Blik 1959/Að heiman í skóla með fyrstu bifreiðinni

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1959



INGIBJÖRG ÓLAFSDÓTTIR, Bólstaðarhlíð:


Að heiman í skóla
með fyrstu bifreiðinni



Haustið 1913 ferðaðist ég austan undan Eyjafjöllum vestur í Borgarfjörð.
Margt hefir breytzt hér á landi síðan sú för var farin, enda eru nú liðin 45 ár síðan, og eins og kunnugt er, þá hefir einhver viðburðaríkasti þáttur í sögu þjóðarinnar einmitt átt sér stað á þessu tímabili með ótrúlegum framförum á flestum sviðum. Það er beint framstökk frá því gamla til hins nýja.
Vel gæti ég trúað því, að unga fólkið nú á tímum, sem sækir skóla víðsvegar að á landinu og ferðast ýmist með bifreiðum eða flugvélum, eigi ekki gott með að skilja eða gera sér grein fyrir, hve erfitt var að ferðast um landið okkar fyrir svo sem hálfri öld. En við gamla fólkið munum tímana tvenna. Og þegar við hverfum, er liðin undir lok sú kynslóð, sem af eigin reynslu þekkti bæði gamla og nýja tímann. Þess vegna erum við tengiliðurinn milli þess, sem var, og þess sem er.
Mér dettur því í hug að rifja upp ferð, sem ég fór að heiman frá Eyvindarholti vestur í Borgarfjörð. Sú ferð er mér fyrir margra hluta sakir mjög minnisstæð. Það var sem sé haustið 1913.
Ég hafði árið áður verið nemandi Alþýðuskólans á Hvítárbakka. En eins og kunnugt er, hefir skólinn sá ekki starfað þar um langt árabil, heldur var hann fluttur að Reykholti. Þar hefir skólinn að ýmsu leyti breytzt og mótazt eftir kröfum tímans.
Þrem mánuðum eftir að fyrsta bifreiðin fluttist til landsins (Sjá mynd), fór hún nokkrar áætlunarferðir frá Stórólfshvoli til Reykjavíkur. Það var haustið 1913. Þetta þótti mikil samgöngubót á þeim tímum.
Laugardag síðari hluta septembermánaðar pantaði ég far með bifreiðinni til Reykjavíkur. Mér var létt í skapi, og bjartsýn var ég á ferðalagið. Ekki var samt veðurútlitið gott, þegar ég lagði af stað að heiman daginn áður; dökk óveðurský og talsvert far á lofti en þó sæmilegt veður þann dag. Hefði veðurfregnum verið útvarpað þá, hefði veðurspáin líklega hljóðað eitthvað á þessa leið: Austanátt og rigning; rok undan Eyjafjöllum. — En á þeim tímum bárust ekki veðurfregnir á öldum ljósvakans.
Bróðir minn fylgdi mér „út yfir vötnin“, eins og það var kallað í minni sveit, og að Hvoli. Þetta var raunar talsverð vatnaleið. Fyrst fórum við yfir Markarfljót, svo Ála og Affall og síðast yfir Þverá, sem var mesta vatnsfallið og valt fram ólgandi yfir sanda, eins og skáldið kveður.
Rignt hafði undanfarna daga og þess vegna talsverðir vatnavextir. En við höfðum trausta og góða hesta og bróðir minn vanur þessari leið, svo að okkur gekk vel ferðalagið.
Í þann tíð bjó Guðmundur læknir Guðfinnsson og kona hans, frú Margrét Lárusdóttir, á Hvoli. Hún var systir séra Jakobs Ó. Lárussonar og þeirra systkina, m.a. Ólafs Ó. Lárussonar héraðslæknis hér í Eyjum. Hvolsheimilið var mesta myndarheimili og gestrisni þar mikil. Þegar við komum þangað þessu sinni, var þar yfirfullt af næturgestum, svo að ég fékk þar ekki gistingu.
Bróðir minn hélt brátt heimleiðis, en mér var fylgt að nágrannabæ, og fékk ég þar ágæta gistingu.
Um hádegi daginn eftir var ég aftur komin heim að Hvoli. Bifreiðin, þetta nýja undrafarartæki, stóð á hlaðinu og var ferðbúin. Farþegar voru þrír; eldri kona frá Reykjavík, ung stúlka úr Hvolhreppnum og svo ég. Aldrei hafði ég séð bifreið áður og beið með eftirvæntingu að haldið yrði af stað.


Fyrsta bifreiðin (1913).


