Jón Pétursson (sálfræðingur)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Jón Pétursson og Ingibjörg Finnbogadóttir.

Jón Pétursson frá Akranesi, sálfræðingur, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar fæddist 12. nóvember 1962.
Foreldrar hans Pétur Steinar Jóhannesson lögregluvarðstjóri, f. 6. ágúst 1942, og kona hans Magnea Guðfinna Sigurðardóttir húsfreyja, húsfreyja í safnaðarheimilinu Vinaminni á Akranesi, f. 6. september 1943.

Jón ólst upp hjá foreldrum sínum á Akranesi, við Esjubraut 41.
Hann var í tímakennslu hjá Kristínu á Geirastöðum, skammt frá heimili sínu, gekk síðan í Grunnskólann á Akranesi og Fjölbrautarskólann þar, varð stúdent, fór í nám í sálarfræði í HÍ, lauk fyrri hluta lögregluskólans, lauk réttindaprófi í klínískri sálafræði í Lundi í Svíþjóð 1991 auk viðbótarprófs í psykotherapíu.
Jón vann ýmis störf með námi, m.a. hjá H.B. og Co, Akri, Þorgeiri og Ellert og nokkur sumur vann hann á vöktum hjá Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga.
Hann var kennari í Grunnskóla Akraness og var um skeið lögreglumaður í Rvk.
Í ágúst 1992 var Jón ráðinn sálfræðingur við fræðsluskrifstofu Suðurlands með aðsetur í Eyjum. Starfið var samstarf við Vestmannaeyjabæ og verkefni sálfræðinga á sviði fræðslumála, félagsþjónustu og barnaverndar. Fljótlega færðist starfið alfarið í hendur Vestmannaeyjabæjar. Hann vann við þetta til ársins 2006, en varð þá framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar, sem er bland af verkefni félagsmála- og fræðslustjóra auk íþrótta- og æskulýðsstjóra.
Jón var í KFUM-K á Akranesi, sat í stjórn Íslendingafélagsins í Lundi, starfaði við útvarpssendingar og söng í kór, var í Rótarýklúbbi Vestmannaeyja, gegndi þar starfi forseta og gjaldkera um skeið, var í Kiwanisklúbbi Helgafells, í Golfklúbbnum, söng í kór Framnaldsskóla Vesturlands, Samkór Vestmannaeyja og Karlakór Vestmannaeyja og verið í stjórnum þessara kóra.
Þau Anna Karen giftu sig, eignuðust eitt barn. Þau bjuggu um skeið í Lundi í Svíþjóð, en skildu.
Þau Ingibjörg giftu sig og er Jón fósturfaðir barna hennar frá fyrra sambandi. Þau búa við Fjólugötu 17.

I. Kona Jóns, skildu, er Anna Karin Pétursson, sænskrar ættar, f. 15. júlí 1964.
Barn þeirra:
1. Viktor Pétur Jónsson starfsmaður Safnahússins í Eyjum, býr við Foldahraun, f. 14. júlí 1985. Kona hans Ingigerður Helgadóttir.

II. Kona Jóns er Ingibjörg Finnbogadóttir húsfreyja, f. 9. júlí 1961.
Börn hennar úr fyrra sambandi með Sigurði Páli Guðjónssyni:
1. Jóna Sigrún Sigurðardóttir, heilbrigðisverkfræðingur hjá Össuri, f. 9. apríl 1990. Maður hennar Andrew Bache.
2. Berglind Dúna Sigurðardóttir, Iðnaðarverkfræðingur í Svíþjóð, f. 12. október 1994. Sambúðarmaður hennar Eric Herwin.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.