Blik 1967/Einar Sigurfinnsson, æviágrip, III. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit Bliks 1967


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


EINAR SIGURFINNSSON


ÆVIÁGRIP

(3. hluti)


Heimilislífið í Lágu-Kotey var hið ánægjulegasta. Systur Einars unnu í heimilinu og allir studdu hvern annan, hjálpuðust að sem einn maður.
Hinn 28. febr. 1920 andaðist Kristín móðir Einars úr lungnabólgu. Þá var hún 56 ára, - þreytt og slitin af látlausu erfiði. Dagsverkið var mikið orðið og hafði verið erfitt. Hún hafði alið 15 börn, eins og áður getur, og búið við þröngan efnahag jafnan. En kærleiksrík var hún, ástrík og fórnfús og aldrei heyrðist hún mæla æðruorð á hverju sem gekk og hversu lítið, sem var handa á milli til þess að seðja alla munnana. Börnunum sínum var hún allt, uppspretta ástríkis og blessunar, trausts og huggunar.
Eftir fráfall Kristínar móður Einars urðu ýmsar breytingar á bústjórn og fólki í Lágu-Kotey. Sigurður bróðir Einars giftist og fluttist til Reykjavíkur. Þá greip angur og tregi Einar, því að þeir höfðu verið sérstaklega samrýmdir bræðurnir. Kristín systir Einars var flutt burtu. Magnús bróðir Einars fékk jörðina til ábúðar.
Sjálfur afréð Einar Sigurfinnsson að breyta um verustað og flytja. Það varð þó ekki fyrr en 6 árum eftir lát móður hans, að hann fluttist frá Lágu-Kotey til Reykjavíkur. Hann var þá á 42. aldursári, er hann kvaddi bernsku- og æskustöðvarnar. Marga vini og kunningja í Meðallandi þurfti hann þá að kveðja, og ekki voru þeir allir kvaddir af ósnortnum hug.
Þegar Einar Sigurfinnsson flutti úr Meðallandi, sagði hann af sér öllum þeim mörgu trúnaðarstörfum, sem sveitungar hans höfðu falið honum. Þar skal fram tekið, að Einar var formaður Búnaðarfélags Leiðvallarhrepps. Í hreppsnefnd var hann og í sóknarnefnd, já, formaður hennar um skeið. Einnig var hann safnaðarfulltrúi. Mörg ár var Einar Sigurfinnsson meðhjálpari við Langholtskirkju. Þá var hann varasýslunefndarmaður um árabil og skattanefndarmaður.
Þegar ábúendaskipti verða á jörð, er jörðin tekin út eins og það er kallað. Einnig er svo gert, þegar þjóðjörð er seld ábúanda. Hreppstjórinn í hreppi hverjum er sjálfkjörinn úttektarmaður samkv. lögum, og svo skipaði sýslumaður úttektarmann með honum. Einar Sigurfinnsson var úttektarmaður í Meðallandi eða Leiðvallahreppi um langt árabil.
Áður en Einar Sigurfinnsson flutti úr Meðallandi, gerði Ungmennafélag Meðallendinga (U.M.F.M.) hann að heiðursfélaga sínum.
