Pétur Andersen (vélstjóri)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Pétur Andersen.

Pétur Andersen vélstjóri fæddist 16. desember 1943 á Hásteinsvegi 27 og lést 1. nóvember 2009.
Foreldrar hans voru Knud Andersen frá Sólbakka, vélstjóri, skipstjóri, yfirverkstjóri, f. 23. mars 1913, d. 13. desember 2000, og kona hans Rakel Friðbjarnardóttir frá Götu, húsfreyja, f. 19. ágúst 1918, d. 23. maí 1993.

Börn Rakelar og Knuds:
1. Ingibjörg Jóhanna Andersen húsfreyja, f. 14. desember 1939. Maður hennar var Óskar Þórarinsson, látinn.
2. Pétur Andersen vélstjóri, verslunarmaður, f. 16. desember 1943, ókvæntur.
3. Hafdís Andersen húsfreyja, f. 21. desember 1949, d. 11. nóvember 1997. Maður hennar er Sigurbjörn Hilmarsson.

Pétur var með foreldrum sínum í æsku.
Hann varð 3. bekkjar gaagnfræðingur í Gagnfræðaskólanum 1959, lauk vélstjóraprófi í Vélskólanum 1969.
Pétur hóf ungur störf í Hraðfrystistöðinni, síðan hjá Netagerðinni Ingólfi um tvítugt.
Hann var háseti á millilandaskipinu Langjökli 1966 og á Hofsjökli sama ár til aprílmánaðar 1967.
Pétur var II. vélstjóri á Öðlingi VE í maí 1967, en fór aftur á Hofsjökul 1968 og var smyrjari.
Hann reri á Sindra VE á vertíðinni 1969, fór til Noregs á því ári og var á millilandaskipum til 1971, er hann sneri til Eyja og var II. vélstjóri á Frá VE og á sama ári I. vélstjóri á Danska Pétri VE og 1972 var hann vélstjóri á Metu VE.
Pétur fór til Noregs eftir Gosið 1973, var aðstoðarvélstjóri á millilandaskipi og sigldi víða, en 1981 sneri hann heim, var á reknetum á Frá VE.
Hann hætti sjómennsku 1982 og hóf störf í versluninni Brimnesi og vann þar til 2001, en vann síðan hjá Ingibjörgu systur sinni og Óskari.
Hann ferðaðist og dvaldi á vetrum í Austurlöndum fjær.
Pétur kvæntist ekki, bjó hjá foreldrum sínum og síðar hjá föður sínum á Hásteinsvegi 27. Hann keypti íbúð við Faxastíg eftir lát föður síns, bjó þar um skeið, en síðar í húsi Ingibjargar systur sinnar.
Pétur dvaldi síðast í Hraunbúðum.
Hann lést 2009.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.