Jóhanna Magnúsdóttir (Staðarhól)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Guðrún Jóhanna Magnúsdóttir.

Guðrún Jóhanna Magnúsdóttir frá Másseli í Jökulsárhlíð í N-Múl., húsfreyja fæddist 1. mars 1917 á Surtsstöðum þar og lést 16. október 2002 á Sjúkrahúsi Seyðisfjarðar.
Foreldrar hennar voru Magnús Arngrímsson, þá lausamaður á Surtsstöðum, síðar bóndi á Hallgeirsstöðum, Másseli og víðar, f. 21. febrúar 1887, d. 30. júní 1977, og kona hans Guðrún Helga Jóhannesdóttir, síðar húsfreyja, f. 10. desember 1896 í Syðri-Vík í Vopnafirði, d. 11. júní 1951.

Jóhanna var með foreldrum sínum í æsku, með þeim á Surtsstöðum og á Hallgeirsstöðum 1920, í Másseli 1930.
Hún var nokkra vetur í barnaskóla á Seyðisfirði og síðar einn vetur í Eiðaskóla.
Þau Sigurður giftu sig 1937, eignuðust fjögur börn. Þau bjuggu á Þórarinsstöðum til ársins 1943, er þau fluttust suður í Garð á Reykjanesi. Þar dvöldust þau um eins árs skeið og fluttu til Eyja í byrjun árs 1944. Þau bjuggu á Kirkjuvegi 67, Lambhaga við Vesturveg 19, en lengst á Staðarhóli, Kirkjuvegi 57. Þar bjuggu þau til Goss.
Þau bjuggu í Reykjavík 1973-1974, er þau fluttu til Seyðisfjarðar, þar sem þau bjuggu í Dröfn á Austurvegi 34 til áramóta 2001/2002.
Guðrún Jóhanna lést 2002 og Sigurður 2004.

I. Maður Guðrúnar Jóhönnu, (27. nóvember 1937), var Sigurður Magnússon frá Þórarinsstöðum í Seyðisfirði, sjómaður, verkamaður, ráðsmaður og bóndi á Þórarinsstöðum, verkstjóri, fræðimaður, f. 13. apríl 1909 í Svartahúsi á Þórarinsstaðaeyrum við Seyðisfjörð, d. 24. nóvember 2004 á Seyðisfirði.
Börn þeirra:
1. Þórunn Sigurðardóttir húsfreyja, hjúkrunarfræðingur í Garðabæ, f. 22. janúar 1938. Maður hennar Finnur Jónsson, látinn.
2. Magnús Helgi Sigurðsson bifvélavirki, vélsmíðameistari á Seyðisfirði, f. 29. júní 1947. Fyrrum kona hans Sigríður Stefánsdóttir. Sambúðarkona Inger Helgadóttir.
3. Ásdís Sigurðardóttir húsfreyja, skrifstofumaður í Reykjavík, f. 27. janúar 1950. Fyrrum maður hennar Sveinn Valgeirsson. Maður hennar Guðjón Einar Guðvarðarson, látinn.
4. Ólafur Már Sigurðsson deildarstjóri á Seltjarnarnesi, f. 29. nóvember 1953. Fyrrum kona hans María Ólafsdóttir. Kona hans Sigrún Kristín Ægisdóttir.



Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 26. október 2002. Minning.
  • Prestþjónustubækur.
  • Ættir Austfirðinga. Einar Jónsson og fleiri. Austfirðingafélagið í Reykjavík 1953-1968.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.