Í Reykjavík fékk Einar Sigurfinnsson inni í húseigninni nr. 50 við Bergstaðastræti. Það hús hafði Sigurður bróðir hans keypt. Synir Einars dvöldust austur í Skaftafellssýslu þetta sumar, Sigurbjörn á Kirkjubæjarklaustri og Sigurfinnur í Þykkvabæ.
Einar réði til sín ráðskonu, Elínu Sigurðardóttur frá Minnivöllum í Landssveit.
Í Reykjavík stundaði Einar Sigurfinnsson ýmsa vinnu eftir því sem til féllst. Hann vann helzt við afgreiðslu skipa, - og svo við húsasmíðar, þegar hann átti þess kost. Á sumrin var hann í kaupavinnu.
Sigurbjörn Einarsson hóf nám í 1. bekk Menntaskólans í Reykjavik haustið 1926. Sigurfinnur gekk í Miðbæjarskólann.
Sumarið 1927 hafði Einar í rauninni afráðið að fara ekki í kaupavinnu. Hann óttaðist, að erfitt yrði að fá vinnu aftur í höfuðborginni, ef hann hyrfi frá svo langan tíma, því að atvinnuleysi lét á sér kræla þar, þegar svo bar undir. En enginn ræður sínum næturstað, stendur þar. Svo fór hér um fyrirætlanir Einars Sigurfinnssonar. Það var sem annað aflið ýtti og hitt togaði. Hann lét undan þrábeiðni og réðist kaupamaður að Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi til hjónanna Guðmundar Ólafssonar og Önnu Árnadóttur.
Tvö börn hjónanna í Syðra-Langholti voru heima og unnu foreldrum sínum, Ragnhildur og Einar.
Vorið 1928 hófu þau búskap í Reykjavik Einar Sigurfinnsson og Ragnhildur Guðmundsdóttir heimasæta í Syðra-Langholti og fengu inni að Grundarstíg 3. Þetta vor, 28. maí, gengu þau í hjónaband. Þá var Einar 44 ára og hún tíu árum yngri. „Þetta hjónaband var og hefur ávallt verið mér mikið gæfuspor,“ segir Einar. „Traust vinátta, tryggð og hugulsemi einkennir eiginkonuna mína, og hetjulund og dáðadyggð hennar kemur gleggst í ljós, þegar mest á reynir.“
Einar Sigurfinnsson biður mig ekkert að dylja þessar fullyrðingar sínar um lífsförunautinn. Það fellur mér sérstaklega vel. Einkenni góðra manna og dyggðugra er hið opna og einlæga sálarlíf. Ekki skyldi draga fjöður yfir hamingjustundirnar í tilverunni. Og mig langar til að skjóta því hérna inn í, að margt hjónabandið myndi ánægjulegra og óþvingaðra, ef við eiginmennirnir gerðum meira að því að viðurkenna í orði og á borði tryggðir og dyggðir lífsförunautsins, fórnfýsi hans og aðra auðsýnda mannkosti.
Þeim Ragnhildi og Einari fæddist fyrsta barnið 19. febr. 1929. Sveinn var það og hlaut nafn afa síns Guðmundar bónda í Syðra Langholti. Þennan mæta dreng þekkjum við hér, Eyjabúar.


