Erla Ísleifsdóttir (íþróttakennari)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Erla Guðrún Ísleifsdóttir.

Erla Guðrún Ísleifsdóttir húsfreyja, íþróttakennari, myndhöggvari fæddist 19. janúar 1922 í Baldurshaga og lést 6. febrúar 2011 á Landspítalanum.
Foreldrar hennar voru Ísleifur Högnason kaupfélagsstjóri, alþingismaður, f. 30. nóvember 1895 á Seljalandi u. V.-Eyjafjöllum, d. 12. júní 1967, og kona hans Helga Rafnsdóttir húsfreyja, safnvörður, f. 5. desember 1900 í Vindheimi á Norðfirði, d. 3. maí 1997 í Reykjavík.

Börn Helgu og Ísleifs:
1. Erla Guðrún Ísleifsdóttir íþróttakennari, húsfreyja, myndhöggvari, f. 19. janúar 1922, d. 6. febrúar 2011. Maður hennar Ólafur Jensson.
2. Högni Tómas Ísleifsson viðskiptafræðingur, fulltrúi, f. 14. desember 1923, d. 25. júlí 2017. Kona hans Kristbjörg Sveina Helgadóttir.
3. Gísli Rafn Ísleifsson tæknifulltrúi, f. 8. apríl 1927, d. 5. mars 2008. Kona hans Sigríður Eyjólfsdóttir.

Erla var með foreldrum sínum í æsku, í Baldurshaga, við Helgafellsbraut 19 og Faxastíg 5.
Hún varð 3. bekkjar gagnfræðingur í Gagnfræðaskólanum 1939 og lauk Íþróttakennaraprófi i Íþróttakennaraskólanum að Laugarvatni 1940. Hún stundaði listnám við Bromley School of Art í Kent á Englandi 1946, nám í höggmyndalist við Slade School of Fine Art University College í London 1948-1950 og við Academic Grand Chaumiere í París 1951.
Erla var íþróttakennari við Gagnfræðaskólann, Kvöldskóla Iðnaðarmanna og íþróttafélagið Þór í Eyjum 1940-1941, við Sundhöll Reykjavíkur 1942-1945 og 1947-1948, við Gagnfræðaskóla Austurbæjar frá 1952-1955.
Þau Ólafur giftu sig 1953, eignuðust þrjú börn. Þau bjuggu í fyrstu í London á Englandi, en frá 1957 bjuggu þau í Laugarási í Reykjavík.
Ólafur lést 1996 og Erla Guðrún 2011.

I. Maður Erlu Guðrúnar, (1. maí 1953), var dr. Ólafur Jensson læknir, prófessor og forstöðumaður Blóðbankans, f. 16. júní 1924, d. 31. október 1996. Foreldrar hans voru Jens Pálsson Hallgrímsson sjómaður í Reykjavík, f. 30. júní 1896, d. 30. september 1979, og kona hans Sigríður Ólafsdóttir húsfreyja, f. 26. febrúar 1895, d. 14. maí 1986.
Börn þeirra:
1. Arnfríður Ólafsdóttir námsráðgjafi í Reykjavík, f. 9. nóvember 1953. Maður hennar Þórður Sverrisson.
2. Ísleifur Ólafsson læknir í Reykjavík, f. 20. janúar 1956. Kona hans Erna Kristjánsdóttir.
3. Sigríður Ólafsdóttir lífefnafræðingur í Reykjavík, f. 14. mars 1958. Maður hennar Þorkell Sigurðsson.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.