Grasnytjar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Þótt aldrei hafi kveðið mikið að landbúnaði í Eyjum, var hann þó áður stundaður samhliða sjávarútvegi, bæði kúabúskapur og sauðfjárrækt. Grasnytjar voru góðar í Eyjum og þótti því sjálfsagt að nota þær. Gras var ekki eingöngu slegið á Heimaey, heldur var áður farið til heyanna í úteyjar og þótti það hey einkar kjarnmikið.

Eftir eldgosið 1973 lagðist kúabúskapur alfarið af í Eyjum en menn halda hér enn sauðfé. Enginn hefur þó fasta atvinnu af þeim búskap heldur er hér um „tómstundabændur“ að ræða. Þessi búskapur er öllu erfiðari en uppi á fastalandinu, þar sem „afréttir“ Vestmannaeyinga eru úteyjarnar. Fara verður með féð á báti til og frá úteyjunum og víða verður að klifa með féð upp í eyna eða hífa það upp og niður. En þrátt fyrir það amstur og erfiðleika sem þessum ferðum fylgja, þykja þær hinar ágætustu skemmtiferðir.

Gras í úteyjunum er mun sterkara og kjarnmeira en venjulegt gras og því er kjöt af Eyjafé allt öðruvísi á bragðið en annað kjöt, miklu bragðmeira auk þess sem kjötið er dekkra.

Sauðfé Eyjamanna er harðgert, fótvisst og öllu spakara en annars staðar á landinu. Þá þarf ekki að hafa áhyggjur af sauðfjárveikivörnum, sundið milli Lands og Eyja sér fyrir því.