Blik 1978/Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja, framhald, V. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1978
Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja

Framhald, (5. hluti)35. kafli


Skotvopnctr


1260. „Tyrkjabyssan“. Vorið 1968 var unnið að dýpkun Vestmannaeyjahafnar eins og fyrr og síðar um langt árabil. Upp í sogdælupípu sanddæluskipsins Vestmannaey kom þá hólkur úr eirblendi ásamt hylki úr sama efni. Verkstjórinn á dýpkunarskipinu ásamt skipshöfninni afréðu að gefa Byggðarsafninu þennan fund. Verkstjórinn var Einar J. Gíslason frá Arnarhóli (nr. 10) við Faxastíg — nú safnaðarstjóri Hvítasunnusafnaðarins í Reykjavík.
Bjarni Jónsson, listmálari, gerði síðan fyrir okkur teikningu af byssuhlaupi þessu. Þá mynd sendum við til íslenzka sendiráðsins í Kaupmannahöfn og Lundúna fyrir atbeina íslenzka utanríkisráðuneytisins og spurðumst fyrir um það, hvort safnverðir þar vissu nokkur deili á þessum tegundum eða gerðum af byssum.
Brezkir fræðimenn fullyrtu, að þetta væri byssuhlaup og skothylki frá miðöldum. Þeir sögðu, að byssur af þessari gerð hefðu sérstaklega verið notaðar á Miðjarðarhafi á skipum norður-afríkanskra sjóræningja. Síðar fengum við staðfestingu á þessum fróðleik í bókinni Skibet eftir danska rithöfundinn Björn Landström. Þar eru myndir af byssum frá miðöldum af mjög líkri gerð. — Byssuhlaupinu fylgir skothylki úr sama málmblendi. Á því er tendrigat. Í það er stungið glóandi teinenda, til þess að kveikja í púðrinu, þegar skotinu var hleypt úr byssunni. Það fylgir sögunni, að þessar litlu byssur hafi jafnan verið bundnar á öldustokka skipanna og helzt verið notaðar til að deyða menn á þilförum skipa þeirra, sem ræna skyldi. Þegar sigti var náð, voru byssurnar festar í skyndi við hástokk skipanna.
Vitað er með vissu, að afríkanskir sjóræningjar, sem rændu hér í Vestmannaeyjum dagana 17. og 18. júlí 1627, deyddu 34 Eyjabúa, sem þeir ýmist skutu, brenndu inni eða stungu til dauða. Ekki er annað sannara vitað, en að sjóræningjarnir frá Alsír hafi misst byssu þessa í Leiðina, hafnarmynnið, er þeir rændu hér og fluttu til skipa 242 Eyjabúa.
Guðjón heitinn Jónsson, vélsmiður í Vélsm. Magna, smíðaði viðnámsbútinn með lykkjunni. Smiður h/f smíðaði sætið undir byssuhlaupið. Þá var stuðzt við myndir af byssum frá miðöldum í áður nefndri bók.
1261. Byssa, framhlaðningur. Þessi byssa á sér merka sögu. Árið 1853 gerðist danskur liðsforingi sýslumaður í Vestmannaeyjasýslu. Hann hét Andreas August von Kohl. Hann hafði herkapteinsnafnbót. Þessi danski sýslumaður stofnaði herfylkingu í kauptúninu og kenndi Eyjamönnum vopnaburð. Á oddinum var höfð sú kenning, að enn færu sjóræningjar um höfin og allur væri varinn góður um það, að Eyjamenn kynnu að beita vopnum og ættu þau í fórum sínum. Til þess að byrja með bjuggu „Eyjadátarnir“ sér trévopn, sem þeir notuðu síðan við margskyns æfingar við að beita vopnum.
