Lilja Þorbjörnsdóttir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Arnþrúður Lilja Þorbjörnsdóttir tónsmiður fæddist 19. desember 1963 í Rvk og lést 7. maí 2025.
Forelddrar hennar Arnþrúður Lilja Gunnbjörnsdóttir, f. 28. nóvember 1942, d. 10. febrúar 1964, og Þorbjörn Guðfinnsson, f. 1. apríl 1945, d. 25. september 2008.

Lilja lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund 1983. Hún hóf ung að læra á píanó, fyrst hjá Jóni Stefánssyni, organista við Langholtskirkju, og síðar við Tónlistarskólann í Reykjavík 1979-1986 og Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar 1988-1989. Þá lærði hún saxófónleik 1988-1992 við Tónlistarskóla FÍH og Tónlistarskólann í Reykjavík. Hún lauk tónfræðadeildarprófi 1996 frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og stundaði tónmenntakennaranám við sama skóla. Þá stundaði hún einnig nám á meistarastigi í tónlistartækni við Álaborgarháskóla í Danmörku 1998-2001 og tók ýmis námskeið 1995-2000 í Frakklandi, Danmörku og á Íslandi um hljóðhönnun, tónsmíðaforrit og vefsíðugerð. Lilja lauk tölvuviðgerðarnámi 2002. Lilja samdi og sá um tónlist fyrir barnaleikritið Ævintýrið sem unnið var og flutt í tengslum við Höfundasmiðju Borgarleikhússins 1995. Hún sá einnig um undirleik við ballettkennslu hjá Listdansskóla Þjóðleikhússins 1983-1985. Þá annaðist hún tónmenntakennslu við Hjalla- og Digranesskóla 1983-1984 og tók nemendur að sér í einkatíma á píanó. Lilja vann sem ritari við Tónskóla Sigursveins og RÚV og sem læknaritari meðal annars við Landspítalann. Þá vann hún í verkefni á vegum Þjóðskjalasafnsins við textainnslátt vegna manntala á Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja 2008-2010. Eftir það tók hún að sér ýmis verkefni, einkum tónlistartengd, fyrir Safnahúsið í Eyjum. Lilja var valin skólaskáld við MS og stofnaði hljómsveitina Mömmurnar með skólafélögum sínum. Lilja samdi fjölda laga og tónverka á lífsleiðinni. Hún fékk fyrstu verðlaun í samkeppni Háskóla Íslands um háskólalag „Vísindin efla alla dáð“ árið 2000 og í samkeppni um söng Fjölbrautaskólans í Garðabæ 1995 á vegum menningarmálanefndar Garðabæjar. Þá samdi Lilja lag við sálm eftir Jón Þorsteinsson, prest í Vestmannaeyjum á 17. öld, sem frumflutt var við opnun Einarsstofu í Vestmannaeyjabæ 2011.



Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.