Blik 1960/Úteyjaför

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1960




Þáttur spaugs og spés
Ritstjórn annast nokkrir „tígulkóngar“ í Eyjum


ÚTEYJAFÖR
Rabbað við Geirmund Gudduson
(Gamalt handrit)


Á öndverðum dögum Árni Valda og á ofanverðum dögum Jóns bónda í Gvendarhúsi bjó maður í Eyjum, er Geirmundur hét Gudduson. Því var hann við móður sína kenndur, að enginn fannst faðirinn nokkru sinni.
Geirmundur þótti harðlyndur nokkuð og ekki alltaf við alþýðuskap. Mun uppeldið hafa átt sinn þátt í því. Sökum þessa eiginleika í skaplyndi hans kölluðu Eyjaskeggjar hann gallharð.

Geirmundur gallharður austur við Kumbalda.

Geirmundur gallharður var á sinni tíð þekktur maður á sína vísu í hreppsfélaginu, skynugur vel, fróður um margt og kunni því frá mörgu að segja.
Bústað Geirmundar gallharðs kölluðu gárungar Eyjanna Bobba.
Einhverju sinni bjó ég mig undir það að heimsækja Geirmund gallharð og rölti þess vegna austur í Bobba. Ég herti upp hugann, svo að þar skyldu mætast stálin stinn, ef svo bæri undir, að illa stæði í bælið hans. Allt féll þó í ljúfa löð með okkur. — Gallharður skar tóbak í gríð og ergi og bölvaði sáran keppinaut sínum, Jóni sladda. Hann hafði „slegið honum við“ þarna vestur í skúrunum, sagði hann, selt skorna neftóbakið óhæfilega lágu verði og dregið þannig frá honum viðskiptavini.
Í þennan tíð voru Eyjaskeggjar svo fornir í háttum, að því nær hver karl og hver kona bar sitt viðurnefni í sveitarfélaginu og þau ófögur sum.
Þegar við Geirmundur tókum tal saman um liðna tíma, fór heldur betur að glaðna yfir gamla manninum og skapið að mýkjast. Skrafhreyfnin fór vaxandi. Vissulega hafði Geirmundur frá mörgu að segja, og liðugt krítaði hann á milli, þegar hann var kominn í essið sitt.

Þóroddur sprengur.


Fyrst ræddum við um kunningjana, fólkið, háa og lága, og viðurnefnin, sem svo margir báru. Geirmundur ræddi um hálfnafna sinn Munda pæ, og frænda sinn Kobba í Görn, og vin sinn Lárus í Láginni. Þá kvaðst hann vel hafa þekkt Þórodd spreng og Lása lúrifax, Frikku með fíkjublaðið og Möngu í meydómi, Erlend auga og Gumma, sem dó, Óla nadda og Ingimund stála, svo að nokkrir af þessum kynlegu kvistum og máttarstoðum sveitarfélagsins séu nefndir.

Lási lúrífax.

Gallharður sagði suma þessa menn hafa verið beztu vini sína, meðan þeir voru lífs. Og Manga og Frikka, sagði hann, að verið hefðu lagsmeyjar sínar svona á víxl flest öll duggarabandsárin. „Það máttu þó engum segja, fyrr en ég er dauður,“ sagði Gallharður og spýtti mórauðu í áttina að kolafötunni sinni.
Síðan sagði hann mér af eftirminnilegri úteyjaför, sem hann auðsjáanlega hafði mikið yndi af að segja frá.


Frásögn Gallharðs var á þessa leið:
„Einhverju inni afréðum við, þessi „leiksystkini“, að efna til úteyjarfarar. Ferðinni var heitið út í Elliðaey. Þetta var á lundatímanum, og hann hafði verið vel við að undanförnu. Var því kátt þar á kvöldum hjá körlum, svo að orð fór af.

Gummi, sem dó.

