Brennukóngurinn Siggi Reim

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Sigurður Reimarsson, Siggi Reim, er örugglega einn þekktasti Vestmannaeyingurinn, enda var hann brennukóngur á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í tugi ára. Hér á eftir fer skemmtileg saga um Sigga sem Árni Johnsen skráði.

Olíutunnan

Hinar efnismiklu og glæsilegu brennur þjóðhátíðar Vestmannaeyja á Fjósakletti í Herjólfsdal byggjast á efni sem safnað er í bænum og allt það sem liggur á glámbekk á söfnunartíma yfir sumarið telst lögmætur brennumatur. Allajafna gengur mjög vel að safna í brennuna en stundum hefur þurft að beita óhefðbundnari vinnubrögðum við olíuöflun á þjóðhátíðarbálið.

Einu sinni kom Magnús Magnússon netagerðameistari til Sigga Reim og spurði hann hvort það gæti verið að brennustrákarnir hefðu tekið og sett í olíubirgðirnar fyrir þjóðhátíðarbrennuna 400 lítra olíutank sem geymdur var bak við hús hans.

Siggi taldi það af og frá: „Það getur bara ekki verið, enda læt ég aldrei stela í brennuna frá vinum mínum. Og þú, Maggi minn, ert einn af bestu vinum mínum.“

„Ég þóttist vita það, Siggi minn,“ svaraði Maggi, „það var nú ekki sjálfur tankurinn og olían sem mér er annt um. Ég var með nýjan koparkrana á tanknum og sé verulega eftir honum.“

„Nú? Ertu að tala um hann, Maggi minn?“ svaraði Siggi. „Það er allt í lagi með það, þú getur fengið kranann.“


Heimildir

  • Lífins melódí, Árni Johnsen, 2004, Vaka-Helgafell