Ritverk Árna Árnasonar/Þokan

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Þokan


Eftir því sem ég hef heyrt, hefir Siggi gamli Fúsa (Sigurður Vigfússon frá Fögruvöllum hér) aldrei verið álitinn neinn sérstaklega mikill víkingur í verki, hvorki á sjó né landi. En hann vill nú láta það heita annað.
Einu sinni sagði hann mér, að formaðurinn hefði kallað sig eins og vant var, snemma morguns, þótt fáir ætluðu sér á sjóinn þann daginn. Þeir réru langt suður fyrir Sker, en öfluðu fremur treglega. En rétt, er halda skyldi heim, skall á niðaþoka, svo dimm að slíkt voru fádæmi. Halda þeir nú heim á leið og róa lengi, en allt kemur fyrir ekki.
Nú fara menn að örvænta um hag sinn, því að enginn veit, hvað gera skuli. Kallar nú formaður til Sigga og lætur svo um mælt, að ef hann ekki treystist til að ná landi, muni það vart vera á annarra færi. Siggi gamli stýrir nú lengi í þveröfuga átt við það, sem áður var gert og hélt þannig langa lengi áfram og fóru skipverjar smám saman að ókyrrast og létu það óspart í ljósi, að ekki mundi þessu vel lykta, ef ekki yrði þá þegar tekin aftur stjórnin af Sigga gamla.
Skipstjóri sagði fátt, en var farinn að verða þungbúinn á svipinn. Siggi gamli sat hinn rólegasti við stýrið, þögull eins og gröfin og lét sig engu skipta, hvað hinir sögðu.
Allt í einu kallar einn, sem var frammi í stafni og sagðist nú sjá land framundan. „Á, - sástu land?“ sagði Siggi gamli og stóð upp, en allir létu í ljósi aðdáun sína á aðgerðum Sigga. – Þeir voru þarna komnir upp undir Suðurey og var þaðan auðratað heim.
Og hver segir svo, að Siggi gamli Fúsa hafi ekki verið góður á sjó að hafa í slíku tilfelli, sem þessu?

Snið:ÁrniÁrnason