Blik 1978/Brotni koppurinn (saga)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1978



GUMSI:


Brotni koppurinn


Full 60 ár eru liðin, síðan þessi atburður gerðist með okkur tveim strákum í Vestmannaeyjum. Í frásögn þessari heitum við peyjarnir Gumsi og Palli. Nöfnum á flestum öðrum persónum sögunnar verður einnig breytt. Að öðru leyti verður saga þessi sögð hér nákvæmlega eins og hún gerðist.

Föðurbróðir okkar átti eitthvert merkisafmæli og mikið stóð til. Veizlu skyldi halda og var föður okkar strákanna boðið í veizluna. Pabbi hafði keypt dýrmæta afmælisgjöf handa honum bróður sínum. Okkur Palla þótti gjöfin nokkuð fyrirferðarmikil, en annars áttum við ekki að fá að sjá hana. Hún var því ekki tekin úr umbúðunum, heldur læst inni í skápnum stóra í forstofunni, þegar komið var með hana úr verzluninni.
Forvitnin ætlaði alveg að gera út af við okkur. Þetta var um hádegið og gjöfin átti að sendast föðurbróður okkar síðla dagsins. Við afréðum að hefjast þegar handa, klófesta lykilinn að skápnum og glugga í umbúðirnar. Í ljós kom, að í umbúðunum var forláta fagurt þvottastell, kanna, fat og náttpottur. Hlutir þessir voru gylltir og skreyttir rósum.
Þar sem forvitni okkar Palla var nú fullnægt, var eftir að ganga vel frá næturgagninu eða koppnum í umbúðunum aftur, læðast svo út og láta ekki á neinu bera. Lyklinum skyldi komið á sinn stað. — En þá kviknaði á perunni hjá Palla. Hann þóttist sjá, að þetta skrautlega næturgagn mætti nota til ýmissa hluta umfram það, sem því var ætlað. Tekur hann nú í handfang þess og hvolfir því yfir höfuð sér. Aldrei hafði ég séð annan eins skrauthatt á nokkru mannshöfði. Og nú hljóp galsi í Palla og hann tekur að dansa í kringum mig með bukki og beygingum og taka hatt þennan ofan eins og til þess að heilsa mér eða sýna mér virðingu, honum eldri bróður sínum. Mér fannst þetta hinsvegar óvirðing við mig, eins og höfuðfatið var til komið, og mér mun hafa runnið í skap. Ég sló með lófanum þéttings fast á botn koppsins, þar sem hann trónaði á kollinum á Palla. Þar með hvarf höfuð hans í koppinn og brúnin nam við herðarnar. Nokkur brestur kvað við, þegar höggið reið af. Veslings Palli kiknaði í hnjáliðunum, en stóð þó af sér höggið. — Nú vaknaði hjá mér bróðurkærleikurinn. Ég tók þess vegna strax til að hjálpa bróður mínum, sem var töluvert yngri en ég. Með gætni reyndi ég að lempa koppinn með einhverju barefli. En hætti svo við það að sinni. Þá tók ég af öllu afli í „höfuðfatið“ hans, svo að Palli tók að æpa og kveinka sér af sársauka. Brátt stóð ég þarna fagnandi með djásnið á milli handanna, en Palli lá á gólfinu með eymdarsvip og stundi.
Nú fannst okkur bræðrunum nóg að gert. Við vildum koma koppnum á sinn stað í umbúðunum. En þá verðum við þess áskynja, að sprunga er komin í koppinn frá brún til botns. Þá litum við hvor á annan og hugsuðum báðir hið sama: Nú verður ekki sloppið undan bölvuðum vendinum, en hann þekktum við mæta vel á uppvaxtarárunum. Við fengum stundum að kynnast miður blíðum atlotum hans, og sjálfsagt ekki að ástæðulausu oft og tíðum.
Nú voru góð ráð dýr og skjótar ákvarðanir nauðsynlegar. Hvernig áttum við að koma okkur úr þessum mikla vanda, sem nú blasti við okkur?
