Blik 1976/Þrír piparsveinar, saga
Sveitarbæirnir stóðu í röð fram með klettóttri sjávarströndinni. Þó var æðispölur á milli þeirra. Sími var þar á hverjum bæ.
Bræðurnir Hávarður og Karl bjuggu í sambýli á einni jörðinni. Þeir voru lítið upp á kvenhöndina, en höfðu kvensaman hálfvita á framfæri sínu fyrir hreppinn.
Hávarður bróðir hafði frétt símleiðis, að bóksali væri á ferð um sveitina og gengi bæ frá bæ með bókatöskuna sína. Hávarður leit þögull í vesturátt og var á verði. Bóksalinn var væntanlegur á hverri stundu. Og svo sást hann á næsta leiti vestan við túnið.
„Hvað er nú til ráða til þess að snúa peyja af sér?“ spurði Hávarður Karl bróður sinn.
„Láttu mig um það,“ sagði Karl.
Stúlka hafði slegizt í för með bóksalanum. Drepið var á dyr.
„Farðu til dyra,“ skipaði Karl hálfvitanum kvensama.
Þegar hálfvitinn sá stúlkuna standa þarna við hlið bóksalans, strunsaði hann til hennar og bjó sig til að strjúka henni um lífið. Bóksalinn klappaði á öxl hans og óskaði eftir ráðandi heilvita til viðtals.
„Gef mér tuttugu og fimm aura greyið,“ sagði hálfvitinn.
Þegar Karl bóndi varð þess áskynja, hvað gagntók allan hug hálfvitans, gekk hann til dyra.
Bóksalinn heilsaði blítt og kurteislega og bar upp erindið. Hávarður bróðir hans stóð að baki Karli, sem hafði svör á reiðum höndum:
„Hvern andsk.... hefur það heimili við bækur að gera, þar sem allir eru ólæsir?“
Bóksalinn varð hvumsa. Honum hnykkti við. Hann kvaddi kurteislega, og svo stúlkan, sem hafði varizt hálfvitanum af harðfylgi.
Svo héldu þau til næsta bæjar. Ljúfur og látlaus kom húsbóndinn þar til dyra og bauð bóksalanum inn ásamt fylginautnum. Og nú kom til Teiz og Siggu um verzlunina. Bóksalinn lagði hinar skrautbundnu bækur á stofuborðið, lofaði þær í hástert og höfundana.
„Hversu margar bækur keyptu þeir hérna á næsta bæ fyrir innan?“ spurði bóndi.
„Minnstu ekki á það,“ sagði bóksalinn, „þar reyndist hver hálfvitinn öðrum verri og einn þeirra þoldi naumast við fyrir kvensemi.“
„Já, hálfvitar, já, ekki minna en það,“ sagði bóndi og varð dálítið kindarlegur á svipinn.
„Það er nú svo, það er nú svo. Bændurnir á Hólum eru bræður mínir og ég kýs þá að vera í hálfvitahópnum þeirra og kaupa engar bækur af þér heldur.“