Við leigðum okkur lítinn þilfarsbát, sem gárungarnir kölluðu Stromboli, VE-2, ef ég man rétt, eða þá 22, mér er sem sé farið að förlast minni. Bezti félagi og vinur minn, Þóroddur sprengur, var formaður á bátnum. En Villi rokkur var „rokkmeistari“. Þá voru bátavélarnar helzt aldrei kallaðar annað en rokkar eða spólurokkar svona til áherzlu. Það nafn var í samræmi við aðrar nafngiftir Eyjaskeggja og hina hnyttinyrtu menningu þeirra, sem þeir státuðu þá af.
Með okkur Spreng slógust í förina þeir félagar okkar Lási lúrifax og Gummi, sem dó, Mundi stáli og Erlendur auga. Einnig voru þær með í förinni, lagsmeyjar mínar, Manga í meydómi og Frikka með fíkjublaðið.“
Þegar hér var komið sögu Gallharðs, fannst mér ég mega til með að forvitnast nokkuð um ástæðurnar fyrir viðurnefnum þessum eða uppnefnum. Nokkur deili vissi Gallharður á þeim öllum eða flestum.
Þóroddur sprengur hafði elt stygga rollu austur á Haugum. Þar hljóp hún fyrir björg „í einum spreng“, hafði hann sagt. Þetta dugði honum.
Lási lúrifax hafði verið seinn að vakna og lúrinn, þegar hann réri með Árna bónda Diðrikssyni á Gideon. Þar af fékk hann viðurnefni sitt.
Gummi, sem dó, hafði dáið skyndilega í þjónustu Bakkusar.
Mundi pæ bjó í Háagarði. Hann átti hjall sunnan við Batavíu, sem áður hét Brandshús. Hann klappaði kvarnir og saumaði leir, sem brotnað hafði.
„Ójá, það er allt pæjójá“, var orðatiltæki hans. Það dugði honum til nafngiftarinnar. Mundi pæ hét annars Ögmundur og bjó með Línu bústýru, sem líka var kölluð pæ. Þau sváfu saman.
Þá langaði mig til að vita upprunann að viðurnefnum þeirra Möngu og Frikku. Geirmundur taldi sig vita ástæðurnar fyrir þeim út í æsar.
Á yngri árum hafði Frikka verið hreinræktuð hispursmey, sem þó þurfti að leggja leið sína út í úteyjar m.a. til þess að rýja fé föður síns með öðru starfsliði hans, en faðir hennar var einn af jarðabændum í Eyjum.
Þá fannst Frikku sér ósamboðið að stíga fæti inn fyrir þröskuldinn á bólstaðnum þeirra veiðimannanna og þiggja þar nokkurn beina. Strákarnir höfðu bæði skömm og gaman af þessu hispri hennar, glettust við hana og slógu henni gullhamra. Hún sló þá til hnakka, fussaði og sagði, að af þeim öllum væri „viðurstyggileg karlmannalykt“, eins og hún orðaði það. Þá var það, að Erlendur auga hafði orð á því, að Frikka gengi með óvenjulega stórt og þykkt fíkjublað. Fyrir þessa fullyrðingu fékk hann vel úti látið kjaftshögg hjá Frikku svo að small í. Erlendur gekk lengi með glóðarauga á eftir og fékk viðurnefnið af því, og Frikka var um tíma kennd við fíkjublaðið.
„Fáir vissu betur en ég, hversu fíkjublaðið hennar ...“ Hann var drjúgur með sig, þessi gallharði piparhlunkur, þegar hann fór að segja mér af kvennamálum sínum frá duggarabandsárunum, hvernig hann gat vafið þeim um fingur sér og gert þær bálskotnar í sér, já, alveg veikar, sagði hann. Þannig verður óskhyggjan stundum að lýsandi stjörnum veruleikans í hugum okkar, þegar aldurinn færist yfir, hugsaði ég, en sagði það auðvitað ekki.
En Manga þá, hvernig skapaðist henni viðurnefnið? Þá hló Geirmundur gallharður drýgindahlátri og kvaðst sjálfur bezt hafa vitað, með hve miklum sanni hún hefði borið það viðurnefni. Fannst mér þá nóg um drýgindi hans í kvennamálunum og óskaði að fá framhald úteyjarsögunnar:
