Högni Árnason (Þorlaugargerði)
Högni Árnason vinnumaður og fyrirvinna í Eystra-Þorlaugargerði fæddist 10. júní 1810 í Mýrdal og lést 2. júlí 1859.
Foreldra er ekki getið.
Högni var niðursetningur í æsku, í Pétursey og Hryggjum í Mýrdal, léttadrengur í Kerlingardal þar 1825-1826, á Götum þar 1826-1828.
Hann var kominn að Nýjabæ 1837, fluttist þaðan að Vilborgarstöðum 1837, var þar enn 1840.
Högni var vinnumaður í Steinmóðshúsi 1843, í Brekkuhúsi hjá Árna Guðmundssyni og Þóru Stígsdóttur 1844, á Steinsstöðum 1845 og 1846, í Þorlaugargerði hjá Sigþrúði og Ólafi Ólafssyni 1847-1850, fyrirvinna þar hjá Sigþrúði ekkju 1851-1858. Vinnukona þar þessi ár var Kristín Jónsdóttir. Þau eignuðust Grím þar 1853, en hann dó 10 daga gamall, sennilega úr ginklofa, sem oft var nefndur Barnaveikin.
Högni var niðursetningur á Fögruvöllum við andlát 1859, dó af „langvarandi brjóstþyngslum“, 47 ára.
I. Barnsmóðir Högna var Kristín Jónsdóttir vinnukona, f. 12. ágúst 1821, d. 27. nóvember 1894.
Barn þeirra var
1. Grímur Högnason, f. 17. október 1853, d. 27. október 1853 „af Barnaveikin“.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.is.
- Prestþjónustubækur.
- Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.