Blik 1965/Uppdráttarveizlur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1965



ÁGÚST ÁRNASON:


ctr


Ágúst Árnason, kennari.
(Sjá grein um hann í Bliki 1963).

Þessa grein sendi frú Ólöf Ólafsdóttir, kona Ágústs Árnasonar, kennara, okkur nokkru áður en hún lézt. Hún dó 21. júlí 1963. Frú Ólöf var fædd að Hlíðarendakoti í Fljótshlíð 28. október 1884. Foreldrar hennar voru Ólafur óðalsbóndi Pálsson og k.h. Guðrún Árnadóttir. — Systkini frú Ólafar voru þessi:
Guðrún húsfrú í Aberdeen í Skotlandi.
Helga frú í Reykjavík.
Árni bóndi í Hlíðarendakoti.
Páll verzlunarmaður í Vestmannaeyjum.
Öll eru þessi systkini látin. Þorsteinn Erlingsson skáld ólst upp í Hlíðarendakoti, svo sem kunnugt er, og var fóstbróðir þeirra systkina. Frú Ólöf fluttist til Vestmannaeyja 1904 og giftist Á.Á. 23. apríl 1905. Þau eignuðust 5 börn, 4 dætur, búsettar nú í Reykjavík, og einn son, sem dó ungur.


