Blik 1963/Vetrar-fýlaveiðar í Ofanleitishamri

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1963



FRIÐFINNUR FINNSSON:


Vetrar-fýlaveiðar í Ofanleitishamri


Í Blik 1962 skrifaði ég greinarkorn um líf og störf Ofanbyggjara fyrir 40—50 árum. Margir kunningjar mínir og jafnaldrar hafa þakkað mér fyrir að rifja upp gamla tímann, sem svo oft ber á góma. Jafnframt minntu þeir mig á það, sem ég gleymdi í því spjalli. Það voru vetrar-fýlaferðirnar í Ofanleitishamar, en þær voru alltaf stundaðar af kappi og krafti eins og allir aðrir bjargræðisvegir.

Eins og allir Eyjamenn vita, hverfur fýllinn úr fjöllunum í byrjun september ár hvert, þegar unginn er floginn úr sumarhreiðrinu sínu. Þá flýgur fýllinn langt á haf út. Þar heldur hann sig í tvo mánuði. Þá kemur hann aftur til sinna fyrri heimkynna og heldur sig þá ýmist á sjónum kringum Eyjarnar eða í björgunum. Það fer eftir veðráttu. Sitji fýllinn mikið uppi í björgunum eða fjöllunum, má taka mark á því um veðurfar og hlýindi að vetrarlagi.
Þegar fram leið í nóvember ár hvert, fóru veiðimenn þeir, sem þessar veiðar stunduðu í Hamrinum, að setja í stand veiðiháfa sína.
Bjarneyjarveiðimáli á veiðirétt í Ofanleitishamri. Í Hamrinum eru þrír veiðistaðir, sem heita „Góð ofanferð“, Miðhamar og Ketilsbekkur.
„Góð ofanferð“ er beint vestur af Brekkuhúsi. Þar veiddu sinn daginn hverjir veiðimenn frá Brekkuhúsi og Draumbæ. — Miðhamar er skammt fyrir norðan Háufoldir. Þar veiddu veiðimenn frá prestinum á Ofanleiti. — Ketilsbekkur er miðja vegu milli Háufolda og Hafursdals. Þar veiddu veiðimenn frá Suðurgarði og Gvendarhúsi, sinn daginn hvorir.
Eins og að líkum lætur, þá voru þessar veiðar mjög stopular, því að ekki voru tök á að veiða fuglinn nema í vissum áttum. Sunnanáttin var bezta veiðiáttin eða þegar vindur stóð af Brandi. Nokkuð mátti þá bera út af um vindátt, ef fugl var vel við, eins og það var kallað. Einnig var veitt í norðvestanátt, en þá veiddist yfirleitt minna, enda þá oftast kaldara í veðri. Bezt veiddist sem sé í hægri sunnanátt og þíðviðri. Ágæt veiði þótti, ef maðurinn veiddi 40—50 fýla á dag. Stundum var dagveiðin allt að 100 fýlum, en það var sjaldgæft.
Stundum sátu menn að veiðum þarna allan daginn og höfðu ekki nema 10—20 fýla upp úr þeirri þrásetu, sem sannar þrautseigju manna við að draga björg í bú, því að kuldalegt var að sitja allan daginn við þessar veiðar.
Venjulega fóru veiðimennirnir á bandi niður í veiðistaðina í Hamrinum, en þeir voru um það bil miðja vega milli brúnar og sjávarborðs.
Þegar hætt var veiðum dag hvern, var fuglinn bundinn í kippu og festur við bandið. Síðan var hann dreginn upp á brún. Kippan síðan lögð á axlir sér og borin heim. —
„En ekki er sopið kálið, þó í ausuna sé komið,“ segir máltækið. Til þess að gera fýlinn að mat þurfti að sjálfsögðu að reyta hann. Það var seinlegt verk. En eftir að fólk komst upp á að bregða honum yfir logandi prímus, þá var það mun fljótlegra. Auk þess þótti fuglinn þá betri til matar, þegar hann var sviðinn eftir reytingu. Alltaf var hann annars eftirsóttur og þótti ágætur.


Moðsuða.


Á fyrri stríðsárunum (1914—1918) ríkti hér mjög mikill eldiviðarskortur. Allt var þá reynt, sem hægt var, til þess að spara kol og annað eldsneyti.
Á þessum árum var almennt tekin upp moðsuða hér í Eyjum. Ekki voru Ofanbyggjarar eftirbátar í þeim efnum. — Moðsuðan var þannig, að smíðaður var ferkantaður kassi 60—70 sm á brún. Í hann var sett tróð af heyi og strigi strengdur að til þess að halda því í skefjum. Í miðjum kassa myndaðist þannig hola fyrir pottinn, sem látinn var falla í holuna eða hún gerð eftir stærð hans. Hæð kassans var 40—50 sm, og trélok yfir honum stoppað að neðanverðu. Það féll ofan á pottlokið. Þessi kassi var svo jafnframt notaður sem sæti, ef svo bar undir.
Þessir moðsuðukassar þóttu mesta hagræði, og eldiviðarsparnaður mikill að þeim. Sérstaklega þótti hagkvæmt að sjóða vetrarfýlinn í þeim, því að hann þurfti mikla suðu. Þá var fýlapotturinn settur yfir eld á kvöldin og suðan látin koma upp. Síðan var hann með sjóðandi vatninu settur í moðsuðukassann og látinn vera þar til morguns, eða þar til morgunverður var etinn kl. 10, sem á danska vísu var nefndur „frú kostur“ í daglegu tali.