Blik 1978/Hugleiðing um látinn vin
Í söguriti sem Blik er, verður margra einstaklinga minnzt fyrir merk brautryðjendastörf. Yfirleitt er þetta fólk, sem starfað hefur um langan aldur hér í Eyjum.
En til eru menn, sem ná ekki aldri til þess að ryðja braut einstakra mála. Minningu þeirra gleymir fjöldinn fljótt. Þó geta þetta verið persónur, sem aldrei hverfa úr hugum þeirra, er til þekktu, fyrir sterk persónuáhrif og mikla starfsorku. Svo er um vin minn, Sigurð Ingiberg Magnússon, son þeirra heiðurshjóna Lilju Sigurðardóttur og Magnúsar Jónssonar að Hásteinsvegi 58 hér í bæ. Siggi Magg, eins og hann var kallaður meðal félaga, fæddist 15. sept. 1956 í Vestmannaeyjum, yngstur fjögurra systkina.
Það er sárt að missa slíkan vin en gleðiefni að vita hann enn í stöðugri þróun.
Líf okkar jarðarbarna er ákaflega misvindasamt. Að morgni leikur allt í lyndi en skyndilega geta sorg og erfiðleikar steðjað að jafn óvænt og raun ber vitni. Þannig brosti lífið við vini mínum Sigga Magg, jafnvel bjartar en öðrum ungum mönnum. Hann hafði yfirstigið mikla erfiðleika
vegna umferðarslyss nokkru áður, hafið nám að nýju í Menntaskólanum á Ísafirði og staðið sig með stakri prýði. Engan óraði fyrir, að Siggi væri ekki búinn að fá sinn skerf af ógnum dauðans.
Við Siggi áttum snemma samleið, sátum saman allan Barnaskólann. Urðum við því fljótt nánir félagar.
Hreinskilni vinar míns var einstök, svo oft undan sveið, en hlýja hans og vináttuhugur sýndu ótvírætt, að hreinskilnin var hans persónueinkenni og mætti fylgja fleiri mönnum.
Vinafesta Sigga kom skýrt í ljós, er hann hóf sitt framhaldsnám í Menntaskólanum við Hamrahlíð, en þá hittumst við að nýju eftir þriggja ára aðskilnað. Þar var kominn sami góði Siggi Magg, skýrorður og stefnufastur. Endurhófust því fljótt fyrri kynni.
Siggi hafði fjölhæfar gáfur en var lítillátur og veit ég, að slík upptalning væri honum hreint ekki að skapi. Samt verður ekki hjá því komizt að minnast nokkurra atriða í minningu vinar míns.
Mér er minnisstæðust þung sjúkravist Sigga í Reykjavík, eftir mikið umferðarslys í Eyjum. Í heimsóknum mínum til hans kom svo skýrt í ljós, að Siggi leit ekki á sig sem hinn venjulega „sjúkling“, hann var undantekning að því leyti, að allir aðrir voru veikari en hann, áttu við meiri erfiðleika að etja. Ég veit, að þessi trú var styrkasta stoðin í bata hans. Slík trú var ekki byggð á sandi. Þar var tilkominn styrkur ástkærrar fjölskyldu fyrst og fremst. Það var því síður en svo letjandi að heimsækja Sigga á sjúkrahús, heldur hin hollasta afþreying. Kímnigáfan var á réttum stað. Siggi var drátthagur, og saman við gott spaug tókst honum að gera frábærar skopmyndir í bæjarblöðin, sem lengi munu lifa. Af nægu efni var að taka eftir gosið.
(Sáningarstjórar að störfum).
Í Ritinu birtast tvær þessara mynda úr vikublaðinu FRÉTTUM. Þær eru tengdar tveim merkum þáttum: Útfærslu fiskveiðilögsögunnar og uppgræðslunni eftir gosið.
Siggi leitaði að bæjarbrag á við Eyjar og snéri sér því frá borgarasanum til náms við Menntaskólann á Ísafirði. Skyldu því leiðir okkar yfir vetrarmánuðina. Alltaf leit hann inn, er komið var til Reykjavíkur á leið til Eyja. Sátum við þá oft kvöldlangt og ræddum veraldarmálin.
En skyndilega sækir þetta dularfulla fyrirbæri, „dauðinn,“ að og í októberlok 1976 er þessi vinur minn allur, tvítugur að aldri. Stutt heimsókn frá námi til Eyja, er áttu hug hans allan, varð til þess að hann er horfinn af þessu lífsstigi. Fögur en ógnþrungin náttúra Eyjanna hafði markað hans endaspor hér.
Þegar ég hugsa til samverustunda okkar, er ég þess fullviss, að ungur maður, elskulegur, hreinskilinn og fjölhæfur er enn í stöðugri þróun. Hann er að vísu horfinn augum okkar, þeirra, sem eftir sitja, en þroski hans er á öðrum stigum og eflaust betur settur en flestra hinna ungu manna, er dauðinn sækir óviðbúið.
Eftir situr ljúf minning, sem vermir okkur og gerir þroskaðri og betri manneskjur.
Hún var því síður en svo tilgangslaus jarðarvist vinar míns, þótt styttri væri en nokkurn hafði fyrir órað.