Hinn danski sýslumaður hafði vitaskuld fengið konunglegt leyfi til að stofna og starfrækja „Herfylkinguna“, eins og vopnaflokkur þessi í Vestmannaeyjum var kallaður. Og sýslumaður skrifaði hermálaráðuneytinu danska og æskti þess að fá svo sem 30 byssur sendar úr vopnabúri danska konungsvaldsins. Þeim vilja sínum fékk hann fullnægt. Heimildir eru fyrir því, að Kaptein Kohl, eins og sýslumaður var nefndur í daglegu tali fólks í Eyjum, fékk sendar 30 byssur úr vopnabúri konungs árið 1856 og svo aðra byssusendingu tveim árum síðar eða 1858. Að sjálfsögðu voru byssurnar gefnar Herfylkingunni. Hér eigum við eina af byssum þessum. Þessa byssu notaði Bjarni bóndi Ólafsson í Svaðkoti, en hann var einn af „dátunum“ í fjórða flokki Herfylkingarinnar undir flokksforustu Árna bónda Einarssonar á Vilborgarstöðum.
Kaptein Kohl andaðist í janúar 1860. Þá lognaðist þessi starfsemi smám saman út af. — Starfið í Herfylkingunni, sem laut sérstökum reglum og þeim ströngum, hafði í för með sér aukna reglusemi ungra manna sem eldri í kauptúninu. Mannasiðir fóru stórum batnandi, drykkjuskapur minnkandi og aukinn menningarbragur fólksins vaxandi svo að orð var á haft. — Kaptein Kohl lét byggja þinghús í Eyjum (Sjá mynd nr. hér í Safninu). Þar rak hann lesstofu handa „dátunum“ sínum.
Bjarni bóndi Ólafsson drukknaði á báti sínum við færaveiðar sumarið 1883. Þá hafði byssan verið í fórum hans milli 20 og 30 ár. Dóttursonur Bjarna bónda, Ólafur Jónsson, gaf Byggðarsafninu byssuna. (Sjá skrif um Herfylkingu í Sögu Vestmannaeyja eftir Sigfús M. Johnsen, 1. bindi, bls. 287—331).
1262. Haglabyssa, tvíhleypa. Þessa byssu átti og notaði hér um árabil Stefán Gíslason frá Hlíðarhúsi. Hann bjó að Ási (nr. 9) við Kirkjuveg. Stefán Gíslason stundaði hnísu- og seladráp hér við Heimaey í nokkur ár.
1263. Haglabyssa, — einhleypa. Byssu þessa átti Árni tómthúsmaður Árnason á Grund (nr. 31) við Kirkjuveg. Hann stundaði um árabil hnísu- og seladráp við strendur Heimaeyjar. Einnig mun hann hafa skotið fugla. (Tómthúsið Grund var rifið til grunna árið 1973).
1264. Haglahylki. Tekið er fram í góðum heimildum, að Herfylking Vestmannaeyja hafi fengið fleira en byssur sendar úr vopnabúri konungs á árunum 1856 og 1858. M.a. fékk hún send slík haglahylki. Úr hylkinu var höglunum rennt niður í hlaup framhlaðningsins, þegar byssan var hlaðin.
1265. Hríðskotabyssa. Á fyrsta sumri hernámsins (1940) stundaði Binni í Gröf (Benóný skipstjóri Friðriksson frá Gröf (nr. 7) við Urðarveg) dragnótaveiðar fyrir Norðurlandi. Þá kvartaði hann eitt sinn við brezka setuliðsmenn, sem tekið höfðu sér bólfestu hér í Eyjum, yfir njósnaflugi Þjóðverja, hversu nærgöngulir þeir væru við bátana þar á miðunum. Skipstjórinn óskaði eftir því, að hann fengi lánaða áberandi byssu frá setuliðinu, sem hann gæti sýnt Þjóðverjunum og sýnt þeim þannig í tvo heimana. Þá var það sem brezku setuliðsmennirnir hér afhentu skipstjóranum þessa hríðskotabyssu með þeirri skuldbindingu, að hann skyti aldrei úr henni að fyrra bragði. Aðeins skyldi hann hræða þýzku flugmennina með vopni þessu. Binni fullyrti, þegar hann gaf Byggðarsafninu byssuna, að þýzku flugmönnunum hefði illa brugðið, er hann otaði að þeim vopni þessu. Þá hættu þeir alveg að fljúga nálægt báti hans eða njósna um hætti hans. Árið 1965 eignaðist Byggðarsafnið byssuna.