Í Reykjavík


Kröpp voru kjörin hjá mörgum verkamanninum í Reykjavík á þessum árum.
Fjárhagskreppan mikla var í aðsigi. Stór hópur verkamanna lagði leið sína niður að höfninni á hverjum morgni kl. 5-6 til þess að snuðra eftir vinnu. Þá hófst vinnudagurinn venjulega kl. 6 að morgninum.
Í leit að vinnu var gengið um bryggjur og bólverk til þess að athuga, hvaða skip hefðu komið í höfn um nóttina. Þar var vinnuvon, væri allt með felldu. Verkamenn skiptust á orðum, þar sem þeir biðu og vonuðu. Mörgum var hrollkalt. Sumir voru syfjaðir og þreytulegir. Menn voru þar á öllum aldri, frá nýfermdum drengjum til háaldraðra og úrslitinna öldunga.
Verkstjórinn gengur að skipshliðinni eða út á þilfarið. Nokkrir verkamenn fylgja honum fast eftir. Hann bendir þeim að opna lestina. Hún er full af saltfiski. Verkamennirnir vita flestir, hvernig þarna skal að verki standa. Þeim er mest „skipað fyrir“ með bendingum. - Brátt er liðið fullskipað og margir verða frá að hverfa. Þá leita þeir fyrir sér annars staðar.
Að þessu sinni var Einar Sigurfinnsson einn af þeim heppnu. Hann hlaut vinnu í fyrstu lotu. Uppskipunin úr togaranum er hafin af krafti. Einn maður er í hverri stíu. Fiskinum er kastað upp á pall undir lestaropinu. Hratt og títt fellur hann á pallinn. Þar stendur „gatmaðurinn“ og kastar fiskinum af pallinum upp á þilfarið, - upp á borð þar, sem nær frá lestaropinu út að borðstokknum. Af þessu borði er svo fiskinum kastað upp á bryggjuna. Á bryggjunni vinna svo aðrir við að kasta fiskinum upp á bifreiðir. – Alls staðar er keppzt við. Hvergi má safnast. Um „gatmenn“ er skipt á 15 til 20 mínútna fresti, því að þeir verða að hamast til þess að ekki safnist fyrir á pallinum undir lestaropinu. Þar kemst aðeins einn maður í senn að vinnu vegna þess, hve lestaropið er þröngt. „Gatmennirnir“, sem skiptast á, eru tveir.
Þegar lækkar í stíunum, þyngist vinnan. Látlaus saltmokstur og hærra upp að kasta. Menn eru kófsveittir og illa verkaðir af saltbleytunni. En hin væntanlegu verkalaun að dagsverki loknu sætta menn við erfiðið.
Margir urðu alls staðar frá að hverfa, fengu enga vinnu, eftir langa leit. Vonsviknir rölta þeir að verkamannaskýlinu, daprir í bragði. Setja sig þar niður og hvíla, sumir þreytulegri til að sjá en þó að þeir hefðu þrælað allan daginn í togaralestinni. Heima er bjargarlítil kona og börn, sem skortir flest það, sem til þæginda telst, já, líka brýnustu nauðsynjar.
Kaffi, kaffi, er hrópað. Verkamennirnir flýta sér og grípa nestiskassana sína með hitabrúsanum í. Kaffitíminn er stuttur, aðeins 15 mínútur. Margir flýta sér í skýlið. Aðrir drekka á vinnustaðnum, tylla sér einhvers staðar, meðan þeir sötra kaffilöggina með fátæklegu meðlæti. Sveitabóndanum finnst þetta allt ofur ömurlegt. Þó má illu venjast svo að gott þyki, hugsar hann með sér. Einar Sigurfinnsson er einn í hópi hinna „hamingjusömu“. Hann er fátalaður, en hugsar þeim mun meira.
Dagur er liðinn að kvöldi. Safnað er kröftum til næsta dags. Þá hefst vinnusnuðrið á nýjan leik, sem endar með sigrum eða vonbrigðum, svita eða hrolli.
Happ þótti þá að fá vinnu í salt- eða kolaskipi, því að þar var að vísu verki að ganga lengur en einn dag. - Erfið var vinna í saltskipinu. Þungt er að moka salti allan daginn. Þá var því mokað upp í hálftunnumál. Síðan var hellt úr málunum í poka. Síðan voru 6-7 saltpokar dregnir upp í einni kippu. Tveir menn unnu saman við hvert saltmál og reið mjög á því, að þeir væru samhentir.
Léttara er að moka kolunum en saltinu, sérstaklega eftir að komið er niður á lestargólfið. Þeim var mokað í trog og stórar körfur, og kepptust kolamokararnir við „krókinn“, hafa fullt næsta kolamál til að slá á það, þegar krókurinn kæmi niður.
Ekki voru „kolaverkamennirnir“ hörundsbjartir eftir að hafa unnið í kolalest allan daginn. Segja mátti með nokkru sanni, að föt, andlit og skrokkur væri svona hér um bil jafn svart. Ekki fóru lungun heldur varhluta af kolarykinu.


