Guðmundur Pétursson (læknir)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Guðmundur Pétursson.

Guðmundur Pétursson frá Nesi í Selvogi, læknir, prófessor, forstöðumaður fæddist þar 8. febrúar 1933 og lést 23. janúar á Landspítalanum.
Foreldrar hans voru Pétur Magnússon læknir, f. 30. apríl 1911 á Hólmavík, d. 4. nóvember 1949 í Reykjavík, og barnsmóðir hans Bergljót Guðmundsdóttir kennari, húsfreyja í Torfabæ í Selvogshreppi, síðar í Reykjavík, f. 18. febrúar 1906, d. 11. júní 1980.
Fósturfaðir Guðmundar var Eyþór Þórðarson bóndi, f. 20. mars 1898, d. 6. október 1988.

Guðmundur ólst upp hjá móður sinni og manni hennar Eyþóri Þórðarsyni í Torfbæ í Selvogi.
Hann lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum í Reykjavík 1952 og prófum í læknisfræði í Háskóla Íslands 1959.
Hann var læknir í Eyjum 1956-1960, í Færeyjum, Kalmar í Svíþjóð og Hilleröd. Hann vann við krabbameinsrannsóknir við Sloan Kettering Institute í New York frá 1961-1964 og síðan frá 1964-1967 við rannsóknamiðstöðvar í Sviss, Institut Suisses de Recherches Experimentales sur le Cancer og Center for Electron Microscopy við háskólann í Lausanne.
Guðmundur varð forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum 1967 og gegndi því starfi til 1993, en vann áfram við rannsóknir við stofnunina.
Hann var kennari við Háskólann með starfi sínu að Keldum frá 1967 og var skipaður prófessor þar 1991 og gegndi starfinu þar til hann lét af störfum vegna aldurs 2003.
Rannsóknir Guðmundar beindust einkum að hæggengum veirusjúkdómum í sauðfé, sérstaklega að mæðivisnuveirunni. Guðmundur gegndi enn fremur fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Háskóla Íslands og Læknafélag Íslands, átti sæti í stjórnum og vísindanefndum innanlands og utan. Hann var mikilvirkur vísindamaður og eftir hann liggur fjöldi vísindagreina.
Guðmundur var mikill útivistarmaður og stundaði fjallgöngur og klifur. Hann kleif fjölda fjalla á Íslandi, en fór einnig utan að klífa fjöll, s.s. Mont Blanc og Matterhorn auk ferða til Himalaya til að klífa fjöll. Guðmundur var lengi í stjórn Ferðafélags Íslands og varaformaður þess frá 1986 til 1990, hann var leiðsögumaður í ótal ferðum á vegum félagsins. Hann var jafnframt félagi í Íslenska alpaklúbbnum. Hann ferðaðist vítt og breitt um Evrópu en einnig til landa í Asíu, Afríku og Suður- og Norður-Ameríku.
Þau Ásdís giftu sig 1956, eignuðust þrjú börn. Þau bjuggu í Eyjum 1956-1960.
Ásdís lést 2007 og Guðmundur 2017.

Kona Guðmundar, (19. maí 1956), var Ásdís Steingrímsdóttir húsfreyja, lífeindafræðingur, kennari, f. 28. júlí 1929, d. 1. september 2007 á líknardeild Landspítalans.
Börn þeirra:
1. Pétur Magnús Guðmundsson leiðsögumaður, f. 21. október 1956, d. 9. nóvember 2006. Maki hans Sveinn Haraldsson.
2. Bergljót Björg Guðmundsdóttir sérkennsluráðgjafi, f. 14. júní 1958. Fyrrum maður hennar Sigurþór Pálsson.
3. Steingrímur Eyfjörð Guðmundsson hljómlistarmaður, f. 8. janúar 1960, d. 2. nóvember 2009. Barnsmæður hans Sigrún Ólafsdóttir og María Gústafsdóttir.Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.
  • Læknar á Íslandi. Gunnlaugur Haraldsson. Þjóðsaga 2000.
  • Morgunblaðið 9. febrúar 2017. Minning.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.