Eggjataka

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Eggjataka í Elliðaey

Það gefur að skilja að egg þóttu gott nýmeti á vorin eftir saltmeti vetrarins, enda var farið til eggja á hverju vori. Einkum voru það hin bragðmiklu fýlsegg og svartfuglsegg sem menn sóttust eftir. Egg þessara fugla eru nokkru stærri en hænuegg, fýlseggin hvít en svartfuglseggin græn með svörtum dröfnum.

Farið var til eggja í allar eyjar og voru fýlseggin mun auðsóttari, þar sem í mörgum tilfellum þurfti ekki að síga eftir þeim en fýllinn velur sér oft varpstaði þar sem hægt er að ganga að hreiðrinu óbundinn. En síga varð til svartfulgseggja, þar sem hann verpir á svonefndum „bælum“ sem eru syllur utan í berginu.

Bjargsig var sú íþrótt sem Vestmannaeyingar eru hvað þekktastir fyrir. Sig er í dag einkum stundað sem fögur íþrótt en var áður hluti af lífsbaráttu fólksins. Enn þann dag í dag fara ofurhugar og síga í björg til eggja og enn fara munnvatnskirtlarnir af stað þegar þeir koma að áliðnum degi með fenginn til lands, því eggjum á borð við þessi, verður aldrei verpt í hænsnahúsum.