Guðmundur Þórðarson (Akri)
Guðmundur Þórðarson vélstjóri, útgerðarmaður á Akri fæddist 10. maí 1878 í Steig í Mýrdal og drukknaði 16. desember 1924.
Faðir hans var Þórður bóndi í Steig, f. 15. mars 1850 á Brekkum í Mýrdal, d. 29. júlí 1882 í Steig, Þórðarson bónda á Brekkum, f. 6. janúar 1798 á Brekkum, d. 26. maí 1862 þar, Ólafssonar bónda á Brekkum, f. 1759, d. 19. febrúar 1823 „í útveri suður í Leiru“, Guðmundssonar, og barnsmóður Ólafs, Ingveldar vinnukonu, f. 1763 á Brekkum, Árnadóttur.
Móðir Þórðar í Steig og síðari kona Þórðar Ólafssonar var Ragnhildur húsfreyja, f. 1809 í Holti í Álftaveri, d. 26. apríl 1892 á Brekkum, Gísladóttir bónda í Holti, f. 1768, d. 22. júní 1811, Jónssonar, og konu Gísla, Ingibjargar húsfreyju, f. 1766, d. 23. júní 1811, Vigfúsdóttur.
Móðir Guðmundar Þórðarsonar og kona Þórðar í Steig var Þuríður húsfreyja, f. 25. júlí 1851, d. 11. ágúst 1944 hjá Þórunni dóttur sinni á Setbergi í Eyjum, Ólafsdóttir bónda, síðast í Steig, f. 1812 á Flögu í Skaftártungu, d. 20. mars 1871, drukknaði í Dyrhólahöfn, Þorlákssonar bónda á Ytri-Sólheimum, f. 17. febrúar 1776 á Herjólfsstöðum í Álftaveri, d. 23. september 1839 á Ljótarstöðum í Skaftártungu, Jónssonar, og konu Þorláks, Elínar húsfreyju, f. 1771 í Ytri-Ásum í Skaftártungu, d. 21. september 1844, Loftsdóttur.
Móðir Þuríðar Ólafsdóttur og kona Ólafs Þorlákssonar var Halldóra húsfreyja, f. 15. september 1825 á Búlandi í Skaftártungu, d. 12. október 1917 á Hnausum í Meðallandi, Jónsdóttir bónda á Búlandi, f. 1787 á Búlandi, d. 13. mars 1875, Björnssonar, og konu Jóns Björnssonar, Oddnýjar húsfreyju, f. 2. september 1791 á Þverá á Síðu, d. 6. ágúst 1843 á Búlandi, Runólfsdóttur.
Systkini Guðmundar í Eyjum voru:
1. Þórunn Þórðardóttir húsfreyja á Setbergi, (Vesturvegi 23), f. 9. desember 1880 á Hörgslandi á Síðu, d. 19. maí 1980.
2. Snorri Þórðarson útvegsbóndi í Steini, f. 7. mars 1882, drukknaði við Eiðið 16. desember 1924.
Guðmundur var með foreldrum sínum í Steig til 1880, sveitarbarn á Stóru-Heiði í Mýrdal 1884-1886, barn á Efri-Steinsmýri í Meðallandi 1886-1887, tökubarn í Efri-Ey í Meðallandi og síðan vinnumaður þar 1887-1899, vinnumaður í Langholti þar 1899-1900, á Hörgslandi á Síðu 1900-1901, sagður þá farinn í Meðalland.
Hann fluttist til Eyja 1904, var vélstjóri á Akri 1910, „ýmis vinna við fiskveiðar“ á Akri 1920.
Guðmundur og Guðrún eignuðust Lárus 1907, bjuggu með Lárusi nýfæddum í Byggðarholti í lok ársins.
Þau giftu sig 1908 og voru komin á Akur í lok ársins.
Þau eignuðust tvö börn.
Guðmundur drukknaði við Eiðið 16. desember 1924, ásamt sjö öðrum, á leið út í es. Gullfoss. Guðrún lést 1928.
I. Kona Guðmundar, (10. janúar 1908), var Guðrún Hjálmarsdóttir húsfreyja, f. 12. apríl 1879 í Stóra-Dalssókn, d. 23. september 1928.
Börn þeirra voru:
1. Lárus Guðmundsson rafvirkjameistari, f. 13. nóvember 1907 í Byggðarholti, d. 18. febrúar 1985.
2. Sigríður Guðmundsdóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 9. desember 1909, d. 31. október 1996.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.is.
- Manntöl
- Minningarrit. Páll Oddgeirsson. Vestmannaeyjum 1952.
- Prestþjónustubækur.
- Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.