Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Krukkspá

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
(Endurbeint frá Krukkspá)
Fara í flakk Fara í leit


Krukkspá.


Kunnust allra íslenzkra spádóma mun Krukkspá vera. Höfundur hennar er talinn Jón Guðmundsson hinn lærði, og benda líkur til, að hún rnuni ekki vera samin fyrri en um 1650. Í Krukkspá eru ýmsir spádómar um Vestmannaeyjar og í viðaukum við hana frá seinni tímum. Fara hér á eftir þau atriði, sem snerta Vestmannaeyjar, en skýringum hef ég bætt við innan sviga. Krukkspá er prentuð í Þjóðsögum og munnmælum dr. Jóns Þorkelssonar bls. 213—227, og er hér farið eftir þeirri útgáfu:
„Anno 1514 spáir Jón krukkur eina jólanótt, að eftir biskupinn, herra Gísla (Jónsson) kemur Oddur (Einarsson) hinn hái úr Austfjörðum. Hann verður friðsamur höfðingi. En að er nokkuð, þó vel fari, því hann aftekur siðugan lifnað, en fylgir fast Kristi krossi. Um þann tíma ríkir Goðbrandur (Guðbrandur Þorláksson) hinn mikli á Hólum. Báðir þeir biskupar verða ellimóðir. En á móti þeirra burtferð verða þau undur, að ræningjar koma á Austfjörðu og Vestmannaeyjar, hverjar þá verða rændar og fólk hertekið. Þá verður prestlaust í Vestmannaeyjum. (Séra Ólafur Egilsson á Ofanleiti var hernuminn, en séra Jón Þorsteinsson var veginn).
...
Anno 1517 spáir Jón krukkur eina þrettándadagsnótt...
Um þann tíma verða Eyjar rændar í þriðja sinn, en ekki upp brenndar fyrri en á því ári, er Brandólfur (Brynjólfur Sveinsson biskup) mun við Skálholt skilja...
Anno 1523, á því ári, sem Jón hvíldist á hans kerlingardag, þá hafði verið hjá honum maður sá, sem kallaður var Oddur kokk. Þá hafði hann sagt, að Vestmannaeyjar mundi óbyggðar sakir ræningja og hafnaleysis...
Eina miðsvetrarnótt lá Jón úti. En að morgni sagði hann: Þrír prestar verða í einu í Vestmannaeyjum, og verða tveir teknir, en einn kemst á land. Þá verður hörmung þar, því aumur verður endir á heimi þessum. Betra er að vera þá mold orðinn í jörðu í nafni Krists og Maríu.
...
Vestmannaeyjar verða rændar þrem sinnum, þrisvar hertekið fólk og brenndir bæir. Eftir það eru sendir ræningjar frá páfanum, brennast þær þá og eyðast, svo þær byggjast ekki þaðan í frá, utan þar verða verskálar af landi...
Í Vestmannaeyjum er það í munnmælum, að Jón krukkur hefði einnig spáð því, að Tyrkir mundu ræna að nýju, þegar Erlendur yrði prestur í Odda og Hálfdán prestur að Ofanleiti. Greip nokkur uggur menn, þegar séra Hálfdán Helgason sótti um Ofanleitisbrauð árið 1924, og telja sumir að þessa hafi gætt við prestskosninguna.