Blik 1960/Útvörður Suðurstrandar
Vestmannaeyjar heita þær, klettaeyjarnar sæbröttu, sem gnæfa hátt úr hyldýpishafi skammt undan sendinni Suðurströndinni. Þær vekja eftirtekt og eru augnayndi vegfarenda alla leiðina milli Reynisfjalls og Hellisheiðar. Þær eru ómetanlegt leiðarmerki og öryggisstöð allra sjófarenda milli Vestur-Horns og Reykjaness. Oft hafa þær orðið þrautalending og lífhöfn fiskimanna á þessum slóðum.
Eyjarnar eru traustar og óbifanlegur útvörður suðurstrandar Íslands, óbreytanlegar hvort sem er logn og ládeyða eða úthafsaldan æst af vetrarstormum lemur þær þungum hnefum.
Vestmannaeyjar koma mjög við sögu atvinnu- og samgöngumála Suðurlands, einkum Rangárvalla- og Skaftafellssýslna.
Strax á fyrstu blöðum sögu vorrar er Vestmannaeyja getið. Þangað héldu vegendur Hjörleifs Hróðmarssonar eftir víg hans og félaga hans við Hjörleifshöfða. Þeir voru herteknir í heimalandi sínu. Sennilega hafa þeir verið þar frjálsir menn og e.t.v. stórættaðir. Eðlilega svall þeim móður í brjósti og undu illa ófrelsi og þrældómi. Þeir neyttu þess færis að hefna sín, sem þeim og tókst, þó að það að sönnu væri gert á miður drengilegan hátt, eins og kunnugt er. En áttu þeir annars úrkosta?
Á skipsbátnum komust þeir til eyjanna úti fyrir Suðurströndinni með konur hinna vegnu. Þar töldu þeir sig örugga fyrir öllum árásum. En illa hefur verið á verði staðið, og skamma stund varð hönd höggi fegin. — Ingólfur og menn hans komu að þeim óvörum, og urðu þar skjót leikslok.
Af þessum írsku mönnum hlutu eyjarnar nafnið Vestmannaeyjar, af því að þeir voru Vestmenn, eins og Norðmenn kölluðu íbúa Írlands og Skotlands þá að virðist.
Snemma á öldum er getið um Vestmannaeyjar sem fengsæla veiðistöð. Þangað fóru menn víðsvegar að til útróðra. Og þangað fóru Landmenn með skip sín og háseta og héldu þeim út þaðan á vissum tímum árs, því að oft er brim við sanda, þó að gott sé sjóveður og lendingarskilyrði góð við Eyjar.
Til Vestmannaeyja fóru menn víðsvegar að til fiskkaupa á vorin, jafnvel af Norðurlandi. Jón prófastur Steingrímsson segir í ævisögu sinni frá því, er hann fór til fiskkaupa suður á land og alla leið til Vestmannaeyja, en þá átti hann heima norðan lands.
Löngum var erfitt um aðdrætti alla úr Rangárvalla- og Skaftafellssýslum. Stórvötn og margskonar aðrar torfærur yfir að fara til verzlunarstaðar. Eyrarbakki var um langan aldur eini verzlunarstaðurinn á Suðurlandi austan fjalls. Þess vegna munu menn allsnemma af þessu landssvæði hafa farið að verzla við Eyjakaupmenn að einhverju leyti, sækja þangað á eigin skipum ýmsar kaupstaðavörur. Um leið færðu Landmenn Eyjabúum ýmislegt, er þeim kom vel að fá. Allvíða er að finna frásagnir um þessar ferðir, sem stundum tóku langan tíma. Þær voru erfiðar og vossamar einatt. Stundum áttu sér stað í þeim hörmuleg slys og tilfinnanlegt manntjón. Má þar t.d. nefna, þegar Eyjafjallaskipið „Björgólfur“ fórst við Yztaklett 1901 og 27 menn og konur drukknuðu.
Það er auðskilið, að kjark og fullkomna aðgæzlu þurfti með til að leggja í sjóferð á opnu skipi án allra tækja, sem nútíminn krefst, alla leið austan úr Mýrdal til Vestmannaeyja, taka þar fullfermi af allskonar vörum og sigla svo eða róa alla þessa leið til baka. Oftast heppnaðist þetta þó vel, en ekki alltaf.
Og svo dregur að því, að smáverzlun fer að myndast í Vík í Mýrdal. Vörurnar voru fluttar þangað frá Vestmannaeyjum. Fyrst á opnum skipum, en svo komu stærri skip til sögunnar, eimskip, og verzlun í Vík kemst í fastar skorður, sem breytir mjög til batnaðar afkomu manna í Vestur-Skaftafellssýslu og austur hluta Rangárvallasýslu. En alltaf voru þó Vestmannaeyjar einhverskonar öryggi þessum sunnlenzku milliferða- og verzlunarskipum.
Svo kemur að því að samvinnufélagsskapurinn hefur fest rætur hér sunnanlands. Þá mynda Vestur-Skaftfellingar og Öræfingar með sér samtök og stofna hlutafélagið Skaftfelling og ráðast um leið í það stórvirki að láta smíða stórt vélskip, sem hlaut nafn hlutafélagsins. Það er vélskipið Skaftfellingur. Hann átti að annast vöruflutninga milli hinna svo kölluðu Suðurlandshafna. Það gerði hann í mörg ár og heppnaðist vel. Enda fylgdi þar hugur og hönd allra góðu málefni og göfugri hugsjón.
Vélskipið Skaftfellingur var alltaf mannað úrvals skipshöfn. Hann varð líftaug og lyftistöng margskonar framkvæmda Vestur-Skaftfellinga og Öræfinga að mjög verulegu leyti um árabil. En Vestmannaeyjar komu þar einnig mjög við sögu. Þótt Reykjavík væri heimahöfn bátsins og útgerðarstjórinn þar búsettur, var Vestmannaeyjahöfn löngum dvalarstaður skipsins. Þar lá Skaftfellingur oft dögum saman og beið byrjar, beið þess, að sjó lægði og út- eða uppskipun væri kleif austur við Víkurfjörur eða annars staðar með söndunum. Án Vestmannaeyjahafnar og sambandsins milli Eyja og Víkur og síðar Kirkjubæjarklausturs hefði þessi ómetanlega samgöngubót hafnlausu héraðanna ekki getað átt sér stað.
Þegar svo loks vegir og brýr gerðu landleiðina örugga austur í Skaftafellssýslu, komu vélknúnir vagnar til sögunnar og tóku að sér hlutverk vélskipsins.
Skaftfellingur er enn til og á nú heima í Vestmannaeyjum. Hann hefur alla tíð verið happafleyta, traust og gott skip, sem margt hefur reynt og í ratað. Það væri bæði gagn og gaman að því, að saga hans væri skráð af þar til hæfum
manni.