Magnús Kristjánsson (kaupmaður)
Magnús Kristjánsson frá Tindum í Dalasýslu, kaupmaður, fæddist 14. ágúst 1929 á Reynikeldu þar og lést 1. janúar 2017.
Foreldrar hans voru Kristján Friðberg Bjarnason bóndi á Reynikeldu og Tindum, f. 29. ágúst 1905, d. 15. apríl 1972, og sambýliskona hans Una Björnsdóttir frá Reynikeldu í Dalas., húsfreyja, f. 28. janúar 1899, d. 4. júlí 1935 í Reykjavík.
Magnús var með foreldrum sínum fyrstu ár sín, en móðir hans lést í Reykjavík 1935. Hann var með föður sínum og Ragnheiði Stefaníu Þorsteinsdóttur síðari konu hans á Tindum til 1950, er hann flutti úr sveitinni.
Þau Sigurbjörg giftu sig 1950 í Eyjum, eignuðust tvö börn og Þóra dóttir Sigurbjargar var með þeim. Þau bjuggu í fyrstu á Sólheimum, en síðar á Heiðarvegi 61 og þar við Gos, en eftir Gos á Vesturbergi 2 og síðan á Háaleitisbraut 121 í Reykjavík.
Þau hófu verslunarrekstur árið 1956 á Sólheimum, þar sem Ólafur faðir hennar hafði rekið verslun, og síðar við Bárustíg.
Verslunin hét Verslun Sigurbjargar Ólafsdóttur en oftast kölluð Verslun Siggu Sól, kennd við Sólheima, og Magnús var nefndur Maggi máni í stíl við konu sína. Ættingjar telja að hjónunum hafi þótt einkar vænt um nafngiftirnar.
Þau sneru ekki til Eyja eftir Gos, en héldu áfram að versla í versluninni Donnu og Hólakoti í Reykjavík, þar sem þau höfðu sest að.
Magnús lést 2017 og Sigurbjörg 2020.
I. Kona Magnúsar, (6. mars 1950), var Sigurbjörg Ólafsdóttir frá Sóheimum, kaupkona, f. 12. desember 1923 að Hlíð u. Eyjafjöllum, d. 8. janúar 2020 í Reykjavík.
Börn þeirra:
1. Ólafur Magnússon heildsali, f. 5. janúar 1952. Kona hans Katrín Indíana Valentínusdóttir.
2. Elfur Magnúsdóttir húsfreyja, bankastarfsmaður, f. 12. desember 1966. Maður hennar Sæmundur Jónsson.
Barn Sigurbjargar og fósturbarn Magnúsar:
3. Þóra Eyland Elíasdóttir húsfreyja, dagmóðir, f. 17. mars 1945. Maður hennar Stefán Guðbjartsson. Þau búa á Spáni.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Elfur Magnúsdóttir.
- Íbúaskrá Vestmannaeyja 1972.
- Íslendingabók.is.
- Manntöl.
- Morgunblaðið 17. janúar 2020. Minning Sigurbjargar.
- Prestþjónustubækur.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.