Flutt að Iðu


Vorið 1929 fluttust þau hjón, Ragnhildur og Einar, búferlum frá Reykjavík að Iðu í Biskupstungu. Þau höfðu keypt þá jörð og afráðið að hefja búskap, - þótti það lífrænna starf en „eyrarvinnan“ í höfuðstaðnum.
Erfið voru fyrstu búskaparár þeirra hjóna í Iðu, þó að nágrannarnir væru góðir og hjálplegir og hinn ákjósanlegasti samhugur ríkti þar á milli bændafólks og búaliðs. Viðskiptakreppan var að skella á. Allar afurðir féllu stórlega í verði og fjárhagskröggur alls staðar ríkjandi þess vegna.
Svo urðu hjónin fyrir því óhappi, að íbúðarhús þeirra á Iðu brann til kaldra kola 6. júní 1932. Þar brunnu flestir innanstokksmunirnir einnig. Eftir það óhapp stóðu hjónin eftir svo að segja slipp, aðeins í hversdagsfötunum og svo heimilisfólk þeirra, svo sem synir Einars frá fyrra hjónabandi og systir hans, sem vann þeim, og stálpaður drengur. Matarforði heimilisins brann einnig allur.
Nú máttu þau hjón með sanni segja, að vel kæmi sér að búa nálægt góðu fólki. Gjafir bárust þeim, svo sem föt og matvörur. Kreppan olli því, að peninga höfðu menn ekki aflögu. Þó bárust nokkrar krónur frá gömlum sveitungum í Meðallandi.
Um tíma virtust öll sund lokuð fyrir þeim hjónum að búa lengur á jörðinni. Hvergi lán að fá til íbúðarhússbyggingar. Bankar og sjóðir lokaðir fyrir lánum til slíkra framkvæmda. En þegar neyðin er stærst, þá er jafnan hjálpin næst þrátt fyrir allt. Kaupfélag Árnesinga hljóp undir baggann með hinum nauðstöddu hjónum á Iðu. Kaupfélagið lánaði þeim allt efnið í nýja húsið, lét smíða gluggana í það, hurðirnar o.fl. og flutti þetta allt austur á byggingarstað. Smiðir buðust fyrir væga greiðslu og nágrannarnir gáfu vinnu sína við gröft og grjótflutninga. Allt endurbyggingarstarfið gekk eins og í sögu. Og eftir 33 daga liðna frá brunanum, gátu hjónin flutt í nýja íbúðarhúsið með heimilisfólk sitt, þó að margt væri þar ógert innan veggja og sumt aðeins hálfgert.
Meðan á byggingarframkvæmdunum stóð, vann Ragnhildur húsfreyja húsmóðurstörfin í útihúsi æðrulaus og ánægð, eins og allt væri í bezta lagi. Drengirnir hans lögðu sitt til eftir megni og Sigurbjörn, sem stundaði nám í Menntaskólanum, gaf föður sínum og stjúpu megnið af vinnu sinni um sláttinn í þeirri trú, að honum legðist eitthvað til um það að standa í skilum með allan námskostnaðinn. Og vissulega sigraðist hann á því öllu saman. „Enginn verður óbarinn biskup,“ stendur þar.
Fyrsta kvöldið, sem þau hjónin lögðust til svefns í nýja íbúðarhúsinu, fletti húsfaðirinn upp í biblíunni sinni eins og oftar, svo sem eins og til þess að falast eftir spekiorðum einhvers hinna vísu feðra. Hin mikla bók birti honum 32. kafla hjá Elíasi, 18. versið. Þar gaf að lesa: „Mitt fólk skal búa í híbýlum friðarins, í heimkynnum örðugleikans, í hvíldarstað róseminnar.“ Þessi ritningargrein varð húsbóndanum huggunarorð, sem gott var að sofna við, þó að fjárhagurinn væri uggvænlegur. Trúin veldur mestu. Hún flytur fjöll. Sé hún nægilega sterk, er hver og einn ósigrandi. Líka í lífsbaráttunni. Já, ekki sízt þar.
Erfitt reyndist að standa í skilum með afborganir og vexti af skuldum; búið var lítið og samgöngur erfiðar. Það fór því svo, að afráðið var fyrir þráláta áeggjan útibústjóra Landsbankans á Selfossi að selja jörðina. Það gerðist svo árið 1935. Kaupandinn var landskunnur stjórnmálamaður í Reykjavík. Hann vissi, að þarna í Hvítá voru allgóð skilyrði til laxveiða. Þar gat verið gott að eyða tómstundum sínum milli erja á fundum og amsturs í stjórnarráðinu.
Salan á jörðinni var því skilyrði háð, að seljandinn hefði ábúðarrétt og not jarðarinnar með vægum kjörum.
Brátt losaði þessi kaupandi sig við jörðina. Hann seldi hana öðrum veiðigörpum, þrem höfuðstaðarbúum, á sama verði og með sömu skilyrðum.
Þessir þremenningar höfðu áður haft þarna veiðileyfi og voru því kunnugir öllum staðháttum. Þeir reyndust Einari Sigurfinnssyni góðir landsdrottnar.
Með sölu jarðarinnar losnaði Einar við allan skuldabaggann, og búskapnum héldu þau hjón á Iðu áfram á jörðinni næstu 20 árin.