Eftir gaumgæfilegar athuganir og bollaleggingar, tókum við okkar ákvarðanir. Við byrjuðum á því að nudda óhreinindum í brestinn á næturgagninu. Síðan sveipuðum við það umbúðum og löbbuðum með það til kaupmannsins, sem hafði selt pabba það. Þetta var 5-10 mínútna gangur. Við vildum komast í verzlunina óséðir. Það tókst okkur mæta vel. Palli bróðir opnaði verzlunarhurðina, en ég burðaðist með gripinn í fanginu. — En ekki var ein báran stök fyrir okkur. — Hver haldið þið, að væri staddur í búðinni, þegar við komum þar með koppinn? — Enginn annar en sjálfur presturinn hann séra Oddgeir, sem stóð þarna í hrókaræðum við kaupmanninn. Nokkurt fát kom á okkur, strákaskammirnar, og við vorum á fremsta hlunni með að hverfa út úr búðinni aftur án þess að reka erindið.
Eiríkur kaupmaður stóð þarna innan við búðarborðið. „Hvað er hægt að gera fyrir ykkur, snáðar mínir?“ spurði hann hinn reifasti og hressilegasti í tali, eins og vant var. „Hann pa, pa, pabbi sendi okkur með þetta,“ tókst okkur að stama upp. „Það er víst bro, bro, brotið.“ — Eiríkur tók við bögglinum, reif umbúðirnar utan af koppnum og skoðaði hann vandlega. Báðir skoðuðu þeir hið fallega næturgagn vandlega, kaupmaðurinn og presturinn. —Jú, brotið leyndi sér ekki, og það virtist vera gamalt, því að einhver dekkja var komin í það. „Já, satt segið þið, snáðar mínir, þarna er gömul sprunga í gripnum.“ Slíkri réttsýni kaupmanns og prests datt okkur Palla ekki í hug að mótmæla. Við þessi orð kaupmannsins urðum við strákarnir mun upplitsdjarfari. Við þorðum að gjóta auga til prestsins, sem stóð þarna í sömu sporum með kankvísu brosi. „Ekki er það nú alveg víst, að mér takist að bæta úr þessu,“ segir kaupmaðurinn um leið og hann hverfur inn í vörugeymslu sína að hurðarbaki. Eftir stundarbil birtist hann okkur aftur og hristir höfuðið. Því miður átti hann ekkert óselt af þessari gerð og þessum lit á þvottastellunum. Hann hefur nokkur orð um þennan skaða, þar sem þetta hafi verið fallegasta þvottastellið, sem eftir var í búðinni.
Eiríkur kaupmaður var skromaður mikill. Um leið og hann tjáir okkur þessi vandræði sín, snýr hann sér undan og lætur drjúga gusu falla í skrokoppinn sinn, sem stóð þar á næstu grösum. Við sáum skvetturnar úr koppnum lita vegg og gólf, þegar gusan féll. — Eftir þetta fagmannlega skot gellur karl við og segir: „Tja, við skulum nú sjá.“ Um leið lyftir hann skrokoppnum sínum, sem hann var að enda við að „skjóta í“. „Jú, þarna er óskemmdur koppur af sömu gerð og með sama skrauti og hinn brotni.“ Vissulega var þessi koppur mun „skrautlegri“ en hinn, því að hann löðraði utan í tóbakslegi!
Nú þarf ekki að orðlengja þessa frásögn. Kaupmaður þvoði tóbakskoppinn sinn vandlega, svo fékk hann okkur hann í nýjum umbúðum og bað okkur vel að lifa með kærri kveðju til hans pabba okkar. — Líklega höfum við Palli bróðir alveg látið okkur sjást yfir að skila henni!
Léttstígir og fljótir til fóts tókum við leiðina heim með nýja gripinn og komum honum vel fyrir í umbúðunum hjá könnunni og þvottafatinu. Og ekki er okkur annað vitanlegt, en að næturgagnið og fylgihlutir þess hafi reynzt vel og vakið ánægju og metnað frænda okkar og hans nánustu, því að slíkir hlutir voru ekki í hvers manns heimili í Vestmannaeyjum á þeim árum. Það er víst og satt. Og hreyknir vorum við strákaskammirnar af því að geta komið í veg fyrir, að pabbi biði skaða af strákapörunum okkar í það sinn.

Gumsi.