„Með því nú að Oddsstaðamenn og Kirkjubæjarbændur höfðu fengið pata af fyrirhugaðri Elliðaeyjarför okkar, beiddust þeir þess, að við færðum þeim örlitla björg í bú svo sem til vikudvalar í eynni. Var okkur það kært. Við örkuðum því inn í verzlun Gísla J. Johnsens konsúls og kaupmanns og festum þar kaup á dálitlu matarkroppi handa þeim, samkvæmt matarpöntun, sem þeir höfðu sent í land, veiðifélagarnir í Elliðaey, sem voru 8 að tölu.
Þetta var svo matarúttektin samkvæmt óskum þeirra:
100 pund af saltfiski, 60 pund af kringlum (um 600 kringlur), 10 glös af hoppmannsdropum, (til þess auðvitað að taka hrollinn úr lundasálunum, hugsaði ég, en sagði það þó auðvitað ekki), 28 glös af vanilladropum (stærri tegundina) (í jólakökurnar auðvitað!), hálfan poka af hveiti, 7 pund rúsínur, 5 pund af sagógrjónum, 30 pund af dönskum pylsum og 5 punda stauk af sinnepi. Síðan sóttum við heim á bæina 4 krof af heimareyktu hangikjöti.
Allt þetta smáræði matarkyns bárum við ofan í Strombólí. Síðan ræsti Villi nafna sinn, við ýttum frá bryggju og báturinn brunaði út Leiðina.
Veður var hið fegursta, spegilsléttur sjór, blæjalogn og birta yfir öllu, svo að stirndi og gljáði fagurlega á veiðimannaranninn í Elliðaey, sem Pétur hafði nýlega tjargað, ,,svo að birti yfir“. Um kvöldið var glatt á hjalla í glaumbæ þeim, því að grogg höfðum við nóg frá landakonsúlnum við Vesturveg.
Þegar leið á kvöldið, tók Óskar til að yrkja dróttkvæðar vísur og bundnar mjög, djúpar að efni og dýrar að háttum. Við sungum þær við raust, þó að efni þeirra væri okkur sem latína. Undir lágnættið höfðu jólakökurnar drukkið í sig alla vanilladropana. Og einhvernveginn höfðu tapparnir farið úr hoppmannsdropaglösunum, svo að gufað hafði upp úr þeim flestum.
Áttu sér nú stað ýmiskonar fyrirbrigði á eynni. Tóti fjallagarpur flutti ræðu fyrir minni okkar gestanna. Síðan lét hann okkur hrópa fjórum sinnum fjórfalt húrra fyrir snilli allra bjargveiðimanna, hugrekki þeirra og þrautseigju.
Þegar hér var komið sögu, fannst mér eyjan fara að rugga, bönnuð boran, svo að ekki var annað líklegra, en hún mundi kasta okkur af sér. Þá hrópaði Lúrifax: „Lýs, lýs, lundalýs.“ Hann taldi sig sjá lundalýs upp um alla veggi kofans. Þóroddur sprengur fullyrti, að hann sæi þær líka og stærri dýr með í bland, svo sem rottur og mýs og „fugla ljóta“. Það ályktuðum við, að hefðu verið leðurblökur. Nú var verulega glatt á hjalla í Elliðaey, þrátt fyrir lýs og pöddur og annan ljótan fénað.
— Þegar þessi gleðskapur stóð sem hæst, kom Lási lúrifax á fjórum fótum inn úr dyrunum. Hann bölvaði óskaplega. Hafði hann rekið tærnar í gat á gólfþófanum og dottið þar með. „Hafðu þá vit á, að snúa þófanum við,“ sagði Pétur. Lúrifax lét ekki segja sér það tvisvar. Hann fram fyrir þröskuldinn til að snúa þófanum við, svo að fleiri rækju ekki tærnar í gatið á honum og dyttu um hann. En fari það bölvað, sagði hann. Þófinn var þá líka götóttur hinu megin. Allt var það eins. Þá var hlegið, svo að hvein í kofanum og sköllin heyrðust heim á bæina, enda hafði gleymskufuglinn gleymt því gjörsamlega að loka fyrir alla tækni þess tíma.