Haldið til Eyja


Árin liðu ört og aldurinn færðist yfir. Einyrkjabúskapur olli þreytu. Þessvegna afréðu hjónin að hætta búskap og létta af sér því amstri, sem honum fylgdi. Þegar hjónin hættu búskap á Iðu, - það var árið 1955, - höfðu þau búið þar í 26 ár og Einar kominn yfir sjötugt. - Hvert skyldi svo halda?
Skín við sólu Skagafjörður, stendur þar. Oft skinu safírarnir úti fyrir suðurströnd landsins við sjónum þeirra hjóna, svo að þau dáðust að. Óskaland í undirheimum hafsins! Í þessu óskalandi æsktu þau að setjast að. Þau fluttu því til Vestmannaeyja. Hinn 7. júní 1955 fluttu hjónin frá Iðu til Þorlákshafnar. Stigu þar á skipsfjöl samdægurs og Vonarstjarnan í tvennum skilningi fleytti þeim til Eyja.
Nýtt umhverfi, nýstárlegt landslag. Hafið umlykjandi allt, stundum spegilslétt og aðlaðandi, oft æst og úfið. Nýtt fólk, starfsamt, viðmótsþýtt, greiðvikið, - gott fólk. Ef til vill hefur hafið orkað á sálarlíf alls þorra þess.
Já, hafið, óþrjótandi uppspretta, - en kjark og karlmennsku þarf til, eigi þar gull að grafast úr greipum Ægis.

Feðgar.
Frá vinstri: Hr. biskupinn yfir Íslandi Sigurbjörn Einarsson, Einar faðir hans Sigurfinnsson, Sigurfinnur Einarsson, verkstjóri og Guðmundur Einarsson, verzlunarmaður.

Fyrst settust þau hjón að í húseigninni Heiðartúni, sem stendur svo sem kunnugt er, suðvestur af íþróttavellinum. Þar leigðu þau húsnæði eitt ár.
Árið 1956 festu þau kaup á húseigninni Kirkjuvegi 29 í félagi við Guðmund son sinn og konu hans. Þessar tvær fjölskyldur hafa búið þar síðan.
Fyrst framan af stundaði Einar Sigurfinnsson venjulega verkamannavinnu hér í Eyjum. Vann t.d. um eitt skeið við Gagnfræðaskólabygginguna. Seinna réðist hann til Landssímans og gerðist þar skeytasendill. Þar bar skugga á fyrst í stað, er Einar réðist til þess starfs, hversu hann var ókunnugur fólki og íbúðum þess hér í bænum. En allt tókst honum starfið vel og örugglega, með því að allir voru boðnir og búnir til að leggja honum liðsinni til að rata og ná til þeirra, sem skeytin skyldu fá.
Þegar Sigurbjörn sonur Einars Sigurfinnssonar og stjúpsonur Ragnhildar hafði lokið stúdentsprófi, las hann guðfræði. Hann stundaði lestur og nám í þeirri fræðigrein í Svíþjóð um 4 ára bil. Eftir það las hann guðfræði við Háskóla Íslands. Hann vígðist prestur 11. sept. 1938 til Breiðabólstaðar á Skógarströnd. Eftir þriggja ára þjónustu þar, eða haustið 1941, var séra Sigurbjörn Einarsson skipaður prestur í Hallgrímssókn í Reykjavík. Þar þjónaði hann í þrjú ár. Var hann svo 1944 skipaður dósent í guðfræði við Háskóla Íslands og síðan prófessor.
Kennslustörfin við Háskólann hafði hann á hendi í 15 ár. Árið 1959, 21. júní var Sigurbjörn prófessor Einarsson vígður biskup yfir Íslandi.
Albróðir biskups, Sigurfinnur, og Guðmundur hálfbróðir hans, einkasonur Einars og Ragnhildar, búa báðir hér í Eyjum, kunnir góðborgarar hér og nýtir þjóðfélagsþegnar í störfum sínum.
Meðan séra Sigurbjörn Einarsson var prestur á Breiðabólstað á Skógaströnd, heimsótti Einar bóndi á Iðu son sinn þangað vestur og reið þangað einhesta. Ýmislegt orti hann á því langa ferðalagi. Mig langar til að birta hér nokkur erindi, sem þá urðu til.

