Ritverk Árna Árnasonar/Dýrlegt er að dvelja

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Dýrlegt er að dvelja


Herjólfsdalur
Dýrðlegt er að dvelja
í Dalnum sumarprúða.
Fátt er talið fegra
en fjöllin þar í skrúða.
Gullnir röðulgeislar
gefa koss á vanga.
Dvel ég þar í draumi
daga marga og langa.
V E S T M A N N A E Y J A R
Tileinkað „Þjóðhátíð Vestmannaeyja“
1. Heimaey þú hafsins gyðja,
hrikaleg en fögur þó.
Þér er helguð öll vor iðja,
athöfn jafnt á landi og sjó.
Storknun elds skal rjúfa og ryðja,
rækta flöt úr hrauni og mó.
Framtíð þeirra og farsæld styðja
fortíðin, sem erfðir bjó.
2. Allt í kringum eyja-hringinn
Ægis-dætur bylta sér.
Við austanrok og útsynninginn
um þær vígamóður fer.
Léttast brýr við landnyrðinginn
löðra þá við klett og sker,
hæglátar við hányrðinginn
hjala blítt um strönd og vor.
3. Hamragarðsins hæsti tindur,
hjúpaður fjarskans bláa lit.
Um þig leikur vatn og vindur,
vanur súg og fjaðraþyt.
Veit ég margan grípur geigur
gæjast fram af hárri brún,
þar sem aðeins fuglinn fleygur
flaggið sýnir efst við hún.
4. Athyglina að sér dregur
eyjar-tangi höfði stór.
Þar upp liggur vegna vegur,
víðast kringum fellur sjór.
Fuglabjörg á báðar hendur,
brekka grösug ofan við,
efst þar vita-virkið stendur,
varnar-stöð um mannlífið.
5. Fuglamæður fagna, vitja,
fjölbreytt eru þeirra störf.
Aðrir uppi á syllum sitja,
söngva hefja af innri þörf.
Undirleikinn annast sjórinn,
yrkir stormur lag og brag.
Þúsund radda kletta-kórinn
kyrjar þarna nótt og dag.
6. Yfir, hvar sem auga lítur,
eitthvað fagurt blasir við.
Aðdáunar allra nýtur
eyjan tengd við sumarið.
Náttúrunnar nægð ei þrýtur,
naumast skortir örlætið.
Hver, sem hennar boðorð brýtur,
brestur heill og sálar-frið.
7. Hömrum kringdi Herjólfsdalur,
hátíð‘arinnar meginstöð,
skín nú eins og skemmtisalur
skreytt er fánum tjaldaröð.
Njótum dagins, hrund og halur,
hresst og yngd við sólarböð.
Truflar enginn súgur svalur,
söngva hefjum frjáls og glöð.
8. Hundruð fólks á staðinn streymir,
staður þessi er mörgum kær.
„Saga“ engum gögnum gleymir,
þótt gamli tíminn liggi fjær.
Skyggnan anda örlög dreymir,
atburðirnir færast nær.
Stærsta sönnun staðreynd geymir,
stóð hér forðum Herjólfs-bær.
9. Rústir hans úr rökkri alda
risið hafa í nýja tíð,
þar sem skriðan kletta kalda
kviksett hafði fé og lýð.
„Sögn “ er – krummi kænn og vitur
konu einni lífið gaf,
meðan urðar-bylgjan bitur
bóndans setur hlóð í kaf.
10. Yfir þessu undralandi
einhver töfraljómi skín.
Sem perludjásn á bylgjubandi
blómgar eyjar njóta sín.
Sær og vindur síherjandi
sverfa fuglabjörgin þín.
Þó er sem vaki verndarandi
veiði svo hér aldrei dvín.
11. Njóttu allra góðra gjafa,
glæsilega eyjan vor,
meðan röðulrúnir stafa
ránarflöt og klettaskor.
Föður, móður, ömmu, afa
enn þá greinast mörkuð spor.
Æskan má ei vera í vafa,
vernda drengskap, kraft og þor.
12. Sit ég þar á sumarkveldi,
silfrar jörðu döggin tær.
Vestrið, líkt og upp af eldi,
aftanroða á fjöllin slær.
Nóttin vefur dökka dúka
dularfullt og rökkurhljóð.
Berst mér gegnum blæinn mjúka
báruhljóð sem vögguljóð.
Heimaey
Vér elskum fögru fjöllin þín
með fagurgrænar hlíðar,
er blánar loft og sólin skín
og særinn málar fríðar.
Af björgum myndir ljúfum lit
með list hins æðsta prýði.
Það litaskrúð og geislaglit
er guða fegurst smíði.
Ég tigna þig, er austan átt
með ölduróti bylur.
Þá hafið bláa er grett og grátt
og grafar söngva þylur.
Þó hrifsi það í hyldjúp sitt
margt harðfengt kappavalið,
það hefur lýði, landið mitt,
um liðna tíma alið.
Ég elska þína björtu byggð
sem barnið göfga móður.
Hver steinn, hvert strá á mína tryggð,
hver strandarklettur hljóður.
Ég allt í þínum faðmi finn,
sem fegurst lífs ber merki.
Ég treysti, að sérhver sonur þinn
þér sýni tryggð í verki.
Flugin
Fjalla enginn fyrður má
Flugin laus að tildra.
Þær eru, held ég, Heimaey á
Heljar mesta gildra.
Hákollahamar
Hákolla ég hamar má
hættulegan greina.
Barðist ég þar böndum á
bjargs við lausa steina.Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit