Halldór Jónsson (Helgabæ)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Halldór Jónsson tómthúsmaður, sjómaður í Helgabæ fæddist 14. desember 1832 í Lágu-Kotey í Meðallandi og drukknaði í apríl 1867.
Foreldrar hans voru Jón Jónsson bóndi, síðast á Grímsstöðum í Meðallandi, f. 22. október 1796 á Grímsstöðum, d. 19. september 1887 þar, og fyrri kona hans Guðrún Jónsdóttir húsfreyja, f. 1801 á Brunnum í Suðursveit, d. 29. júlí 1863 í Skurðbæ í Meðallandi.

Halldór var í frumbernsku með foreldrum sínum, var fósturbarn í Langholti í Meðallandi 1834-1835, í Skurðbæ 1835-1836 á Undirhrauni þar 1836-1848, á Syðri-Steinsmýri þar 1848-1853.
Hann var vinnumaður í Langholti 1856-1858, húsmaður þar 1858-1860.
Hann eignaðist barn með Elínu 1853, en það dó á fyrsta ári sínu.
Þau Jóhanna komu frá Langholti að Helgahjalli 1860 með barnið Jóhann á 3. árinu. Þau voru tómthúsfólk í Helgabæ á því ári, - og þeim fæddist Gunnar í september sama ár en misstu hann á fyrsta ári.
Guðrúnu eignuðust þau 1861.
Halldór missti Jóhönnu 1864 og varð að koma börnunum fyrir á heimaslóð í Meðallandi.
Hann var háseti hjá Magnúsi Oddssyni á þilskipinu Helgu, sem týndist í apríl 1867.

I. Barnsmóðir Halldórs var Elín Jónsdóttir frá Syðri-Steinsmýri í Meðallandi, V-Skaft., f. þar 20. september 1829, d. 9. desember 1880.
Barn þeirra var
1. Jóhanna Halldórsdóttir, f. 15. júlí 1853, d. 28. október 1853.

II. Kona hans, (17. júlí 1857), var Jóhanna Jónsdóttir húsfreyja, f. 24. júní 1833, d. 7. mars 1864.
Börn þeirra hér:
2. Jóhann Halldórsson, f. 4. nóvember 1857 í Langholti í Meðallandi. Hann var með foreldrum sínum í Langholti 1860, fór með þeim til Eyja á því ári, fór 7 ára í Meðalland 1864, var tökubarn í Langholt þar 1864-1869, á sveit á Syðri-Steinsmýri 1869-1871. Þá fór hann að Helliskoti. Hann var vinnumaður á Minni-Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd 1880.
3. Gunnar Halldórsson, f. 6. september 1860, d. 5. júlí 1861 „af kyrkingarveiki“.
4. Guðrún Halldórsdóttir verkakona, f. 14. nóvember 1861, d. 26. júlí 1933.
5. Jón Halldórsson, f. 10. janúar 1864, d. 11. mars 1864 „af almennri ungbarnaveiki“.


Heimildir