Blik 1969/Minningarnar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit Blik 1969


KVÆÐI
MAGNÚS Þ. JAKOBSSON
Minningarnar
(Sonnetta)
Ég bind í huga bjartar, liðnar tíðir,
er bárugjálfur lék við fjörusandinn,
og jörðin hvít, en aðeins svalur andinn,
sem andlit strauk, að glaðir voru lýðir.
Og barnahópar bæjunum af, fríðir,
sér brugðu’ á leik í snjónum, það var gaman,
og léku sér hin ljúfu kvöld þar saman,
er lífið hló, — en haldið heim um síðir.
Stjörnuljósin blikuðu í blænum,
og bjartur máni skein í sínu veldi,
og töfrum sló á fjall og fjörusteina.
Ljómi þeirra lyfti litla bænum,¹
sem lá þar hljóður vafinn vetrarfeldi,
svo langt, að mátti hann af hafi greina.

¹ Þ. e.: þorp.