1266. Haglapungur. Höglin voru geymd í honum. Úr honum var höglunum rennt í byssuhlaupið, þegar framhlaðningurinn var hlaðinn, og síðar í skothylkið, þegar afturhlaðningarnir komu til sögunnar (nr. 1262 og 1263) og tekið var að hlaða skothylkin heima, áður en farið var til veiða.
1267. Kúlumót. Þetta er eitt af þeim kúlumótum, sem fylgdu byssunum úr vopnabúri konungsins árið 1856 (sjá nr. 1261). Herfylkingarmenn steyptu sjálfir blýkúlur í framhlaðningana, — dunduðu við þá iðju heima hjá sér í tómstundum sínum. Þetta kúlumót fylgdi herfylkingarbyssu Bjarna heitins Ólafssonar frá Svaðkoti, þegar hún var gefin Byggðarsafninu (nr. 1261).
1268. Riffill. Riffil þennan átti Jónatan heitinn Jónsson, vitavörður í Stórhöfða. Áður en hann fluttist hingað til Eyja (1910), var hann bóndi í Garðakoti í Mýrdal. Þar skaut hann seli með riffli þessum. Það sagði okkur háaldraður gestur Byggðarsafnsins, en hann var vikadrengur í Garðakoti hjá hjónunum Jónatan bónda og hómópata Jónssyni og frú Guðfinnu Þórðardóttur nokkru eftir aldamótin. Sigurður, fyrrv. vitavörður í Stórhöfða, sonur Jónatans og frú Guðfinnu, gaf Byggðarsafninu riffilinn.
1269. Riffill. Þessi riffill var notaður í Gottuleiðangrinum svokallaða, sem farinn var til Grænlands sumarið 1929. Þá var efst á baugi með landsmönnum að stofna til sauðnautaræktar hér á landi, og þess vegna var þessi vélbátur sendur til Grænlands til þess að sækja sauðnautakálfa (Sjá Blik 1967, bls. 329).
Sigurður Gunnarsson, bifreiðarstjóri í Vík í Mýrdal, eignaðist riffilinn árið 1935, þegar hann stundaði vertíðarstörf hér í Eyjum. Síðan eignaðist Gísli Gestsson, Vík í Mýrdal, byssuna. Hann gaf hana Byggðarsafninu árið 1965.
1270. Hleðslutœki. Þessi tæki voru notuð í heimahúsum manna til þess að hlaða skothylki, þegar sela-, hnísu-og fugladráp átti sér tíðum stað umhverfis Heimaey. Ólafur Jónsson skrifstofumaður að Ásbyrgi hér í bæ, gaf Byggðarsafninu tæki þessi.
1271. Púðurhorn. Þetta púðurhorn er fyrsti hluturinn, sem Byggðarsafnið eignaðist. Það var vorið 1932. Hornið er gjört úr nautshorni en er ekki alveg fullsmíðað. Nemandi minn gaf mér þetta púðurhorn.
1272. Skammbyssa. Árið 1924 var Sigurður lögfræðingur Sigurðsson frá Vigur á Ísafjarðardjúpi settur sýslumaður í Vestmannaeyjum um stuttan tíma, eftir að Karl Einarsson sýslumaður hafði sagt embættinu lausu. Það sumar voru sem oftar erlendir togarar mjög ágengir á grunnmiðum við Eyjar. Brezkur togari dró þá vörpu sína dag eftir dag á Álnum milli lands og Eyja. Þá mannaði Sigurður Sigurðsson sýslumaður út vélbát og stuggaði sjálfur hinum erlendu veiðiþjófum úr landhelginni. Vopn höfðu þeir engin, sýslumaður og hjálparmenn hans. Til minningar um þessa hetjudáð sýslumannsins gáfu Vestmannaeyingar honum þessa skammbyssu.
Sonur sýslumannsins, Stefán Sigurðsson, héraðsdómslögmaður á Akranesi, sendi með bréfi dags. 4. júní 1965 Byggðarsafninu byssuna að gjöf frá erfingjum sýslumannsins.
1273.„Línubyssa“. Þessi byssa barst Byggðarsafninu úr dánarbúi Einars heitins Magnússonar, vélsmiðs, sem lézt af slysförum í smiðju sinni árið 1932. Smiðjan stóð skammt austan við verzlunarhúsið Bjarma (nr. 4) við Miðstræti. Einar Magnússon var kunnur vélsmiður í bænum og hugvitsmaður.