Með aldrinum fannst Frikku að „karlmannalyktin“ færi batnandi.

Svo tók ég þá til að gæla ofurlítið við hana Frikku vinkonu, sem nú hafði, — þegar hér var komið ævinni, — þróast upp úr öllu hispri og hengt fíkjublöðin sín á eyrnasneplana. Hinir skiptu svo Möngu á milli sín, eftir lagi og ástæðum, og fór þó allt siðlega fram, svo að hinn hátíðlegasti vandlætari hefði þar tæpast fundið nokkurn siðferðilegan agnúa til þess að hengja yfirskinshattinn sinn á.
Þegar stemningin náði hámarki í nýtjargaðri höllinni hans Péturs og þeirra félaga, tók Kiddi til að syngja gamlan húsgang eftir Sigurð Sigurfinnsson hreppstjóra til lofs og dýrðar okkur gestunum í Elliðaey. Sá húsgangur er svona:

Þóroddur sprengur og Erlendur auga,<br
afgamall sladdi og Gummi, sem dó,
fóstbræður svarnir í helmyrkurs auga,
hamramir gengu og spilltu þar ró.
Allir þeir voru í embætti saman,
allir við Bakkus þreyttu þeir fang.
Af honum báru þeir frægðir og frama,
flæmdust og þjáðust í síðasta gang.



Lífið og fjörið færist í allt
og fyllir vitin angan,
er úteyjaloftið létt og svalt
leikur um meyjavangann.



Allir tókum við undir og sungum við raust.
Einn var sá með fleirum, sem fór á mis við alla hlýju af stúlkunum. Það var hann Bjöggi æringi, kátur strákur og gamansamur. Þá tók hann skyrkirnu þeirra Oddsstaðamanna og faðmaði hana að sér og þóttist vera að leika viðskipti okkar Frikku. Reyndar gerði hann það. Þannig svalaði Bjöggi ástarþrá sinni.
Framhald næsta ár.



ctr


MYND ÞESSI ER TEKIN ÚTI Í ÁLSEY Í JÚLÍMÁNUÐI 1924.


Frá vinstri. Ólafur Jónsson, Háagarði, þá veiðimaður í eynni, Sigurður Jónsson frá Seljavöllum, Hásteinsveg 28, kv. Stefaníu Jóhannsd., Einar Björn Sigurðsson, Pétursborg, verzlunarm., kv. Ingv. Jónsdóttur, óþekktur, Lárus G. Árnason, Búastöðum, bifrstj., Halldór Gunnlaugsson, héraðslœknir, Kirkjuhvoli, Árni Árnason, Grund, símritari, kv. Katrínu Árnadóttur frá Ásgarði, Jón Waagfjörð málarameistari, kv. Kristínu Jónsdóttur frá Jómsborg, óþekktur, sér aðeins á vanga mannsins, Nikólína Jónsdóttir, kona Vilhjálms Jónssonar, rafstöðvarstjóra, Aðalheiður Sigurðardóttir, Brekkuhúsi, kona Árna Finnbogasonar, Hvammi, Helgi Guðmundsson, formaður í Dalbæ, kv. Þóru Ólafsdóttur þar, Þorbjörg Sigurhansdóttir, Brimnesi, ógift, Brimnesi, Tómas M. Guðjónsson, Miðhúsum, kv. Hjörtrósu Hannesd., síðar Sigr. Magnúsd., Höfn, Una Helgadóttir, Steinum, kona Ólafs Ísleifssonar, Miðgarði, Guðrún Helgadóttir, Steinum, ógift par, Jóna Kristinsdóttir, ljósmóðir, kona Hjálmars Eiríkssonar verzl.stj., Ragna Þorvarðardóttir, Borg, fyrri kona Arinbjörns Ólafssonar skrifst.m., Anna Eiríksdóttir, Vegamótum, systir Hjálmars Eiríkssonar, kona Guðna Jónssonar, Stefanía Jóhannsdóttir, Hásteinsvegi 28, kona Sigurðar Jónssonar, nr. 2 frá v., Hjálmar Eiríksson, Vegamótum, verzlstj., kv. Jónu Kristinsd., ljósmóður. — Á þessum tíma stunduðu fuglaveiðar í Álsey þeir Ólafur Jónsson, Haraldur Eiríksson og Gústaf Stefánsson. Heimildarmaður: Árni Árnason, símritari.


Tveir „innfæddir“ listamenn.


Hannes bóndi leit út um glugga á fjósi sínu, er hann var að gefa kúnum. Sér hann þá þekktan málafærslumann standa úti á túni með báðar hendur í buxnavösunum. Þá segir Hannes bóndi af hljóði við sjálfan sig: „Það er nýtt að sjá þennan málafærslumann með hendur í eigin vösum.“