Þegar úti voru vorróðrar og Vestmannaeyjaferðir undir Eyjafjöllum, voru skipin dregin upp á land og gengið frá þeim varanlega, svo að um þau færi sem bezt til næstu vertíðar. Oft var þó eitthvað af julunum skilið eftir og enda eitthvert stórt skipið, ef hugsað yrði til Eyjaferðar að haustinu. — Ýsuhlaup kom þá tíðum fyrri hluta sláttar, og þótti illt að geta ekki notað sér það, þegar blíða var. Þá var skotizt út á morgnana snemma, því að annan tíma dagsins fiskaðist venjulega ekkert. Ekki gátu notað sér þetta nema þeir, sem nærri sjó bjuggu, því að slæmt þótti að eyða heilum góðviðrisdögum frá heyskapnum. En þeir, sem bjuggu á sjávarbakkanum, gátu verið komnir til verka um dagmál eða að minnsta kosti um hádegi, þó þeir skryppu út með færisstúfana, og viðbúnir þó að fá í hlut 10—20 ýsur, stútunga og lýsur.
Venjulega voru uppdráttarveizlurnar (í Mýrdalnum, voru þær kallaðar hrófveizlur), haldnar í sláttarbyrjun, — laugardaginn í 13. og 14. viku sumars, því að undantekningarlaust voru þær haldnar á laugardegi.
Öllum hásetum, sem til náðist, höfðu áður verið gerð boð að mæta fram í „Sandi“ síðdegis hinn tiltekna dag, — og þótti flestum það hinn mesti gleðiboðskapur. Ekki var það þó af því, að fyrirhafnarlaust væri að koma stórskipunum upp á grös, sízt þar sem „gljáin“ var breið og blaut, eins og víða er í Landeyjunum og undir Fjöllunum. Í Mýrdalnum hins vegar er leiðin stutt.
Ég mun varla hafa verið meira en 5—6 ára, þegar ég kom í fyrstu uppdráttarveizluna. Að minnsta kosti er mér það minnisstætt, að ég var girtur á hestinn og þótti lítil virðing að. En allt var tilvinnandi til þess að fá að kynnast nýjungum. En hvers vegna fékk ég að fara svona langt, alla leið ofan af Merkurbæjum og austur í Holtsvarir? Ástæðan var víst sú, að faðir minn átti hálfan hlut í skipinu, sem draga átti upp og varð því að leggja til hest eða hesta hvort eð var. Þetta skip var einn af gömlu áttæringunum, sem þá munu hafa verið að hverfa úr sögunni.
Fátt man ég úr veizlunni, nema hvað mér blöskraði, hvað karlarnir voru sterkir, að geta ráðið við svona stórt skip, — og hve háværir og kátir þeir voru um kvöldið, þó að þeir ætu vel og drykkju mikið kaffi. Reyndar sá ég, að þeir helltu einhverju í það, öðru en mjólk, en bollinn valt þá líka stundum um koll um leið. Fyrir það var ég vanur að fá ákúrur heima, en þeir hlógu bara því meira.
Fyrst, þegar ég man vel eftir, var uppdrættinum hagað þannig, að 8 hestar voru ætlaðir undir hvert skip, — fjórir undir hvorn enda. Löng og sterk tré voru lögð undir kvið hestanna og bundin upp yfir reiðingana. Síðan var skipið lagt á hliðina eða því hvolft ofan á trén milli hestaraðanna. Til þess burðar voru valdir mestu stólpagripirnir og dugði stundum ekki til. Oft ofreyndust einhverjir þeirra, svo að þeir biðu þess aldrei bætur. Síðar komust menn upp á miklu betri og áhættuminni aðferð við þetta verk. Þá voru notaðir fjórir hestar og einungis undir öðrum endanum (afturenda). Tré var þá bundið þvers yfir skipið um austurrúmið, þar sem það var grynnst. Síðan var því lyft að aftan og hestarnir teymdir undir tréð og það látið leggjast ofan á reiðingana og svo bundið vandlega. Þá voru skorður teknar undan skipinu og hestarnir teymdir af stað, en áhöfnin öll gekk með skipinu, studdi það og ýtti á eftir. Gekk þetta oftast nokkurn veginn greiðlega, ef gljáin var ekki því blautari. Þessi aðferð var líka hættulaus, því að ekki var annað en setja skorður undir skipið ef eitthvað var að eða bjátaði á, og létta þannig á hestunum. En nauðsynlegt var, að þeir væru sem allra jafnastir að stærð, enda var þess jafnan gætt.
Þegar komið var upp á grös, — gljábakkana, — var skipinu hvolft og skorðað fast undir miðju þess til þess að varna því, að það sligaðist, — sigi niður um miðjuna, en við því var þeim hætt, er þau eltust. Oftast voru stafnar skipsins grafnir lítið eitt niður og skjólgarður úr torfi hlaðinn báðum megin um miðbikið, þar sem þau voru mest á lofti. Allt var þetta gert til þess að verja þau fyrir átökum norðvestan veðranna, sem við og við geisast austur með Fjöllunum.
Ef setja þurfti til bæja vegna viðgerða, var sá setningur geymdur til haustsins og framkvæmdur á frosinni jörð.
Þegar hinum erfiða setningi var lokið og gengið hafði verið frá skipinu, tóku allir til hesta sinna. Sumir höfðu þá fataskipti áður að einhverju leyti, sérstaklega yngri mennirnir, sem þóttust þurfa að halda sér eilítið til. Þeir höfðu með sér verri föt við setninginn. Var svo stigið á bak, sprett úr spori og haldið til bæja.
Oftast var uppdráttarveizlan haldin hjá formanninum, annars hjá einhverjum skipseigandanum, en þeir lögðu að sjálfsögðu til veizluföngin. Þau voru langoftast mjólkurgrautur með rúsínum og kanel (vellingur), hert og soðin langa með bræddri feiti, kartöflur og rófur, ef til voru, brauð og kökur, — einstöku sinnum hangikjöt, — hjá þeim, sem efnaðastir voru. Á eftir kom svo kaffi með lummum, að ógleymdu brennivíni eða „púnsi“, sem blandað var í stórum skálum, úr rommi, heitu vatni og sykri. Svo fékk hver sinn bolla og dró sig eftir björginni eftir vild. Gerðist þá jafnan glatt á hjalla, — sungið og kveðið óspart og margt sagt hnyttið, — og stundum óheflað, — en venjulegast þó í bróðerni, og í hæsta lagi, að hnútur mættu hnútum og fellu þannig niður, - væru lagðar að jöfnu. Tíðum voru í veizlum þessum gerðar upp gamlar sakir til fullnustu frá vertíðinni, smærri og stærri, og fékk hver sinn vitnisburð vel úti látinn á hvorn veginn, sem var, og formaðurinn enda líka. En vitnisburður honum til handa var oftast tjáður á fyndinn hátt eða með fínni hætti. Til dæmis um það er þessi smásaga:
