Einar Sæmundsson (Mjöll)
Einar Sæmundsson verksmiðjueigandi fæddist 29. október 1919 í Reykjavík og lést 3. júlí 2006 á Landspítalanum.
Foreldrar hans voru Steindór Sæmundur Einarsson kennari, f. 3. september 1889, d. 25. maí 1948, og fyrri kona hans Sigrún Pétursdóttir frá Stórasteinsvaði í N.-Múl., húsfreyja, f. 18. mars 1895 á Sleðbrjóti þar, d. 23. nóvember 1982.
Einar var með foreldrum sínum fyrstu ár sín, flutti með þeim til Eyja 1920, bjó hjá þeim í Barnaskólanum, flutti með þeim til Reykjavíkur 1921. Vegna berklaveiki foreldra sinna ólst hann síðar upp hjá móðurforeldrum sínum á Borgarfirði eystra til 10 ára aldurs, þeim Pétri Daníel Sigurðssyni og Elísabetu Steinsdóttur.
Foreldrar hans skildu og ólst hann síðan upp hjá móður sinni í Reykjavík.
Börn Sigrúnar og Sæmundar:
1. Einar Sæmundsson eigandi sápuverksmiðjunnar Mjallar, f. 29. október 1919, d. 3. júlí 2006.
2. Elísabet Sæmundsdóttir, f. 13. júlí 1921 í Eyjum, d. 18. janúar 1923.
Barn Sæmundar og Láru Magnúsdóttur:
3. Magnús Sæmundsson, f. 29. mars 1934.
Börn Sæmundar og Guðborgar, síðari konu hans:
4. Kristján Sæmundsson jarðfræðingur, f. 9. mars 1936.
5. Kolbeinn Sæmundsson kennari, f. 12. mars 1938, d. 10. apríl 2023.
6. Arnþrúður Sæmundsdóttir, f. 17. janúar 1944.
Einar fór ungur að vinna í Sápugerðinni Mána og árið 1942 stofnaði hann ásamt fleiri Sápugerðina Mjöll hf. Hann rak Mjöll hf. lengst sem aðaleigandi til ársins 1988, en vann þar síðan í hlutastarfi fram til ársins 1996. Einar fór ungur að stunda íþróttir, einkum sund og skíði, og var í landsliði Íslands í sundknattleik um árabil. Hann tók sæti í stjórn KR árið 1941, aðeins 22 ára gamall, og var formaður KR frá 1958 til 1974, eða í 17 ár. Einar var heiðursfélagi KR og var sæmdur flestum æðstu heiðursmerkjum íþróttahreyfingarinnar. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að íþróttamálum. Einar sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann sat m.a. í þjóðhátíðarnefnd í Reykjavík um árabil, um tíma sem formaður. Einar var einnig mikill bridsáhugamaður og var félagi í Krummaklúbbnum í nær 40 ár. Hann var jafnframt félagi í Lionsklúbbi Reykjavíkur í áratugi. Hann varð ungur félagi í Fjallamönnum og Flugbjörgunarsveitinni og tók þátt í fjölmörgum vísindaleiðöngrum um óbyggðir og jökla landsins.
Þau Guðrún giftu sig 1942, eignuðust tvö börn.
Einar eignaðist barn með Þrúði 1953.
Einar var í sambúð með Auði frá 1993.
I. Kona Einars, (28. nóvember 1942), var Guðrún Jónsdóttir frá Eyrarbakka, húsfreyja, f. 18. maí 1919 í Nýhöfn þar, d. 1. desember 1992. Foreldrar hennar voru Jón Ásbjörnsson, f. 20. október 1876, d. 24. október 1938, og kona hans Þórunn Gunnarsdóttir, f. 21. nóvember 1885, d. 17. mars 1977.
Börn þeirra:
1. Ásbjörn Einarsson, f. 4. september 1944. Kona hans Jóna Guðbrandsdóttir.
2. Sigrún Elísabet Einarsdóttir, f. 11. desember 1953. Maður hennar Gunnar Guðmundsson.
II. Barnsmóðir Einars var Þrúður Guðmundsdóttir, f. 12. júní 1923, d. 7. ágúst 1990.
Barn þeirra:
3. Helga Einarsdóttir, f. 18. desember 1953. Maður hennar Ólafur Davíðsson.
III. Sambúðarkona Einars frá 1993 var Auður Einarsdóttir húsfreyja, deildarstjóri, verslunareigandi, f. 10. nóvember 1929, d. 15. október 2012. Foreldrar hennar voru Einar Sveinsson múrarameistari, f. 7. nóvember 1891 á Eyrarbakka, d. 26. maí 1974 og kona hans Hulda Bergmann Sigfúsdóttir húsfreyja, f. 2. júní 1903 í Hafnarfirði, d. 14. júní 1993.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.
- Manntöl.
- Morgunblaðið 11. júlí 2006. Minning.
- Morgunblaðið 18. október 2012. Minning Auðar.
- Prestþjónustubækur.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.