Marteinn Jón Skaftfells

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Marteinn Jón Magnússon Skaftfells.

Marteinn Jón Magnússon Skaftfells frá Auðnum (Skurðbæ) í Meðallandi, V.-Skaft., kennari, kaupaður fæddist þar 4. ágúst 1903 og lést 20. febrúar 1985.
Foreldrar hans voru Magnús Jónsson Skaftfells, f. 4. mars 1876 á Grímsstöðum í Meðallandi, V.-Skaft., d. 16. september 1941 í Rvk, og kona hans Unnur Ingibergsdóttir húsfreyja, f. 22. desember 1881 á Oddum í Meðallandi, d. 27. júní 1975.

Börn Unnar og Magnúsar:
1. Óskar Jón Magnússon Skaftfells, f. 10. febrúar 1900, d. 8. október 1976.
2. Marteinn Jón Magnússon Skaftfells kaupmaður, kennari, f. 14. ágúst 1903, d. 20. febrúar 1985.

Marteinn var með foreldrum sínum á Feðgum í Meðallandi til 1904, í Langholti þar 1904-1905, á Feðgum þar 1905-1906, í Sandaseli þar 1906-1908, í Reykjavík 1908-1909, á Hvaleyri við Hafnarfjörð 1909-1910. Þá fór hann að Gíslakoti á Álftanesi.
Hann kom til Eyja 1920, var þar með foreldrum sínum í Háagarði á því ári.
Hann kom frá Skógtjörn á Álftanesi til Suður-Víkur í Mýrdal 1924, var vinnumaður þar til 1925, fór þá aftur að Skógtjörn.
Hann nam við Alþýðuskólann á Hvítárbakka 1925-1926, í Gagnfræðaskólanum á Akureyri 1926-1928 (síðari veturinn óreglulegur nemandi í 4. og 5. bekk). Hann lauk kennaraprófi 1933, sótti námskeið í Askov 1938, nam í Kennaraháskólanum í Khöfn 1938-1939 (barnasálarfræði o.fl.), heimsótti skóla í Svíþjóð, Noregi og Þýskalandi. Hann sótti tíma í hljóðfræði í H.Í. 1941 og 1943, sótti námskeið í íslensku hjá Birni Guðfinnssyni 1945-1946, fór í námsferðir til útlanda 1949, 1956 og 1957.
Marteinn var kennari í Leiðvallahreppi í V.-Skaft. 1931-1932, í Miðbæjarskólanum 1933-1946, Melaskólanum frá 1946.
Hann stofnaði heildverslunina Elmaro 1946 og skógerð 1948, rak hana í 2 ár.
Hann var æðsti templar stúkunnar Siðhvöt á Álftanesi um skeið, gæslumaður unglingastúkunnar Jólagjafar 1934-1936, var fyrsti formaður Íþróttafélagsins Þráins á Álftanesi 1922, formaður Kennarafélags Miðbæjarskólans í 2 ár, í stjórn Náttúrulækningafélags Reykjavíkur í mörg ár, í stjórn Gróanda (félag Nátúrulækningamanna) frá stofnun 1949, í stjórn Sambands Náttúrulækningafélaga frá stofnun 1949-1957. Hann var framkvæmdastjóri nefndar til að undirbúa stofnun heilsuhælis Náttúrulækningafélags Íslands, formaður í stjórn Pöntunarfélags Náttúrulækningafélags Reykjavíkur (NLF-búðin) frá stofnun.
Rit:
Íslensk málfræði (ásamt Magnúsi Finnbogasyni), 1940.
Greinar í Heilsvernd, Foreldrablaðinu o.v.
Þýðingar: Litla bókin mín, 10-12 hefti, barnabækur, 1937-1939. Í heimavistarskóla (Louis f. G. de Geer), 1939. Ævintýri bókstafanna (Astrid V. Skaftfells), 1942.
Marteinn sá um útgáfu á: Stafaspilið, 1942. Skaftfellskar þjóðsögur og sagnir (Guðmundur J. Hoffell), 1946.
Hann var ritstjóri: Harpa 1937, var í ritstjórn Heilsuverndar.
Þau Þórunn giftu sig 1930, eignuðust tvö börn, skildu 1936.
Þau Astrid giftu sig 1939, eignuðust eitt barn.
Marteinn Jón lést 1985.

I. Kona Marteins, (1930, skildu 1936), Þórunn Björnsdóttir, f. 30. nóvember 1898, d. 2. ágúst 1983. Foreldrar hennar voru Gunnlaugur Árni Björn Sigfússon bóndi í Möðrudal á Fjöllum, f. 12. september 1860, d. 1. nóvember 1943, og kona hans Guðný Þorsteinsdóttir húsfreyja, f. 9. júní 1865, d. 2. ágúst 1983.
Börn þeirra:
1. Heiðar Bergur Marteinsson kvikmyndagerðarmaður í Eyjum og Reykjavík, f. 25. apríl 1931, d. 1. janúar 2012.
2. Venný Jóhanna Björg Marteinsdóttir (Keith), húsfreyja, býr í New York, f. 24. apríl 1935.

II. Kona Marteins, (30. júní 1939, Astrid Vik Magnússon hjúkrunarfræðingur, f. 23. október 1911. Foreldrar hennar Thor Vik bóndi og síðar stofnandi smíða- eða verknámsskóla í Blakstad í Noregi, og kona hans Hege Maria, f. Sundsli.
Barn þeirra:
3. Hákon Magnús Marteinsson Skaftfells, framkvæmdastjóri, f. 2. janúar 1945, d. 13. septrember 2013.



Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.
  • Kennaratal á Íslandi. Ólafur Þ. Kristjánsson og fleiri. Prentsmiðjan Oddi 1958-1988.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.