Þessi teikning er af „brimbát“ Einars vélsmiðs Magnússonar.

Það er vitað, að Einar vélsmiður smíðaði á sínum tíma „brimbát“, lokaða fleytu úr stáli, sem hann ætlaði að draga mætti milli báts og lands gegnum brimgarðinn við sanda Suðurstrandarinnar, og létta þannig vöruflutninga bændafólks úr Rangárvalla- og Skaftafellssýslu hinni vestari, en það skipti um langt árabil við verzlanir í Eyjum og átti oft í miklum erfiðleikum við að skipa vörum á land við Sandana, þegar súgur var og erfiðleikar og hættur steðjuðu að sökum þess. Vegir voru þá litlir eða engir um undirlendi Suðurlandsins. Viðskipti við Eyjar voru fólkinu því mikil nauðsyn.
Þessi ætlun eða ráðagerð um bát þennan rann út í sandinn, með því að báturinn reyndist of stór og þungur í drætti milli báts og lands við sandana.
Það er ætlun eða ímyndun okkar, að vélsmiðurinn hefði ætlað að nota þessa byssu til að skjóta línu í land, þegar vöruflutningabátinn, vélbátinn, bar að brimgarðinum og draga þurfti vörufleytuna til strandar gegnum brimgarðinn.
1274. Byssa. Við leyfum okkur ýmissa hluta vegna að kalla þessa byssu Byssuna úr „Vilta vestrinu“. Þetta er mjög gömul gerð af byssum og var um tugi ára notuð á Shetlandseyjum. Púðurgeymsla er í skafti byssunnar.
Gefandi: Gústaf Sigurjónsson, sem átti heima að Hólagötu 44 fyrir gos, og nú til heimilis að Selfossi.
1275. Fallbyssukúla. Byssukúla þessi kom upp úr Vestmannaeyjahöfn árið 1936, fyrsta árið sem dýpkunarskipið Vestmannaey var starfrækt við dýpkun Vestmannaeyjahafnar.