Lagt af stað:

Ég legg af stað í langa ferð,
þótt lítt sé kunnur braut.
Ég bið þig, faðir, fylg þú mér
og forða háska og þraut.
Ég bið þig vísa veginn mér
og vernda slysum frá,
og leiða aftur heilan heim;
þig herra treysti ég á.

Í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd:

Hérna lifði og ljóðin söng
lands vors æðsti prestur;
þótt kytran væri köld og þröng,
kvöldin stundum dimm og löng,
lýsir þaðan leifturvitinn beztur.

Að Borg á Mýrum:

Ennþá Egils lifa ljóðin,
lifir þjóðarsálin sterk.
Einn við eigum sagnasjóðinn;
sígild lifa afreksverk.
Skallagríms ei skáli lengur
skín við sól á þessum reit;
margur hefur djarfur drengur
dáðir unnið hér í sveit.

Við Biskupsbrekku

Mér gefur sýn: Í löngu liðna tíð
lít ég trúarhetju dauðastríð;
Mér finnst ég heyra bænarorðin bljúg,
en björt er heimvon fyrir náð og trú.
Yfir beðnum bjartur geisli skín,
bjart er kringum nafnið Vídalín.
Ennþá lifa leifturskeytin hans,
lands vors kirkju mesta ræðumanns.

Á Þingvöllum:

Hérna efldist þor og þrek
og þroski í hug og sál.
Hingað þjóðin lagði leið,
að leysa vandamál.
Söm er ennþá vatnsins vídd
og virkisbjörgin há.
Svipur lands er sami enn,
og söm er Hrafnagjá.

Aftur heim á Iðu:

Heim, ó, heim, hve hjartað fagnar mitt.
Heim, ó, heim, ég lofa nafnið þitt,
sem leiddir mig um langa, farna braut,
Af öllu góðu er allra bezt samt heima.
Elsku guðs má sízt af öllu gleyma.

Þessi voru börn Kristínar Guðmundsdóttur, móður Einars Sigurfinnssonar, og stjúpa hans Sigurðar Sigurðssonar:

Bræðurnir frá Þórisholti í Mýrdal. Frá vinstri: Árni Einarsson, Kjartan Einarsson, Páll Einarsson, Gunnlaugur Einarsson, Matthías Einarsson, Einar Einarsson, Geir Einarsson.
  1. Sigurður, f. 20. okt. 1888, giftur Ingiríði Gestsdóttur frá Flagbjarnarholti í Rangárvallasýslu. Hann lézt 1928. Þau hjón bjuggu í Lágu-Kotey.
  2. Guðmundur, f. 1. maí 1890. Hann nam úrsmíði í Reykjavík. Fluttist síðan til Winnipeg og lézt þar á bezta aldri.
  3. Guðlaugur, f. 12. ágúst 1892. Dó 12 ára gamall.
  4. Kristín, f. 17. ágúst 1893, gift Indriða Guðmundssyni i Grindavík. Hún er nú ekkja.
  5. Sigurlín, f. 28. nóv. 1894. Lézt 15 ára gömul.
  6. Jóel, f. 30. marz 1897. Hann nam búfræði og býr í Danmörku, kvæntur danskri konu.
  7. Jakobína, f. 6. jan. 1900. Dáin 1914.
  8. Magnús, f. 8. maí 1901, bóndi í Lágu-Kotey um árabil. Fluttist þaðan í Kópavog. Hann er kvæntur Margréti Egilsdóttur og á 11 börn.
  9. Kjartan, f. 20. maí 1902. Dó ársgamall.
  10. Sigurður, f. 9. nóv. 1903, bóndi í Skammadal. Kvæntur Vilborgu Árnadóttur. Þau eiga 3 börn.
  11. Þuríður, f. 6. apríl 1906. Hún lézt 1931, ógift og barnlaus.
  12. Stúlkubarn fætt andvana 14. febr. 1908.
  13. Ágústa, f. 7. ágúst 1909, gift Sören Bogeskov. Þau búa í Reykjavik og eiga 3 dætur.