Veður var slæmt, stormur og rigning. Við komum okkur fyrir í bifreiðinni. Sætin voru þægileg og vel fór um okkur. Það var eins og við sætum í djúpum kassa. Skýlt var í bifreiðinni, og urðum við furðu lítið varar við storminn og regnið, þó að yfirbygging væri engin.
Og svo hófst ferðalagið. Bifreiðarstjórinn hét Jón Sigmundsson, Íslendingur búsettur í Ameríku. Hann hafði orð á sér fyrir að vera ágætur bifreiðarstjóri, öruggur og gætinn, eins og raun bar vitni um síðar á ferðalagi þessu.
Fyrst í stað gekk ferðin vel og hindranalaust, þar til við komum að Eystri-Rangá. Þá var engin brú á ánni, en lygn var hún jafnan og góð yfirferðar. Í þetta sinn var hún með meira móti.
Þegar að ánni kom, tókum við eftir því, að frúin úr Reykjavík tók að ókyrrast. „Þú ætlast þó víst ekki til þess, bifreiðarstjóri, að við sitjum í bifreiðinni yfir ána?“ sagði frúin með skjálfta í röddinni. „Getum við ekki fengið hesta?“
Jón bifreiðarstjóri var víst ýmsu vanur á ferðum sínum bæði hérlendis og vestan hafs og þar að auki rökvís. Fljótlega tókst honum að sannfæra frúna um, að ekkert væri að óttast.
Svo mjakaðist bifreiðin út í ána og komst klakklaust yfir hana, þó að „syði á keipum“.
Vegurinn var slæmur vegna úrkomunnar og umferð mikil í sláturtíðinni, sem nú var að hefjast. Og ferðamönnunum hinum varð starsýnt á nýja farartækið. Þá datt víst fáum í hug, að hér væri á ferð nýr landnemi, sem ætti eftir að verða lífæð sveitanna og létta hinni þungu byrði af bökum hestanna, sem örþreyttir og oft svangir fóru um vonda vegi og vegleysur, yfir vatnsmikil fljót og um gróðurlaust land með þungar klyfjar heim til sveitabóndans. En nú bjarmaði fyrir betri tímum, sem komu fyrr en varði.
Hestarnir í lestum sveitamannanna voru hálf smeykir við þetta nýja farartæki vaðandi fram með vélagný. Alltaf var verið að stanza, því að umferðin jókst að miklum mun, þegar út í Holtin kom. Ferðamenn, lestir, fjárhópar. Alltaf varð að reka féð út af veginum. Það tók sinn tíma í stormi og regni. En bifreiðarstjórinn var gætinn og þolinmóður, og ferðamennirnir sýndu alltaf lipurð og tilhliðrunarsemi og greiddu fyrir því, að bifreiðin kæmist leiðar sinnar.
Við keyptum okkur kaffi við Ölfusá. Það var hressandi eftir að hafa setið í bifreiðinni þessa löngu leið.
Enn var lagt af stað. En þegar ekið var framhjá Ingólfsfjalli, stanzaði vélin allt í einu. Þegar Jón hafði litið á vélina, sagði hann illt í efni. Talsverð bilun, og ekki víst, að hann gæti gert við hana þarna með þeim fábrotnu verkfærum, sem hann hefði meðferðis. Þá var erfitt að vera bifreiðarstjóri á þessum slóðum, ekkert bifreiðaverkstæði á allri leiðinni og þetta eina bifreiðin á öllu landinu. Jón bað okkur að stíga úr bifreiðinni, meðan viðgerð væri reynd. Þar sem við stóðum á veginum, fundum við bezt, hve veðrið var vont. Við reyndum að láta farartækið skýla okkur.
Eftir rúman klukkutíma kom Jón vélinni aftur á rás. Þá vorum við orðnar blautar og kaldar.
Áfram var haldið og lagt á fjallið. Ekki vildum við fá okkur kaffi á Hólnum (Kolviðarhól), því að nú var orðið svo áliðið dags.
Storminn lægði, er á daginn leið, en regnið óx og þoka var á Hellisheiði. Jón sagði okkur, að erfitt væri að greina veginn í svarta myrkrinu og úðaregni og yrði hann því að aka mjög gætilega. Auk þess var „vinnukonan“ eitthvað lasin og þess vegna hætt að strjúka regnið af framrúðunni.
Loks sáum við ljósin í höfuðstaðnum. Eftir að hafa horft á þau andartak, missti Jón bifreiðarstjóri sjónar á veginum. — Aðeins snöggt högg. Þannig fannst okkur það vera. Við kipptumst við, og bifreiðin stóð kyrr með framhjólin niðri í skurðinum við veginn, en afturhjólin á skurðbarminum. Eftir andartak höfðum við öll stigið út úr bifreiðinni. Þetta hefði getað orðið slæmt, ef bifreiðinni hefði hvolft. En Jón ók hægt og gætilega og við sluppum vel frá því.
Þarna var hópur ferðamanna nærstaddur, sem kom undir eins til hjálpar og dró bifreiðina upp úr skurðinum. Ferðamennirnir höfðu bönd eða reipi meðferðis. Þau voru fest í bifreiðina og vagnhestum beitt fyrir. Þetta gekk fljótt og vel. Eftir drykklanga stund vorum við aftur komin á stað.
Loks komum við til bæjarins. Voru þá 12 tímar liðnir frá því við fórum frá Stórólfshvoli. Jón Sigmundsson sagði okkur, að venjulega færi hann þessa leið á 9-10 klukkustundum. Þó hefði hann eitt sinn farið leiðina á rúmum átta tímum. Þá hafði þjóðvegurinn verið þurr og umferð lítil. Þessa ferð taldi hann þá erfiðustu, sem hann hefði farið austur fyrir fjall og kvaðst ekki vilja fara fleiri ferðir það haust.
Jón Sigmundsson fór síðar aftur vestur um haf, og er hann nú orðinn gamall og lasburða. Ég sá hann ekki eftir þetta, en minnist hans ávallt fyrir kjark hans, dugnað og gætni.
Ég dvaldist á heimili kunningjafólks foreldra minna þá daga, sem ég var í bænum, og beið eftir skipsferð upp í Borgarnes .
Einn dagurinn er mér minnisstæðastur. Þá fór Friðrik Friðriksson með drengjahóp sinn, Væringja, í skrúðgöngu um bæinn. Þeir voru klæddir mjög smekklegum búningi, bláum og hvítum. Var mér þá tjáð, að það væri mjög göfgandi fyrir drengina að njóta handleiðslu séra Friðriks.
Undir miðja vikuna gerði bezta veður, bjart og stillt. Þá kom til mín kunningjastúlka mín og bauð mér að sjá bæinn með sér. Við gengum um fjölförnustu göturnar og litum í búðargluggana. Svo nutum við hins fagra útsýnis af Skólavörðuholtinu. Jörðin hafði klæðzt hinum fölva hjúp haustsins. Allir litir voru svo mjúkir og tærir. Friður og tign síðsumarskvöldsins hvíldi yfir öllu og andaði unaði sínum umhverfis okkur.
Þetta minnti mig á haustkvöldin yndislegu heima í æskusveitinni minni. Síðan þetta var, hefi ég oft komið á þessar slóðir og notið hins fagra útsýnis af Skólavörðuholtinu, en aldrei orðið snortnari af sólsetrinu en þetta kyrrláta síðsumarskvöld, sem snart svo viðkvæma strengi í brjósti æskumannsins.
Daginn eftir var blíðskaparveður, og flóabáturinn Ingólfur átti að fara til Borgarness. Hann lá rétt hjá bryggjunni og vaggaði sér letilega á bárunum. Hann var orðinn á eftir áætlun. Farþegarnir voru fluttir um borð á árabát, og svo lagði Ingólfur af stað.
Farþegar voru margir, svo að þéttskipað var undir þiljum, þrengsli mikil og óloft. Margir farþeganna kusu heldur að hreiðra um sig uppi á þilfari.
Ingólfur var seinn í ferðum eins og venjulega, en skilaði okkur þó heilu og höldnu til Borgarness um kvöldið.
Um nóttina gisti ég í Borgarnesi. Daginn eftir slóst ég í för með skólafólki, sem ætlaði upp að Hvítárbakka. Ég þekkti flest af því frá vetrinum áður. Við fórum fótgangandi þessa leið, en það er 6 klukkustunda gangur. Flestum okkar mun hafa þótt þetta langt, en við vorum ung og í bezta skapi, og þá eru fótspor flestra létt á veginum, sem genginn er. Veðrið var gott, norðan kul og sólskin; loftið tært og svalt. Ég kannaðist við flesta staði þarna frá fyrra vetri. Héraðið þótti mér fagurt og búsældarlegt og bændabýlin reisuleg. Ég kannaðist því betur við landslagið sem ofar dró. Þarna voru Stafholtstungur, Hvítársíða, Reykholtsdalur, Andakíll.
Svo sveigðum við út af veginum niður að Hvítá. Á næsta holti við ána blasti hinsvegar við hvítt og reisulegt hús. Það stóð í námunda við árbakkann. Sólin skein svo björt og hlý á gluggana, svo að þeir glömpuðu. Hvítá rann breið og lygn milli grasigróinna bakka sinna.
Litlum árabáti var skotið á flot og við ferjuð yfir ána. Dreifðir smáhópar af skólafólki voru á gangi meðfram ánni og nutu veðurblíðunnar. Eftir stutta stund vorum við komin heim að Hvítárbakka. Ferðinni var lokið og ég loksins komin á ákvörðunarstaðinn tæpri viku eftir að ég lagði af stað að heiman. Hug og hönd var nú beitt að náminu í þessum góða skóla.

I.Ó.