36. kafli


Vestmannaeyja-Þór,
björgunarstörf og landhelgisgæzla


1276. Líkan af Vestmannaeyja-Þór, fyrsta björgunar- og varðskipi íslenzku þjóðarinnar.
Fyrsta áratug vélbátaútvegsins í Eyjum urðu tíð slys á mönnum og bátum. Brátt sáu forgöngumenn sjávarútvegsins í hinni ört vaxandi útgerðarstöð, að hjálparskip var bátaflotanum nauðsyn, ef auka ætti öryggið og draga úr hinum tíðu óhöppum eða slysum. — Í byrjun ágústmánaðar 1918 boðaði alþingismaður Vestmannaeyja, Karl Einarsson, sýslumaður, til fundar til þess að ræða um stofnun félags, sem yrði þess megnugt að festa kaup á skipi til aðstoðar og öryggis bátaflota Eyjamanna. Á fundi þessum var Björgunarfélag Vestmannaeyja stofnað. Á næstu vikum var undinn að því bráður bugur að safna fé hjá almenningi í kauptúninu og í Reykjavík til kaupa á björgunarskipi til hjálpar og öryggis bátaflotanum.
Fyrir síðustu aldamót stofnuðu danskir og íslenzkir fjáraflamenn til verzlunar- og útgerðarreksturs á Patreksfirði. Þetta fjáraflafélag þeirra hlaut nafnið Islandsk Handels og Fiskeri Kompani og var skammstafað I.H.F.
Í aprílmánuði 1898 keypti þetta fyrirtæki verzlun Markúsar kaupmanns Snæbjarnarsonar á Geirseyri við Patreksfjörð. Þar var síðan aðalbækistöð þessa fyrirtækis.
Útgerð I.H.F. á Geirseyri var býsna mikil. Fyrsta ár tilveru sinnar gerði það út 6—8 þilskip, og í byrjun ársins 1900 voru þilskip þess orðin 10 að tölu. Flest urðu þau 12 alls. — Þetta útgerðar- og verzlunarfyrirtæki ruddi merkar brautir á vissu sviði í atvinnurekstri hér á landi. Fyrst íslenzkra aðila, en það taldist vera íslenzkt, gerði það tilraun til að veiða fisk í botnvörpu með því að gera út togara til botnvörpuveiða á íslenzk lúðumið. Árið 1899 lét það smíða fyrir sig togara í Englandi til þessarar útgerðar. Togari þessi kom til landsins síðla árs 1899 og hlaut nafnið Thor. Það hóf brátt togveiðarnar.
Tap varð mikið á útgerð þessa fyrsta togara í eigu Íslendinga, svo að útgerð hans varð endaslepp. — Árið 1902 seldi I.H.F. togarann Thor danska landbúnaðarráðuneytinu, sem þá annaðist hafrannsóknir danska ríkisins. Danir stunduðu síðan hafrannsóknir á Thor til ársins 1914 bæði við Danmerkur — og Íslandsstrendur. Á styrjaldarárunum 1914—1918 var Thor eitt af varðskipum danska ríkisins.
Að því dró, að Björgunarfélag Vestmannaeyja auglýsti eftir skipi, sem það vildi kaupa til eftirlits- og björgunarstarfa á Eyjamiðum og við Vestmannaeyjar hvarvetna.
Á stjórnarfundi Björgunarfélags Vestmannaeyja, sem haldinn var heima að Hofi (nr. 25 við Landagötu) hjá sýslumanni, Karli Einarssyni 24. desember 1919, lágu fyrir til undirskriftar kaupsamningar á danska hafrannsóknarskipinu Thor, þar sem landbúnaðarráðuneytið danska selur gamla hafrannsóknarskipið Thor Björgunarfélagi Vestmannaeyja fyrir kr. 150.000,00. Talið var þá, að það kostaði kr. 75.000,00 að gera skipið sæmilega úr garði til björgunar- og gæzlustarfa við Vestmannaeyjar.
