Ritverk Árna Árnasonar/ÁLSEY

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


ÁLSEY



ctr


Álsey er stærst af suðureyjunum, há og grösug. Hæð hennar er 144 metrar, hömrum gyrt á alla vegu, nema mót austri. Þar er hún afflá og grasi vaxin niður undir sjóflár, en brekkurnar mjög brattar og slæmar yfirferðar vegna þess, hve þær eru útgrafnar af lundanum. Hún er öll grasi vaxin ofan brúna og er sauðfé á beit þar vetur og sumar, þó miklu fleira á sumrin.
Uppganga í eyjuna er mót austri við svonefndan Lundakór og Ögmundarkór. Þar eru miklar undirflár, sem eru hættulegar bátum, er þeir leggja þar að. Hafa og orðið þar slys á mönnum, en þó færri en ætla mætti.
Mjóistígur heitir tangi, sem er allhár klettadrangur áfastur eynni, en hægt að fara út í hann um fjöru. Þar verpa nokkrar álkur.
Einnig er farið upp í eyna við svonefnt Þjófanef, sem er norðausturhorn eyjarinnar. Það er allhátt og vegur þar upp ekki vel góður. Hann er hins vegar oft farinn enn þann dag í dag, ef ófært er við Flárnar, sem kallað er, þ.e.a.s. við Lunda- og Ögmundarkór, t.d. í austan átt. Gott er að leggja að Þjófanefi, enda er þar engin undirflá, en hyldýpi, og geta mótorbátar hæglega lagst þar að. Komið hefir fyrir að mótorbátur hefir lagst að Flánum mót austri, en það eru sárafáir, sem hafa teflt á þá hættu.
Eftir Álsey endilangri efst liggur hryggur. Frá Nónhaus nefnist þetta Sléttimoldi allt suður að austurbrún. Þar heitir Lend.
Brekkan mót austri klýfst af tveim stórum giljum. Heitir það Nyrðra Nóngil, nær það upp að rótum Djúpafless, allt frá viðlegukofanum að heita má. Hitt gilið nefnist Vatnsgil. Nær það frá nyrstu brún Búðarhamars og Bringjunum allt í sjó niður. Þar þrýtur aldrei vatn, og er það einn besti kostur eyjarinnar gagnvart mönnum og skepnum.
Í eynni verpir ógrynni af lunda, fýl, svartfugli, ritu, sæsvölum, skrofum og nokkuð af máfum. Þeim síðastnefndu hafa þó veiðimenn nær því útrýmt úr eynni. Þykja máfar og veiðibjöllur mestu vargar í lundabyggðinni, svo að alltaf hefir verið steypt undan þeim á varptíma þeirra eða ungarnir teknir, áður en þeir fljúga, og aflífaðir. Þess utan hefir svo verið skotið mikið af þessum veiðivörgum, hröfnum, veiðibjöllum og máfum, svo heita má að ránfuglum þessum sé nú alveg útrýmt úr eynni.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit