Blik 1959/Um verzlunarhúsin á Tanganum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1959



ÁRNI ÁRNASON símritari:


Um verzlunarhúsin á Tanganum
(Juliushaab)


Verzlunarhúsin voru öll byggð úr timbri. Veggirnir voru með lóðréttum þiljum, líklega 8 þml. breiðum borðum með um það bil tveggja þml. millibili. Yfir bilið var svo lagt eitt borð af sömu stærð. Þannig var ytri klæðningin. Innan á grindinni var svo ein samfelld klæðning af borðum. Innri klæðning var í íbúðinni en ekki í vörugeymsluhúsunum, nema þar sem þurr fiskur var geymdur.

ctr

1. Aðalhúsið. Hér voru víntunnurnar, hart brauð og ýmsar þær vörur, sem teknar voru inn eftir hendinni. „F“ kassi fyrir fiður, sem keypt var í lausakaupum. „T“ kassi fyrir tólg.
2. Verzlunin.
3. Íbúð og skrifstofa verzlunarstjóra. Á loftinu voru 2 herbergi fyrir vinnuhjú, og voru 2 rúm og lokrekkja í öðru, en 2 rúm í hinu. Undir norðursúðinni var seinna búið til lítið herbergi fyrir börnin. Fyrir miðjum gafli efst í mæni var smá geymsluherbergi fyrir heimilið. Á austurhluta loftsins voru kornvörur geymdar og sitthvað fleira af verzlunarvörum. Innst uppi yfir þessu lofti var gólf og stóð þar taurulla, sem heimilið notaði. Það var kassi af grjóti, sem lá á þrem gildum sívalningum í traustri trégrind.
4. Hænsnakofi.
5. Náðhús.
6. Brauðgerðarhús. Veggir þess voru hlaðnir úr höggnu móbergi.
7. Hlaða. Hún var með grjótveggjum og torfþaki. Þar var geymt rekaviður, spýtnarusl, veiðarfæri, fýlatrossur, reiðingar, reipi, tros o.m.fl.
8. Fjósið. Það var með grjótveggi og torfþaki. Í vesturenda þess var geymdur eldiviður. (Fýll, lundi o.fl. var hinsvegar geymt í austurenda þess).
9. Nýjahúsið, sem svo var nefnt. Þar var geymd ull og hún þar troðin í pokana (ullarballana).
10. Salthúsið. Þar var saltgeymsla. Þar var einnig tekið á móti blautfiski og hann saltaður. Á loftinu voru kaðlar geymdir, mottur o.fl.
11. Norðurhúsið. Í austurenda þess var lýsi geymt á tunnum, en kol og tjara í þeim vestari. Á loftinu í austurendanum var eitt herbergi ætlað til íbúðar og var það stundum notað þannig. Hinn hluti loftsins var lengi notaður sem sjóbúð fyrir viðlegubáta frá meginlandinu.
12. Bræðsluhúsið. Þarna var lifrin brædd.
13. Þarna var gálgi fyrir metaskálar.
14. Þarna var skjólþil fyrir norðan áttinni, e.t.v. vegna metaskálanna.

Nánar um húsin.
Þökin á verzlunarhúsunum voru klædd á sama hátt og veggirnir nema salthúsið. Það var spónlagt.
Á suðurhlið aðalhússins voru 6 gluggar, 3 á íbúðinni, 2 á verzluninni og einn á geymslunni.
Á vesturgaflinum var eldhúsglugginn. Fyrir miðju á loftinu var einn fjögra rúðu gluggi, einn með tveim rúðum á suðurherbergi karla og einn fjögra rúðu gluggi á barnaherberginu. Hann var stærstur.
Einn gluggi var efst á stafninum. Í honum var ein rúða. Á norðurhliðinni var skrifstofuglugginn austan við skúrinn. Þar var og einn gluggi á búðinni.
Gluggarnir á neðri hæðinni voru með 6 rúðum.
Á austurgaflinum voru 2 hurðir. Á loftinu þar yfir var gildur biti og niður úr honum digur járnkrókur. Í hann var hengd blökk, þegar draga skyldi þungavöru upp á loftið.
Á vesturgaflinum voru rimar upp að miðglugga. Þær voru gerðar fyrir formennina til þess að þeir ættu hægara með að ná til sjómannanna að nóttu til, þ.e.a.s. kalla þá á sjóinn.

Á.Á.



Þakkir


Við, sem stöndum að útgáfu ársritsins,
þökkum hjartanlega öllum þeim, sem lagt
hafa og leggja sitt til útgáfu þess.
Við þökkum þeim, sem skrifað hafa í ritið
samkvœmt ósk okkar, veitt okkur fræðslu
um eitt og annað, sem við höfum hug á að geyma,
svo að ekki gleymist, og við þökkum þeim,
sem styrkja útgáfu þess með auglýsingum.
Án velvildar þeirra og góðs skilnings á gildi
útgáfustarfsins væri okkur um megn að gefa ritið út.
Stjórn málfundafélagsins.
Ritnefndin.
Skólastjóri.