Skipið hlaut nafnið Þór og kom til Vestmannaeyjahafnar 26. marz 1920. Þegar landsmenn ræddu um skipið, gekk það venjulega undir nafninu Vestmannaeyja-Þór. Framtak Eyjafólks til kaupa á þessu skipi var alveg sérstakt. Með því að gera þessa mikilvægu hugsjón að veruleika ruddu Eyjamenn brautir, sem höfðu síðar veigamikil áhrif í björgunar- og landhelgismálum þjóðarinnar í heild og á sinn ríka þátt í því, að íslenzka þjóðin hefur að fullu öðlazt algjöran rétt á tvö hundruð mílna lögsögunni.
Fyrsti skipherra björgunarskipsins var ráðinn Jóhann P. Jónsson frá Reykjum í Lundarreykjadal. Hann hafði m.a. verið lautenant í danska sjóhernum á árunum 1915—1919.
Fyrsti stýrimaður á Þór var ráðinn Friðrik V. Ólafsson verzlunarstjóra Davíðssonar á Vopnafirði og víðar. Rétt er að geta þess hér, að Friðrik V. Ólafsson var skipherra á Þór tvö ár, 1926—1928. Árið 1937 varð hann skólastjóri Stýrimannaskóla Íslands og var það til dauðadags 1956. Hann gaf Byggðarsafni Vestmannaeyja ýmsa muni úr Vestmannaeyja-Þór, sem hér eru skráðir og til sýnis í safninu.
Annar stýrimaður á Þór var fyrst Einar Markús Einarsson frá Ólafsvík. Hann var jafnframt fallbyssuskytta á björgunarskipinu, eftir að það var búið byssu árið 1924 til þess að vera því vaxið að stugga landhelgisbrjótum úr íslenzkri landhelgi og verja veiðarfæri Eyjabáta fyrir ágengni aðskotaskipa og —báta á fiskimiðum Eyjasjómanna.
Rekstur björgunarskipsins olli bæjarsjóði Vestmannaeyja fjárhagslegum erfiðleikum. Jafnframt hafði ráðandi mönnum þjóðarinnar vaxið skilningur á því, hversu bráðnauðsynlegt það væri íslenzku þjóðinni að eignast skipaflota, sem gegnt gæti hlutverki Vestmannaeyja-Þórs árið um kring við björgunarstörf og landhelgisgæzlu. Vissulega höfðu kaupin á Þór glætt þeim skilning á þessu mikilvæga atriði.
Árið 1925 bauð Björgunarfélag Vestmannaeyja stjórnarráði landsins björgunarskipið til kaups með sérstökum skilyrðum. Endanlegt svar við þessari málaleitan gaf stjórnarráðið Björgunarfélaginu með bréfi dagsettu 3. desember 1925. Með bréfi þessu samþykkir dóms- og kirkjumálaráðuneytið kaupin á björgunarskipinu og skilyrði þau, sem Björgunarfélagið hafði sett fyrir sölunni. Þennan kafla úr bréfinu tökum við hér inn í mál okkar, því að hann hefur sögulegt gildi.
Hann er svona orðaður:
... Ríkisstjórnin býðst til þess að kaupa nefnt skip Þór í sjófæru standi fyrir það, sem á því hvílir, þó ekki yfir kr. 80.000,00, og með þeim skilyrðum að öðru leyti, að meðan skipið er gert út af ríkisstjórninni, skuli það látið halda uppi samskonar gæzlu við Vestmannaeyjar 3 1/2 — 4 mánaðartíma á vetrarvertíð árlega og verið hefur undanfarin ár, enda leggi bæjarsjóður Vestmannaeyja kr. 25.000,00 til útgerðarinnar, meðan þessari gæzlu er haldið uppi. Gert er ráð fyrir, að ríkisstjórnin haldi úti umgetnu skipi, meðan það er vel til þess fært svo fremi til þess sé veitt nægilegt fé úr ríkissjóði. Ef úr kaupunum verður, er ríkisstjórnin búin til að taka við skipinu 1. júlí 1926.