Römm er sú taug, ... Alltaf þráði Einar Sigurfinnsson að heimsækja átthagana, æskuslóðirnar, eftir að hann fluttist hingað til Eyja.
Loks lét hann verða af því. Það var sumarið 1963.
Þá fannst honum mikil breyting á orðin í átthögunum, breyting á aðstöðu allri til búskapar og ferðalaga. Á fáum klukkutímum fara menn nú langleiðir, sem fyrr þurfti marga daga til. Og nú er þotið í bifreiðinni, setið þar í hægu sæti þurr og hreinn. - Einari fannst æskusveitin sín Meðalland gjörbreytt. Áður var hún votlend að megin hluta, vegalaus og sundurskorin, umkringd af vötnum og foksandsgárum. Allgott vegasamband var nú orðið um sveitina. Votlendi ræst fram með djúpum skurðum og þurrkað, svo að ganga má þurrum fótum, þar sem áður voru keldur, fen og tjarnir. Foksandsflákar hafa verið girtir af, svo að þeir hafi næði til að gróa. Tún fara stækkandi á hverju byggðu bóli og bústofn vaxandi að sama skapi.
Þrátt fyrir allar þessar framfarir, sem skapa stórbætta aðstöðu til búreksturs og aukins menningarlífs í byggðinni og bættrar afkomu, fækkar þar byggðum býlum ár frá ári og svo fólkinu.
Ömurlegast þótti Einari Sigurfinnssyni að sjá í sveitinni sinni rústir eða auðar tóftir, þar sem áður voru fjölmennir bústaðir, mikið starfað og líf og fjör í mannlífinu.
Eins og fyrr er getið var Sigurbjörn prófessor Einarsson kjörinn biskup yfir Íslandi 2. apríl 1959. Vígslu hlaut hann 21. júní um sumarið. Og vígsludagurinn bar upp á 72. afmælisdag móður hans sáluðu, Gíslrúnar Sigurbergsdóttur, húsfreyju á Syðri-Steinsmýri.
Af bljúgum huga fullum þakklætis til föður ljóssins og lífsins orti biskupsfaðirinn, hinn trúarheiti Einar Sigurfinnsson, trúarljóð, er hann sendi syni sínum að lokinni biskupsvígslu. Þar standa þessar ljóðlínur:

Bið ég Guð með bljúgum huga
að blessi öll þín spor,
og gefa helgri Kristí kirkju
kröftugt náðarvor.

„Brátt er fyrir hendi síðasta förin,“ segir söguhetja mín. „Blessunar og hamingju hefi ég notið í ríkum mæli. Það sé ég bezt undir leiðarlokin, er ég lít yfir brautina, sem gengin er.“

Og svo yrkir hann:

Guði þakka gefin náðarár,
gæfu, bros og líka hryggð og tár
fyrir ástvini, sem unað veitti mér,
fyrir ótal gjafir. Faðir lof sé þér.
Bezt ég þakka æðstu unaðsgjöf:
Ég á í trúnni bak við hel og gröf
fögnuð lífsins, - fyrir herrans náð;
föður alda lof og dýrð skal tjáð.



ctr