Blik 1972/Kvæðið Páll Bjarnason, skólastjóri
(Einn af nemendum Páls skólastjóra Bjarnasonar frá Stokkseyrarárunum var Einar M. Jónsson, kennari og stúdent, sem síðast á æviferli sínum var skólastjóri iðnskólans á Reykjalundi. Hann var skáld og gaf út þrjár ljóðabækur. Ein ljóðabókin hans, Brimar á skerjum, kom út árið 1946. Eitt kvæðið þar heitir Páll Bjarnason skólastjóri. Þar drepur skáldið á starf skólastjóra, er hann gengur með nemendur sína um Stokkseyrarfjörur og kynnir þeim gróðurinn og dýralífið í sjónum þar við ströndina, en hann var vel að sér í öllum greinum náttúrufræðinnar og unnandi þeirra fræða.
Þá minnist skáldið þess, er skólastjóri gengur með nemendur sína á Grænuborg, sem er hæð upp af (norður af) Stokkseyrarþorpinu. Þaðan gefur að lita víðáttumikinn og fagran fjallahring í björtu veðri. Þessar ferðir skáldsins urðu því ógleymanlegar. Allra fyrst minnist skáldið litla skólahússins á Stokkseyri, sem byggt var um eða rétt eftir aldamótin og var kallað Götuhúsaskóli. Ég minnist þessa skólahúss frá ferðum mínum með nemendur mína á styrjaldarárunum. Þá ferðuðumst við til Stokkseyrar á vélbátnum Gísla J. Johnsen undir stjórn Sigurjóns Ingvarssonar, hins reynda sjómanns og skipstjóra, og gistum þá í þessu skólahúsi, þegar við urðum knöpp fyrir og þurftum að bíða byrjar heim. Þ.Þ.V.)
- Um lítið hús geymi ég ljúfar minjar;
- blikflöt bernskuára.
- Léttum sporum ég leiðum beindi
- þangað fræðslu að fá.
- Um lítið hús geymi ég ljúfar minjar;
- Ljóst ég man, er þú last oss kvæði;
- hrifning í barnahugum.
- Sál minni ungri opnaðir þú
- ljósheima fagurra ljóða.
- Ljóst ég man, er þú last oss kvæði;
- Saman við gengum á sjávarströndu;
- fróðleik ég fékk að heyra.
- Blóm og skeljar ég bar til þín;
- þú fræddir um fundin hnoss.
- Saman við gengum á sjávarströndu;
- Man ég vel, er á mildum degi
- ferð í hóp við hófum.
- Með fögnuði í sál í fylkingu við
- gengum á Grænuborg.
- Man ég vel, er á mildum degi
- Í björtu skyggni þú bentir oss á
- fjallahring fagurbláan.
- Vöknuðu ástir til ættlands, -
- birti í barnahugum.
- Í björtu skyggni þú bentir oss á
- Unaðsfangin við augum renndum
- og litum í landsuðurátt:
- Vestmannaeyjar - sem Venus hafborna-
- risnar úr regindjúpi.
- Unaðsfangin við augum renndum
- Yfir hjarnbungu Eyjafjalla
- röðull roða brá.
- Tindafjöll hjúpuðu tign og fegurð
- og hrímstrokið Heklufjall.
- Yfir hjarnbungu Eyjafjalla
- Þéttur á velli stóð Þríhyrningur,
- frægur í fornum sögum.
- Vörðufell bar við brúnir Hestfjalls,
- Nykurvatn Núpgnípum á.
- Þéttur á velli stóð Þríhyrningur,
- Hofsjökull stóð í hvítum skrúða
- fjærst að Bláfjallabaki.
- Djúpt í sál okkar dulþrá vakti,
- fjallanna fegurð og tign.
- Hofsjökull stóð í hvítum skrúða
- Lengst í norðri Langjökull sást
- birtast í björtum feldi.
- Jarlhettur gnæfðu með glæsta tinda.
- Heiðbjart var háfjallasvið.
- Lengst í norðri Langjökull sást
- Bláfell, Kálfstindar, Búrfell tvö
- risu í rausn og prýði.
- En þá við sáum þreklega vaxnar
- axlir Ingólfsfjalls.
- Bláfell, Kálfstindar, Búrfell tvö
- Skálafell eins og álfaborg
- gnæfði og Geitafell.
- Heiðarbrún yfir horfði Vífilfell
- austur til grænna grunda.
- Skálafell eins og álfaborg
- Eggjar Meitlanna eldi hertar
- gnöptu á garði fjalls,
- en Sandfell sig fól að fjallabaki;
- svipfríð var heiðin há.
- Eggjar Meitlanna eldi hertar
- Burt við gengum frá Grænuborg
- með fagnandi fararstjóra.
- Vald og einbeitni áttir þú,
- arfþegi Íslandsfjalla.
- E.M.J.
- Burt við gengum frá Grænuborg