Jón Magnússon“


Við þetta samningstilboð stóðu báðir aðilar, svo að skipið var afhent ríkisvaldinu íslenzka 1. júlí 1926. Þá hófst rekstur ríkisins á björgunar- og varðskipinu Vestmannaeyja-Þór. Sá dagur gæti þess vegna talizt stofndagur landhelgisgæzlu Íslendinga í heild. Sama árið bættist annað skipið í landhelgisflota þjóðarinnar. Það var varðskipið Óðinn, sem smíðað var fyrir íslenzka ríkið í Árhúsum í Danmörku sama ár (1926).
Með kaupunum á Vestmannaeyja-Þór, þó að erfið reyndust Vestmannaeyingum fjárhagslega, ruddu þeir svo markverðar brautir í björgunarstarfi, landhelgisgæzlu og sjálfstæðismálum þjóðarinnar í heild, að þessa framtaks þeirra verður minnzt, meðan íslenzka þjóðin heldur sjálfstæði sínu og virðir sögu sína. Þarna var vísirinn að hinum mikla sigri þjóðarinnar í landhelgisdeilunni sögulegu.
Vestmannaeyja-Þór strandaði á Sölvabakkafjörum á Skagaströnd, 7 km norður af Blönduósi, 22. desember 1929 (Sjá Blik 1971, bls. 70—85 og Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1977, bls. 55—56).
Líkan þetta af Vestmannaeyja-Þór gjörðu listamennirnir Eggert Guðmundsson og Daninn Aage Nielsen Edven, báðir búsettir í Reykjavík.
1277. Þ-Ó-R. Hér á Byggðarsafnið nafnstafi Vestmannaeyja-Þórs. Þeir eru gjöf frá Friðriki V. Ólafssyn skólastjóra Stýrimannaskóla Íslands, en hann var um tíma skipherra á varðskipinu. Það var á árunum 1926—1928. Stafirnir voru teknir af skipinu á strandstað.
1278. Bjalla Vestmannaeyja-Þórs: Þetta er bjallan af björgunar- og varðskipinu Vestmannaeyja-Þór með ártalinu 1899, en þá var skipið smíðað. Gefandi: Friðrik V. Ólafsson, fyrrv. skipherra.
1279. „Vélsími“. Þetta er hluti af látúnspípu þeirri, sem lá á milli stjórnpalls og vélarrúms í varðskipinu Vestmannaeyja-Þór. Fyrst var blásið í flautuna og síðan ræddust þeir við, skipstjórnarmenn og vélamenn. Pípa þessi var kölluð vélsími.
1280. Skipsklukka. Klukka þessi fylgdi björgunar- og varðskipinu frá því það hóf björgunarstarf sitt við Vestmannaeyjar í marzmánuði 1920. Hún hékk í stjórnklefa skipsins. Friðrik V. Ólafsson gaf hana Byggðarsafninu.
1281. Fallbyssuhylki, skothylki. Þegar Vestmannaeyja-Þór strandaði á Sölvabakkafjörum á Skagaströnd (sjá nr. 1276), þá skutu skipsmenn 12 fallbyssuskotum til þess að vekja athygli á óhappinu og leita hjálpar. Þetta skothylki er eitt af þeim tólf, sem þá var skotið úr. Alda skolaði því upp í fjöru. Bóndinn á Sölvabakka í Engihlíðarhreppi á Skagaströnd, Jón Guðmundsson, fann skothylkið í fjörunni, eftir að alda hafði skolað því á land, og sendi það síðan Byggðarsafni Vestmannaeyja 40 árum síðar eða 1969.
1282. Skothylki. Eins og á er drepið hér í minjaskránni, þá var annað varðskip íslenzku þjóðarinnar smíðað í Danmörku árið 1926. Það hlaut nafnið Óðinn. Fyrsti vélstjóri á varðskipinu Óðni var Þorsteinn Loftsson, Árnesingur að ætt og uppruna, kunnur vélfræðingur og ráðunautur hjá Fiskifélagi Íslands í Reykjavík. Fyrsti vélstjóri geymdi um árabil fyrsta skothylkið, sem þeir skutu úr á Óðni til aðvörunar útlendum landhelgisbrjót. Síðan renndi vélstjórinn járnkúbu í líkingu við fyrstu kúluna og setti í skothylkið. Mörgum árum síðar barst hylkið með járnkúlunni Byggðarsafninu að gjöf.


37. kafli


Þjóðhátíð Vestmannaeyja


1283. Gjallarhorn, hátalari. Stefán Árnason, lögregluþjónn, hóf hér þularstarfið á Þjóðhátíð Vestmannaeyja árið 1922. Þá hafði hann ekkert gjallarhorn til þess að hrópa dagskrárliði og ýmsar aðrar tilkynningar til þjóðhátíðargesta. Hann notaði hendurnar einar við hróp þau og köll.
Sumarið eftir (1923) fékk hann þetta gjallarhorn til nota á Þjóðhátíðinni. Það var alls notað á þrem þjóðhátíðum.
1284. Gjallarhorn, hátalari, kallhorn. Gjallarhornið nr. 1283 þótti ekki í alla staði þægilegt. Þá var þetta gjallarhorn smíðað hér í Eyjum. Það gjörði Guðjón Jónsson, vélsmiður í Vélsmiðjunni Magna h/f. Þetta gjallarhorn notaði St.Á. síðan nokkur sumur á Þjóðhátíðinni, en þá kom tæknin til sögunnar og þessi gjallarhorn gengu úr tízku. Sem kunnugt er, þá var Stefán Árnason þulur á Þjóðhátíð Vestmannaeyja samfleytt 54 sumur.

VI. hluti

Til baka