Stóri-Sveinn var einn formaðurinn undir Fjöllunum nefndur, — mesti myndar- og hæfileikamaður, en talsvert mikill á lofti á yngri árum.
Einu sinni hafði hann lagt „til landsins“ í lokaferð úr Eyjum í ofsa norðanroki. Fékk þá ágjöf mikla og var hætt kominn, svo að kasta varð út einhverju af farminum. Í uppdráttarveizlunni var hann að slá um sig með ýmsum hreystisögum, þar með, hversu honum hefði tekizt vel stjórnin í þetta umrædda sinni m.m. Þá sagði einn af hásetum hans með mestu stillingu: „Ja, hvað er um að tala, — það fór allt í mesta myndarskap hjá þér, lambið mitt, og eins þó að þú hefðir drepið okkur alla.“ Af þessu varð roknahlátur, en formaðurinn þagnaði. Þar með var það mál útrætt.
Að öllum jafnaði mun það hafa verið talið sjálfsagt að fala og ráða háseta til næstu vertíðar í þessum veizlum, — að mestu leyti að minnsta kosti. Ekki þótti það góðs viti, ef ekki var ymprað á neinu slíku við einhvern.
Lítinn þátt tók kvenfólkið í þessum veizlum annan en að ganga um beina, — í hæsta lagi að horfa og hlusta á það, sem fram fór. Sumar gengu jafnvel til náða á venjulegum tíma, þar sem húsakynni voru það rúmgóð, að gestirnir þurftu ekki að halda sig í baðstofunni.
Ekki minnist ég þess, að ég sæi kvenmann nokkru sinni neyta víns eða vera þátttakanda í vínneyzlunni.
Eins og áður er getið, voru oft margar uppdráttarveizlur haldnar víðs vegar á bæjum sama laugardagskvöldið, og þótti því vel við eiga að grennslast eftir, hvað gerðist annars staðar, — ekki sízt, hvort „mjöðurinn“ væri alls staðar ósvikinn. Heimsóknir voru því tíðar á víxl alla nóttina og jafnvel langt fram á næsta dag.
Undir Eyjafjöllum, og þó víða væri leitað, er nafnkunnust uppdráttarveizlan „mikla“, sem Þorvaldur Björnsson, bóndi á Þorvaldseyri, hélt laust fyrir 1890. Ég man vel eftir því, að ég heyrði því snemma viðbrugðið, hve stórmannleg, fjörug og skemmtileg hún hafði verið.
Guðjón Jónsson, oftast kenndur við Sandfell í Vestmannaeyjum og lengi kunnur formaður þar og útvegsmaður, var að mestu alinn upp hjá Þorvaldi bónda á Eyri. Hann hefur tjáð mér, að þá hafi gengið 9 eða 10 skip undir Austur-Eyjafjöllunum og hafi Þorvaldur átt 4 þeirra. Þessi 4 skip lét hann öll draga upp sama laugardaginn. Hið sama munu flestir aðrir gert hafa. Veður var indælt, — logn og sólskin. Þegar komið var heim að Eyri síðla dags, var búið að slá upp borðum og bekkjum sunnan undir íbúðarhúsinu, úti í guðsgrænni náttúrunni. Þar settust allir að snæðingi og kaffidrykkju eins og hver vildi hafa. Ekki er mér kunnugt um, hvað á borð var borið, en gera má ráð fyrir að það hafi verið eitthvað svipað því, sem ég hef áður drepið á eða nefnt um veizlurnar við slík tækifæri. Þó mun ekki hafa verið borið á borð kjöt handa öllum þessum fjölda, líklega yfir 50 manns, þótt veitandann muni hvorki hafa skort efni né rausn til þess, hefði hann viljað það við hafa. Sennilegt þykir mér, að eitthvað hafi þótt vanta, þótt matur væri ekki við neglur numinn, enda kom innan skamms í ljós, að skola skyldi máltíðinni niður með öðru en eintómu kaffi.
Skömmu eftir að upp var staðið frá borðum, var komið með stóreflis leirskálar 6—8 marka. Þær voru hálfar af sjóðandi vatni. Með þeim var sett á borðin sykur, bollar, blikkmál og sleifar. Vöknuðu þá heldur en ekki vonir um „hressingu“ hjá mörgum, enda létu þær vonir sér ekki lengi til minnkunar verða, því að í sömu andránni kemur ráðsmaðurinn með vatnsfötu mikla fleytifulla af rommi og skiptir úr henni í skálarnar. Húsbóndinn sjálfur býður svo gestunum að gera sér gott af, ef þeir hafi lyst á og leggi sér slíkan drykk til munns. Ekki er um það að orðlengja, að upp úr þessu varð eitt hið mesta „generalfyllirí“, sem sögur fara af undir Eyjafjöllum. Enga þurrð var að sjá á drykkjarföngunum, því að jafnóðum og fötin tæmdust, var bætt í þau. Sumir segja pott settan á hlóðir úti á túni, þegar leið að miðnætti, til þess að hita í vatnið. En hér sannaðist sem oftar hið fornkveðna: „Þar sem hræið er, þangað munu ernirnir safnast.“ Þegar leið á nóttina, fóru að drífa að fleiri en upphaflega voru boðnir. Hvort eða hvernig „hvalsagan“ hefur flogið svona fljótt, skal ég ekkert um segja, en hitt er víst, að hópana dreif að úr öllum áttum, — austan úr Króki, utan úr Holtshverfi og af Skálabæjum og neðan úr Leirnahverfi, — og öllum var jafnheimill drykkurinn og aldrei þraut uppsprettan.
Eins og gefur að skilja, kunnu ekki allir jafnvel „magamál sitt“ eða hófstillingartakmörkin og féllu því úr leik fyrr en varði. Þá, sem í valinn féllu, lét húsráðandinn færa jafnóðum inn í hlöðu og hreiðra þar um þá í heyinu, svo að ekki slægi að þeim í næturkulinu og dögginni.
Reiðskjótar allir voru vel geymdir í hestaréttinni, margir þó með snarað þófareiða eftir misheppnaða tilraun til að komast á bak.
Að líkindum hefur ýmislegt kímilegt hent og margt óheflað orðið fokið í hinni miklu drykkjuveizlu og sjálfsagt hefur Þorvaldur bóndi ekki lagt miklar hömlur á það, ef ég man rétt. En aldrei heyrði ég getið um neitt áberandi rifrildi eða handalögmál í þessu einstæða hófi og ekki mundi Guðjón á Sandfelli neitt slíkt.
Nóttin leið fram á næsta morgun í „glaumi og gleði“ með nýjum og nýjum heimsóknum, en aðrir héldu heim á leið, ef til vill dálítið valtir í söðlinum, —sumir.
Sunnudagurinn rann upp heiður og fagur og minnti smám saman, — eftir því sem menn vitkuðust, — á alvarlegri störf með næsta degi, þar sem sólskinið og útrænan komu sjálfboðið til þess að þurrka töðuna, ef hún þá hafði verið losuð.

ctr