Blik 1969/Vegur ofbeldisins og yfirtroðslunnar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1969


ctr


Vegur ofbeldisins og yfirtroðslunnar


„Aldrei líður mér úr minni“. Ég hafði naumast horfið frá starfi mínu í Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum, eftir 33 ára starf, er ráðandi menn bæjarins, þá með tvo bæjarstjóra í fararbroddi, gerðu hina hatrammlegustu árás á stofnunina: Þeir tóku af henni mikinn hluta lóðar hennar með fáheyrðu ofbeldi og hrottaskap. Þessa lóð hafði skólinn eignazt fyrir eigið fé eins og húsið, innbúið, kennsluáhöldin o.s.frv.

Eignir fullmótaðs og heilsteypts skóla eru í stærstu dráttum þessar:
1. Skólabyggingin,
2. nægilega víðáttumiklar lendur umhverfis stofnunina,
3. Innbú skólans (borð og stólar),
4. kennsluáhöld.

Gagnfræðaskólinn hér átti allar þessar nauðsynlegu eignir, er ég hvarf frá honum. Þegar ég hins vegar tók við Unglingaskólanum hér haustið 1927, taldist hann eiga eina gamla og slitna meterstiku, sem barnaskólinn hafði ánafnað honum, og gamalt og snjáð Íslandskort. Þetta voru allar eignir hans haustið 1927 og þess vegna engu af honum að ræna.
Gagnfræðaskólinn er sjálfseignarstofnun, sem byggður er, mótaður og rekinn fyrir fé úr skólasjóði, eigið fé, sem ríki og bær greiða árlega samkvæmt gildandi landslögum. — Þannig er staða skólans í bæjarfélaginu eins og staða Landakirkju t.d.
Lendur skólans voru á sínum tíma keyptar fyrir fé úr skólasjóði. Því til sönnunar birti ég hér afsal til handa skólastofnuninni fyrir lóð þeirri, sem bæjarvöldin tóku með ofbeldi af skólanum 1965. Þau létu þá brjóta niður tröppur, sem skólinn hafði látið gera á lóð sinni, göngutröppur upp að byggingunni. Jafnframt létu þau brjóta niður steinsteyptan vegg, sem skólinn hafði látið gera fyrir eigin fé til varnar lóðinni. Síðan létu bæjarstjórarnir leggja einn allra fjölfarnasta veginn í bænum um lendur skólans og í námunda við hann, svo að nemendum stafar hætta af, ef þeir dirfast að nota afgang lóðarinnar til leikja t.d.
Með lóðarráni þessu sönnuðu bæjarvöldin hér undir forustu tveggja bæjarstjóra, að þau telja skólann réttlausan um allar eignir sínar og höguðu þá gjörðum sínum samkvæmt þeirri skoðun sinni. Þetta gerist hér á sama tíma sem bæjarvöld og aðrir forustumenn menntamála annars staðar í bæjum landsins hlynna sem mest og bezt að skólum sínum og veita þeim sem allra stærstar lendur umhverfis skólabyggingarnar.
Hér birti ég svo afsalið, hina óræku sönnun fyrir því, hver er hinn löglegi réttareigandi lóðarinnar, sem bæjarvöldin hér tóku með hrottaskap og ofbeldi af Gagnfræðaskólanum.

Ég undirritaður Rútur Snorrason, Vestmannaeyjum, sel hér með og afsala Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum tún mitt, sem ber einkunnarstafina 37 A.P. 31 er að stærð upprunalega 7.087 fermetrar. Það liggur suðaustur af Landakirkju.
Kaupverðið er kr. 8000,00, — átta þúsundir króna, — og það hefur kaupandinn greitt.
Kaupandi greiðir skatta og skyldur af eigninni frá undirskrift þessa afsals og nýtur arðs af henni frá sama tíma.
Túnið selst í því ástandi, sem það nú er í, og hefur kaupandi kynnt sér það.
Til staðfestu eru nöfn kaupanda og seljanda undirrituð í viðurvist tveggja vitundarvotta.

Vestmannaeyjum, 7. maí 1953.
Rútur Snorrason
(sign)
F.h. Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum
Þorsteinn Þ. Víglundsson
(sign)
Vitundarvottar:
Björn Sigurðsson
Lárus Guðmundsson
Móttekið til þinglýsningar 13. maí 1953.
Eftirrit innheft XXX VII Nr. 117
Gjald: Þinggjald kr. 24,00
stimpilgj. ---- 192,00
Samtals ----- 216,00
tvö hundruð og sextán krónur.
Greitt d.u.s.
Freymóður Þorsteinsson
Stimpill: Bæjarfógetinn í Vestmannaeyjum.



ctr
Bæirnir Suður-Vík og Norður- Vík í Mýrdal.