Blik 1958/Jón í Gvendarhúsi
- Frá vinstri: Edvard Friðrikssen, Matthías smiður Finnbogason
- á Litlhólum og Jón bóndi Jónsson í Gvendarhúsi (Sjá Blik 1956).
- Steinsteyptu stólparnir að baki þeim voru steyptir undir bryggju
- Gísla J. Johnsen, Edinborgarbryggjuna. Fyrsta bryggja
- Gísla J. Johnsen var trébryggja á trébúkkum, komin 1893,
- síðan kom þessi steinstólpabryggja og síðast steinbryggjan,
- sem hvarf inn í Nausthamarsbryggjuna 1956.
- Frá vinstri: Edvard Friðrikssen, Matthías smiður Finnbogason
Hinn 5. júní 1866 var Jóni Jónssyni, áður vinnumanni í Gvendarhúsi, byggð jörðin Gvendarhús, er varð „feitug“ við dauða ekkjunnar Þuríðar Erasmusdóttur, stjúpmóður hans. Jörðin fóðraði þá 1 kú, 1 hest og hafði hagabeit handa 16 sauðum í Bjarnarey og 12 á Heimalandi. Jörðin hefur fuglatekju á báðum þessum stöðum, svo og í Smáeyjum og Súlnaskeri móts við sameigendur.
Hinn nýi bóndi í Gvendarhúsi erfði stjúpmóður sína að hálfu.
- ●
Eitt sinn fann Jón bóndi í Gvendarhúsi hrafnsunga. Hann tók litla krumma heim til sín, ól hann og tamdi. Krumminn sat oft á öxl bónda, er hann var á gangi. Oft kom Jón bóndi niður að höfn með hrafnsungann á öxlinni eða hattkúfnum. Ekki hirti bóndi um það, þó að drittaumarnir rynnu niður hattkollinn eða bak hans.
Einhverju sinni tjáði Jón bóndi vini sínum, að krummi væri tekinn upp á því að pikka goggnum í enni hans. Minnti þá vinur bónda hann á, að eðli hrafnsins væri að kroppa augu úr öðrum, eins og bóndi sjálfur hlyti að vita; eðlið segði til sín, og mundi krummi færa sig upp á skaftið smám saman og kroppa augun úr matföður sínum. Eftir það drap Jón bóndi hrafninn.
- ●
Það var löngum grunnt á því góða milli Þorsteins læknis og Jóns bónda í Gvendarhúsi. Sérstaklega mun þó Jón bóndi hafa átt sök á því.
Algeng var venja sú, að karlmenn hittust við Hrófin, stútuðu sig eða veittu skrotölu og ræddu með sér landsins gagn og nauðsynjar. Eitt sinn prýddu þarna hópinn tveir mektar borgarar í kauptúninu, þeir Þorsteinn Jónsson læknir og Jón bóndi í Gvendarhúsi.
Læknirinn sagði körlunum kímnisögur. Hann var ístrumagi mikill og hafði á sér orð fyrir góða matarlyst jafnan, svo að ekki sé meira sagt.
Þegar Þorsteinn læknir hafði lokið einni sögunni, segir Jón bóndi: „Geturðu ekki sagt okkur söguna af honum Þorsteini matgogg?“
Læknir skildi sneiðina og sneri á leið heim til sín; hann bjó í Landlyst.
Jón bóndi rölti á eftir lækni og nuddaði svo sem við sjálfan sig um matmenn og matgogga.
Þegar þeir komu heim undir læknishúsið, snýr Þorsteinn sér snöggt við og reiðir upp staf sinn gegn Jóni bónda, sem hopar og segir: „O, hó, er þetta sagan af Þorsteini matgogg?“