnzt meiri hluti skipshafnarinnar. Að hve miklu leyti þetta sé rétt, er ekki auðvelt úr að ráða. Ekki hafa menn meiri vissu um, hvert skip þetta hélt héðan. Ekki var laust við að sumir hyggðu, að hér væri kominn annar Tyrki og þætti ýmsar fyrirsagnir Krukkspár lúta að því.
Meira um skip þetta:
Í dönsku dagblaði er sagt, að í júlíbyrjun í sumar hafi amerísku skipi, er hét Ida R. Freeman, verið stolið úr höfn einni í Bandaríkjunum. Var ætlað, að það hefði gert 3 Skandínavar, er áttu heima á skipinu. Í því var lítið annað en nokkuð af fiski. Þann 20. ágúst kom til Hers í Noregi amerískt skip, er flutti fisk. Á því voru aðeins 2 menn, og sögðu þeir þá sögu, að aðrir skipverjar hefðu yfirgefið sig á skipsbátnum úti á hafi. Það vakti strax eftirtekt, að af skipinu var ýmislegt selt mjög ódýrt, og snögglega hurfu báðir skipverjarnir. En annar varð þó fljótlega tekinn. Þegar svo farið var að rannsaka málið, kom í ljós, að skip þetta var „Ida R. Freeman“ er stolið hafði verið í Ameríku. Ekki veit ég frekar um þetta eða um endalykt rannsóknarinnar yfir skipverjunum.

 


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit