Blik 1971/Björgunar- og varðskip

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1971



GUÐNI J. JOHNSEN:


Björgunar- og varðskip


Það hefur oft og mikið verið um það talað helzt á götunum þó, hve mikil nauðsyn væri að hafa hér björgunarbát. Þar við hefur setið, engar framkvæmdir í þá átt. Þörfin á slíkum bát hefur gleymzt jafnharðan og einhver báturinn, sem menn hafa verið orðnir hræddir um, hefur komið til skila aftur. Er skemmst að minnast þess, þegar „Rán“ vantaði héðan í haust og var af mörgum talin af. Þá var ekki um annað fremur talað hér en þörfina fyrir björgunarbát. Síðan hefur þetta mál að mestu legið niðri, og má það ekki lengur svo til ganga.
Reyndar hefur verið kosin björgunarnefnd svo kölluð, en það er hvergi nærri nóg. Það getur hvort sem er aldrei orðið annað en bráðabirgða úrræði. Takmarkið liggur fjær. Við verðum að fá björgunarbát. Útvegur okkar Eyjarskeggja er þegar orðinn svo mikill og atvinnuvegur svo margra manna, bæði hér og í fjarlægum byggðarlögum, að honum má ekki tefla í tvísýnu af tómu kæruleysi.
Það er þrennt, sem þarf að vernda og bjarga, ef á liggur: mannslífin, bátarnir og veiðarfærin. Ekkert af þessu er verndað af hálfu hins opinbera með núverandi fyrirkomulagi.
Vér Eyjabúar munum sennilega einir hafa mátt til að bera kostnaðinn af bátnum, en þar sem auðvitað er vissast að hafa skipið stærra en svo, að vér fáum það gert út hjálparlaust, þá verður ekki komizt hjá að ákalla landsstjórnina í þessu efni. Tekjur landssjóðs af Vestmannaeyjum eru það miklar, að gjarnan mætti hann leggja nokkuð fram þeim til gagns.
Það má ómögulega dragast að fá skipið, þó að ekki væri nema bátur. Til þess liggur sérstök ástæða. Hún er sú, að fyrirfarandi hefur verið mesti aragrúi af togurum á miðunum kringum Eyjarnar; það varð mörgum bátnum til bjargar. Nú mega þeir heita horfnir með öllu, einnig þeir íslenzku. Menn hljóta að sjá, að hér er mikill munur orðinn á, og framhjá þessu getur enginn gengið, sem vill líta með sanngirni á málið.
Hér verður ekki farið út í það, hve mikið útgerðin muni kosta, né heldur það, hverjum skyldan liggur næst. Aðalatriðið er, að mönnum skiljist það, að brýn þörf sé aðgerða, og það í þágu almennings en ekki örfárra manna.
Kostnaður við útgerð skipsins verður töluverður, en ekki er óhugsandi, að nokkuð mætti fá upp í hann, ef ekkert má gera til að vernda flotann hérna og líf nokkurra hundraða manna, nema fá það aftur greitt skíru silfri.
Setjum svo, að komið væri upp áminnztum björgunarbáti, mætti þá ekki líka nota hann til „landhelgisgæzlu úr landi“? Þess konar gæzla hefur verið stunduð í Garðsjó á einum vélbáti og þóttist gefast vel. Því skyldi þá ekki mega hafa hana hér líka? Nokkrum fjárstyrk mundi mega ná til þeirra hluta.
Eins og allir vita, voru togararnir orðnir svo uppivöðslusamir fyrir stríðið, að bátarnir voru hvergi óhultir með veiðarfæri sín fyrir þeim, hvorki fyrir utan né innan landhelgislínuna. Það kvað orðið svo rammt að þessu, að þeir fóru stundum með meiri hluta veiðarfæranna af einstaka bátum alveg á brott og það þó um hábjartan dag væri.
Þessum ófögnuði eigum vér von á strax að stríðinu loknu, og væri því ekki illa til fallið að við værum undir hann búnir.
Fyrir utan tjónið, sem við höfum beinlínis haft af veiðarfæramissi báta af völdum togara í landhelgi, sem óhætt er að reikna í þúsundum, er þó óbeina tjónið sennilega mörgum sinnum meira. Og það er miklu meira en menn gera sér í hugarlund, ef þeir fengju að vera í friði með veiðarfærin sín í landhelgi, og það væru sjómennirnir, ef varðskip væri við hendina. Víst er um það, að afleiðing slíkrar verndar nemur of fjár.
Einhverntíma hættir stríðið, vonum vér (því lauk haustið 1918, eins og kunnugt er) og væri þá vel, ef við hefðum eitthvað gert í þá átt að tryggja okkur björgunarbát, sem jafnframt gæti varið fiskimiðin fyrir ágengni útlendra fiskiskipa.
Þess skal að síðustu getið, að sæmilega stórt björgunarskip gæti gert gagn á öðrum miðum, ef það, sem bent er á hér að framan, þykir ekki nægilega stór verkahringur.
Menn munu ekki reka í augun það, að hér er ekki gert ráð fyrir sérstakri sumarvinnu skipsins. Ástæðan er sú, að nægilegt er fyrir skip að gera á sumrum við síldveiðar, flutninga o.fl.
Hins vegar gæti svo farið, að nægilegt yrði handa skipinu að gera hérna, ef menn kæmust almennt á það lag að stunda sjóinn jafnt sumar sem vetur.

Skeggi, 12. jan. 1918.


(Hér hefur þér þá, lesari góður, gefizt kostur á að lesa þá blaðagreinina í Eyjum, sem hreyfði betur en flest annað, er skrifað var um björgunarskipsmálið, við hug og hjarta Eyjafólks. Hún er sem sé skrifuð jan. 1918. Eftir það var tekið til að undirbúa skipakaupin)