Ritverk Árna Árnasonar/Eggert á Meðalfelli

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search




Úr fórum Árna Árnasonar


Eggert á Meðalfelli


Eggert á Meðalfelli, eins og hann var jafnan kallaður, var fæddur að Meðalfelli í Kjósarhreppi hinn 23. apríl 1852. Faðir Eggerts var Finnur Magnús bóndi að Meðalfelli Einarsson bónda að Meðalfelli og sóknarprests að Reynivöllum Pálssonar, prests að Þingvöllum Þorlákssonar¹). (Séra Páll var bróðir séra Jóns á Bægisá). Móðir Eggerts var Kristín Stefánsdóttir prests Stefánssonar Stephensen.
Eggert stundaði í æsku nám hjá séra Þorvaldi Böðvarssyni í Saurbæ og síðar að Stend í Noregi frá 1880-1882.
Hann hóf búskap á föðurleifð sinni Meðalfelli árið 1884 og bjó þar óslitið til ársins 1942, er hann fékk Ellert syni sínum jörð og bú í hendur með óðalsrétti. Má þó frekar segja, að um sambýli þeirra feðga hafi verið að ræða síðustu árin.
Eggert kvæntist 18. júní 1887 frændkonu sinni Elínu, f. 15. september 1855, Gísladóttur prests að Reynivöllum Jóhannessonar, hinni ágætustu konu, er var honum ómetanlegur lífsförunautur. Þau eignuðust einn son, Jóhannes Ellert, f. 31. desember 1893. Einnig ólu þau upp nokkur fósturbörn. Konu sína missti Eggert 10. júní 1940. Eggert lést að Meðalfelli 26. jan 1946 og var jarðsettur að Meðalfelli við hlið konu sinnar og venslamanna.
Þó að hér hafi verið getið uppruna Eggerts og nokkurra ártala, er mörkuðu tímamót í ævi hans, eru ótalin verk hans, sem gerðu nafnið víðkunnugt, bæði sem framkvæmdamanns og brautryðjanda í búnaði og forystu hans í félagsmálum. Skal nú nokkum nefnt:
Eggert átti sæti í sýslunefnd, hreppsnefnd, sóknarnefnd og héraðsnefnd. Gekkst hann fyrir stofnun nautgriparæktarfélags 1903 og rjómabús 1905, ásamt nokkrum atorkumönnum öðrum og sama er að segja um Bræðrafélag Kjósarhrepps, er stofnað var 1892, en það félag hafði svipaða stefnuskrá og ungmennafélögin síðar. Hann sat í stjórnum allra þessara félaga lengri eða skemmri tíma.
Auk þessa átti hann sæti í stjórn Búnaðarfélags Kjósarhrepps lengi vel. Var meðal stofnenda Sláturfélags Suðurlands og studdi að stofnun Eimskipafélags Íslands. Eggert mun hafa gert vothey fyrstur manna á Íslandi, samanb. rit hans um votheysgerð: „18 ára aðferð mín um hirðingu og notkun votheys“ og ritgerð í Búnaðarritinu 1902 og víðar.
Fyrsta plóginn flutti Eggert í hreppinn laust fyrir 1880 og notaði mikið eins og Meðalfellstúnið sýndi ljóslega; var yfir 60 dagsláttur löngu áður en almennur skriður komst á túnræktina með Jarðræktarlögunum frá 1924. Keypti hann sláttuvél 1904 og aðra 1907, sem hann notaði óslitið framundir 1930.
Hann var og brautryðjandi á ýmsum fleiri sviðum í bættri verktækni og vinnutilhögun. Eggert mældi fyrir áveitum og uppþurrkun mýrlendis, bæði í Kjós og víða um Kjalarnesþing.
Hann kom sér upp ágætum nautgripastofni, er þekktur var að gæðum hérlendis og jafnvel utan landsteinanna. Meðal annars seldi hann úrvals kú til Færeyja fyrir milligöngu B.Í. og kynbótanaut að Hvanneyri og vestur á Barðaströnd.
Fyrir sín margháttuðu störf í þágu íslenzks landbúnaðar, var Eggert kosinn heiðursfélagi í Búnaðarfélagi Kjósarhrepps og Búnaðarsambandi Kjalarnesþings og sæmdur riddarakrossi Fálkaorðunnar 1938.
Þá er eftir að geta annars þáttar í ævistarfi Eggerts, lækninga hans og liðsinnis við sjúka og bágstadda. Hann stundaði smáskammtalækningar með ágætum árangri og batt um brot og gerði að benjum, bæði manna og dýra, ef slys bar að höndum, því að langt var læknis að leita, suður til Hafnarfjarðar. Stutt dæmi sýnir bezt viðbrögð Eggerts, er slys bar að höndum og skýrir auk þess skaphöfn hans mæta vel.
Það mun hafa verið á útmánuðum 1890, að Einar Jónsson unglingspiltur frá Skorhaga, missti skot úr framhlaðning í lærið á sér, þar sem hann var á fuglaveiðum niður við Brynjudalsvog. Einar reyrði fyrir ofan sárið og skreiddist heim á leið, þangað til að hann gat látið heyra til sín.
Jón, faðir Einars, brá síðan við og leitaði á náðir fyrirmanna hreppsins um fyrirgreiðslu við lænisvitjunina suður til Hafnarfjarðar, sem ekki voru nein heimatök í þá daga, og mjög fágætt, að menn hefðu hesta á járnum að vetri til.
Jón fór bónleiður frá þeim fyrsta, sem hann leitaði til. Hann hafði engin tök á því að nálgast lækni, þótt líf lægi við.
Sá næsti, er Jón heimsótti, gaf á því nokkurn kost að ná í lækninn með því skilyrði þó, að Jón fóðraði ferðahestana til vors, því að fóðurþyngri yrðu þeir eftir slíkt ferðalag. Þetta reyndist sama og afsvar, því að Skorhagi hefir aldrei verið heyskaparjörð, og síst á þeim harðindaárum, er þá gengu.
Þá leitaði Jón til frumbýlingsins á Meðalfelli, þótt hann væri hvorki eins áhrifamikill þá né efnaður og hinir fyrri. Jú, það var ekki nema sjálfsagt og guðvelkomið. Eggert sótti lækninn og flutti inn að Skorhaga, þar sem gert var að sárum Einars. En Eggert gerði meira. Hann flutti Einar með sér suður að Meðalfelli og gætti þar sársins þar til gróið var og tók enga greiðslu fyrir ómakið. En þetta voru ekki nema venjuleg viðbrögð Meðalfellshjónanna, er veikindin eða bágar ástæður bar að garði nágrannanna. Þessa sögu sagði Einar mér sjálfur, og óskaði þess jafnframt, að hann væri maður til að koma henni í varanlega geymslu.
Þó að Eggert á Meðalfelli kæmi mörgum áhugamálum sínum áleiðis, munu þó fleiri hafa legið hjá garði. Hann var of langt á undan samtíð sinni til þess að þau gætu rætzt, og of óvæginn í ábendingum sínum, einkum við þá, er meira máttu sín. En meðan nokkur maður er ofar moldu, er kynntist kærleiksverkum þessara sæmdarhjóna, verður minnig þeirra blessuð og dáð.
¹) Leiðr. (Heimaslóð)


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit