Blik 1965/Verum árvökur, gætum okkar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1965



EINAR SIGURFINNSSON:


Verum árvökur, gætum okkar sjálfra
og þjóðarinnar


Einar Sigurfinnsson
Kirkjuvegi 29, Vestmannaeyjum.

Á fyrstu blöðum Íslandssögunnar er Vestmannaeyja getið og það á næsta athyglisverðan hátt. Oft hef ég íhugað þennan stutta sögukafla, sem vissulega hefði getað endað öðruvísi, en raun varð á.
Allmörg ár eru síðan ég setti saman eftirfarandi greinarkorn um þetta efni.


Fyrstu stéttasamtök á Íslandi

„Leifur herjaði víða um Írland og fékk þar mikið fé...Hann tók þar þræla tíu... Hjörleifur tók land við Hjörleifshöfða og sat þar um veturinn. En um vorið vildi hann sá. Hann átti einn uxa og lét þrælana draga arðurinn. — En er þeir Hjörleifur voru að skála, þá gerði Dufþakur það ráð, að þeir skyldu drepa uxann og segja, að skógarbjörn hefði drepið hann, en síðan skyldu þeir ráða á þá Hjörleif, ef þeir leituðu bjarnarins. Eftir það sögðu þeir Hjörleifi þetta. Og er þeir fóru að leita bjarnarins og dreifðust um skóginn, þá sóttu þrælarnir að þeim og myrðu þá alla jafnmarga sér. Þeir hljópu á brott með konur þeirra og lausafé og bátinn. — Þrælarnir fóru í eyjar þær er þeir sáu í hafi til útsuðurs og bjuggust þar fyrir um hríð. Þeir Ingólfur fundu þrælana, þar sem Eið heitir í eyjunum. Voru þeir að mat, er þeir Ingólfur komu að þeim. Þeir urðu felmstfullir og hljóp sinn veg hver. Ingólfur drap þá alla. — Vestmannaeyjar heita það síðan, þar sem þrælarnir voru drepnir, því að þeir voru Vestmenn (Landnáma, 5.-6. kap.).
Það er ekki löng frásögn, sem finnst rituð um þræla Hjörleifs, og flestir álíta, að nóg sé sagt frá slíkum mönnum. Sagnaritarinn dáir víkinginn, sem fór í vesturvíking og herjaði víða um Írland, fékk þar mikið fé og tók þræla 10. Frásögnin ber það líka með sér, að hann dáir búmanninn, sem lætur þrælana draga arðurinn. Sagnaritaranum blöskrar illmennska þrælanna, sem fólust í skóginum og réðust á Hjörleif og menn hans í leit að bjarndýrinu, sem hafði átt að drepa uxann. Þrælarnir drápu þá Hjörleif og menn hans, einn eftir annan, þar til enginn stóð uppi. Sagnaritarinn tilfærir með samúð svar Ingólfs, fóstbróður Hjörleifs, er hann vissi, hvað átt hafði sér stað. Einnig dáir hann ferðina til Eyja og hversu Ingólfi tókst að hefna fóstbróður síns.
Kynslóðirnar, sem síðan hafa lifað og starfað í þessu landi, hafa lesið þáttinn um fóstbræðurna, drengskap þeirra og dáð og hreysti.
Að vissu leyti hefur sú aðdáun átt rétt á sér, því að á þeirra tíma vísu voru þeir fóstbræður án efa drengir góðir og höfðingjar. Eðlilegt var, að Ingólfi sárnaði, þegar hann fann fóstbróður sinn dauðann og vita, með hverjum hætti dauða hans bar að. Auðvitað hlaut Ingólfur að leita hefnda, samkvæmt ótvíræðri fóstbróðurskyldu. Jafnframt hlaut hann að leggja kapp á að bjarga systur sinni, ekkju Hjörleifs, sem hann vissi nú í höndum þrælanna.
Ingólfi verður ekki ámælt. Hann gerði það eitt, sem skyldan bauð samkvæmt allsherjar fóstbræðralögum og almennri réttarvitund þeirra tíma.
En þetta er aðeins önnur hlið þessarar harmsögu. Hin hliðin, og hún ekki veigaminni, snýr að Vestmönnunum.
Gerum okkur í hugarlund, hvernig herferðir norsku víkinganna voru — eða hvað þær voru.
Íbúar Vestureyja sátu að búum sínum. Einhverja nóttina leggja herskip að landi. Margir menn, gráir fyrir járnum, stíga á land. Þeir láta greipar sópa um eignir landsmanna. Búfé þeirra var rekið til strandar og höggvið. Bæirnir voru rændir, öllu verðmæti ruplað. Heimilisfólkið sært eða drepið. Húsbændur og vinnumenn herteknir, hnepptir í þrældóm og áttu síðan við hin verstu kjör að búa það sem eftir var ævinnar. — Nærri má geta, hver vá Vestmönnum hefur þótt fyrir dyrum, er þeir urðu varir við að norskir víkingar voru í nánd. Maður getur gert sér nokkra hugmynd um þessi strandhögg með því að lesa „Tyrkjaránið á Íslandi“. Þar koma Vestmannaeyjar mjög við sögu.
Þegar þeir fóstbræður höfðu afráðið, að taka sér bólfestu á Íslandi, fór Leifur í hernað, svo sem sagan greinir. Hann herjaði víða um Írland. M.a. fann hann þar jarðhús mikið, sem hann gekk í. Þar fann hann mann, sem hélt á sverði svo björtu, að lýsti af. Þennan mann drap Leifur og tók sverðið og mikið fé þar.
Auðséð er eftir frásögninni, að Leifur, sem hér eftir nefndist Hjörleifur, eftir sverðinu, sem hann tók af manninum, — hefur gert mikið strandhögg í þessari ferð, og látið greipar sópa um eignir manna og m.a. hertekið 10 menn, sem hann gerði að þrælum sínum. Flestir munu þeir hafa verið kvæntir menn, feður og heimilisfeður.
Þessa herteknu menn flutti Hjörleifur með sér til Íslands, ásamt öðru því er hann rændi vestan Norðursjávar og svo sínum eigin fjárhlutum.
Fara má nærri um það, að Vestmenn þessir hafa borið þungan hug til Hjörleifs, hugsað oft heim og hugleitt örlög sín og aðstæður allar. Voru nokkur tök á, að losna frá kúgun og ævilöngum þrældóm?
Hjörleifur tók land við Hjörleifshöfða í Vestur-Skaftafellssýslu. Þá skarst þar fjörður inn í landið. Mikið skóglendi var upp af höfðanum.
Margt var það, sem gera þurfti. Bera skyldi föng frá skipi og búa um það. Afla þurfti vetrarforða handa fólki og fénaði og reisa tvo skála. Öllu þessu varð að vera lokið, áður en vetur gekk í garð.
Auðvitað hefur Hjörleifur og menn hans hinir frjálsu gengið að þessum verkum. En jafnvíst var það, að Vestmennirnir, þrælarnir, hafa verið látnir inna af höndum erfiðustu og verstu verkin og hin óþrifalegustu.
Og svo kemur vetur með illviðrum og fannkyngi. Þá hefur þurft að hirða féð, þótt fátt væri, afla eldiviðar o.fl.
Þegar svo voraði, vildi Hjörleifur sá korni, svo sem venja var í átthögum hans heima í Noregi. Aðeins átti hann einn arðuruxann til að erja jörðina. Arðurinn var þungur og jörðin seig og ill til vinnslu, enda legið óhreyfð frá örófi. Þá lét Hjörleifur þrælana draga arðurinn með uxanum. Þá brauzt uppreisnarhugurinn fram.
Hjörleifur og menn hans hinir frjálsu eru við skála og njóta vorblíðunnar. Þrælarnir strita vorlangan daginn og vel það.
Dufþakur gerist foringi þrælanna og leggur á ráðin. Ekkert vit var að mæta kúgurum sínum á hösluðum velli. Til þess skorti vopn og ef til vill hreysti. Eina ráðið var að beita kænsku. Hér var í rauninni engu að tapa. Líf þeirra í áþján var þeim daglegur dauði. Allt var að vinna, ef heppnin var með þeim. Frelsið var þeim allt.
„Drepum uxann og segjum síðan, að skógarbjörn hafi gert.“ Tillaga þessi var samþykkt einróma og uxinn þegar stunginn til bana. — Einn hinna írsku hleypur heim til skála og segir tíðindin um áleitni og grimmd bjarnarins. Hinir felast í skóginum.
Hjörleifur og menn hans búast í skyndi til að leita bjarnarins. Fleira af búfénu skyldi hann ekki drepa.
Þeir dreifast víðsvegar um skóglendið. Þá ráðast Vestmennirnir að þeim einum og einum og allir Austmennirnir eru felldir.
Hefndinni er fram komið og frelsið fengið. Ef til vill hafa þeir einnig átt ættingja eða vina að hefna.
Næsta skrefið var að leita öryggis; Ingólfs mátti vænta á hverri stundu. Þeir tóku það ráð að fara á skipsbátnum vestur með strandlengjunni. Konur hinna vegnu höfðu þeir með sér og svo lausafé. Þegar þeir sáu Eyjar, afréðu þeir að lenda þar. Þeir dveljast þar um hríð, ef til vill nokkra daga, unz Ingólfur kom þar að þeim óvörum og vann á þeim öllum. Á þessa leið er sagan um fyrstu stéttasamtökin á landi hér. Hin kúgaða og undirokaða stétt — þrælarnir tíu — taka sig saman til að öðlast frelsi á ný. Sameinaðir grípa þeir eina ráðið, sem tiltækilegt var eins og á stóð. Og sameinaðir unnu þeir sigur, þó að segja megi, að skamma stund yrði „hönd höggi fegin“.
Hugsjón Vestmannanna var sú, að öðlast frelsi á ný eða falla ella. Og þeir unnu frelsið. En andvaraleysið tók hug þeirra of snemma. Hefðu þeir verið á verði um hið nýfengna frelsi, eru miklar líkur til þess, að þeir hefðu fundið sér í Eyjum öruggan varnarstað, þar sem þeir urðu trauðlega unnir.
Árin líða og aldir líða, þ.e.a.s. hálf 8. öld. Þá ber gesti að garði í Vestm.eyjum. Suðrænir sjóræningjar taka þar land og gera strandhögg á sína vísu, ræna og rupla, myrða og brenna. Aftur er tekið það ráð að flýja sem fætur toga og leita hælis, felustaðar, í stað þess að sameina kraftana og berjast til þrautar. Aftur var komið að fólkinu óvörum. Það var án alls viðbúnaðar, þegar ræningjarnir stigu þar á land. Sá skortur á varhyggð, varhyggju og árvekni, kostaði þá hálft þriðja hundrað manna í Eyjum frelsið og marga þeirra lífið.
Sem betur fer þurfa þeir, sem nú byggja Vestmannaeyjar, ekki að óttast árásir vopnaðra óvina. Engu að síður er þeim lífsnauðsyn að vera á varðbergi og standa saman um persónulegt frelsi, heiður sinn og hagsmuni. Í ýmsum myndum leita óvinir á okkur og valda skerðingu á frelsi, heiðri og efnahag, ef við erum kærulausir, hugsunarlausir, viljalausir og látum án andvara skeika að sköpuðu. Mér kemur t.d. í hug óvinurinn Bakkus, sem veldur nú óumræðilegu böli á fjölda heimila í landi voru, mæðu, sorg og vonbrigðum miklum fjölda íslenzkra foreldra. Eiga foreldrarnir sjálfir enga sök á öllum þeim ósigrum, ósóma og æruskerðingu margra æskumanna? Hafa þeir sjálfir, foreldrarnir, verið á varðbergi og gætt fyllstu varúðar gagnvart þessum skæða óvini, sem sækir heimilin heim án allra sýnilegra vopna? Ef til vill hafa ýmsir þeirra boðið sjálfir þessum óvini heim.
Það er staðreynd, sem sagan og lífið sjálft sannar okkur, að við verðum ávallt og alls staðar að standa vörð um persónulegt frelsi okkar og lífshamingju, ef okkur á að farnast vel. Og eins og sú árvekni og varðbergsstaða gildir heill og hamingju einstaklingsins, þá gildir hún einnig frelsi og tilveru íslenzku þjóðarinnar í heild.