Blik 1958/Þáttur nemenda, síðari hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1958



ctr
(síðari hluti)


Ein á ferð

Það var dag einn í sumar, að ég ásamt fleirum var í ferðalagi inni á Þórsmörk. Við tjölduðum í Fagraskógi rétt hjá Mörkinni. Veður var mjög gott þessa daga, sem við dvöldumst þar, en það var mjög kalt á nóttinni. Þetta var berjaferð, svo að við fórum snemma á fætur um morguninn til þess að tína. Klukkan hefur verið rúmlega 8, þegar allir voru tilbúnir, og þá var lagt á stað inn eftir. Fyrst í stað hélt hópurinn saman, en svo dreifðist hann um allt. Svo vorum við bara orðnar 4 telpur eftir í hóp. Við tíndum dálítið, en annars var ekki mikið af berjum, þar sem við vorum.
Þegar klukkan var langt gengin þrjú, héldum við af stað til tjaldanna, uppgefnar, með dálítið af berjum.
Það hefur verið allt að því 20 mínútna gangur til tjaldanna.
Þegar við komum þangað, var enginn maður þar, svo að við fórum að finna okkur eitthvað í svanginn og laga til í tjaldinu og finna ílát undir berin. Við fórum að vaða í á, sem var rétt fyrir neðan tjaldbúðirnar, þangað til fólkið fór að koma með hátt í pokum af berjum. Þegar búið var að borða og ganga frá öllu því, sem þurfti, var farið að tala um að leika sér. Jú, jú, allir vildu það. Þá var ákveðið að fara í „Eitt par fram fyrir ekkjumann“. Þegar búið var að leika sér góða stund, heyrðum við, að einhver kallar: ,,Hæ, ertu með mikið af berjum?“ Enginn svarar. Þegar maðurinn kemur nær, sjáum við, að þetta er kona. Hún var dönsk. Hafði hún komið labbandi frá Stóru-Mörk á 3 1/2 tíma og vaðið allar ár. Fór fólkið að tala við hana. Sagðist hún vera að leita að sæluhúsinu inni á Þórsmörk. Þar sem svo var áliðið kvölds og orðið dimmt, var ekki hægt að láta konuna halda áfram inn eftir, því að hún þurfti að vaða svo straumharða á á leiðinni og svo var ekki víst, að hún myndi finna sæluhúsið í myrkri. Varð hún því um kyrrt hjá okkur, það sem eftir var kvöldsins. Hún fékk eitt tjaldið lánað. Það brá öllum mikið við að sjá konu á ferð eina svona seint um sumar inni í óbyggðum.
Það skal tekið fram, að þessi kona var stúdent, og var að kynna sér sögustaði Njálu.

Ragnheiður Björgvinsdóttir, III. bekk bóknáms.

Hin illa fylgja

Jón gamli sat inni í litla herberginu sínu. Hann var eitthvað þungur á brúnina þessa stundina, gamli maðurinn. Enginn vissi, hvað hann var að hugsa. Tóbaksjárnið gekk óvenju títt um tóbaksfjölina, milli þess sem hann sópaði saman tóbakinu með hálfkrepptri hendinni. Við og við leit hann í áttina til dyranna og það mátti sjá hálfgerða grettu á andlitinu. Allt í einu opnuðust dyrnar og þrír krakkar komu inn. Þau voru vön að koma til hans á kvöldin og láta hann segja sér sögur.
„Hvað nú?“ sagði Jón gamli, og leit til dyranna og brosti, en það líktist þó fremur grettu en brosi.
„Segðu okkur sögu,“ sögðu börnin einum rómi.
„Nú man ég enga,“ anzaði Jón.
„Jú, jú, þú hlýtur að kunna einhverja jólasögu. Jólin eru alveg að koma,“ sögðu börnin.
Jón gamli varð hugsi. Hann horfði ofan í tóbakið og skar og skar. Loksins leit hann upp.
„Setjizt þið þá þarna, greyin mín, og verið þið róleg. Ég finn kannske eitthvað handa ykkur,“ sagði hann og ræskti sig um leið. „Hafið þið heyrt söguna af honum Svarta-Pétri,“ sagði Jón gamli og leit á börnin.
„Nei, segðu okkur hana,“ sögðu börnin og störðu á Jón eins og hann væri einhver undramaður.
„Jæja þá, ég skal reyna,“ anzaði Jón. „Fyrir mörgum árum stóð hús hérna, þar sem þetta hús stendur, eða ef til vill einhversstaðar annarsstaðar, og í því bjó maður, sem hét Pétur. Hann átti konu og þrjú börn. Eitt þeirra var nýfætt, þegar sagan gerðist. Það fæddist sem sagt daginn fyrir aðfangadag jóla. Pétur var drykkjumaður. Það kom oft fyrir, að hann lá í ölæði í marga daga, en þess á milli vann hann og var talinn manna duglegastur, myndarlegur var hann í útliti, ekki var annað hægt að segja. En vegna þess, hve mikið hann drakk, var hann alltaf fátækur. Nú var það á aðfangadag jóla, að Pétur kom heim og var töluvert mikið drukkinn. Hann hafði farið niður í bæinn til að kaupa jólagjafir handa konunni og börnunum, en lent um leið hjá gömlum félögum sínum og drukkið nokkuð mikið. Nú var pabbi kominn heim og þótt hann væri ölvaður, þá vissu börnin, að hann var með eitthvað handa þeim. Jólatréð litla stóð tilbúið á borðinu, og það leið heldur ekki á löngu, að pabbi kæmi með kertapakka upp úr vasanum og setti kerti á tréð, en það mátti ekki kveikja á því, fyrr en klukkan væri orðin 6. Það vissu börnin ósköp vel, og eins vissu þau, að jólagjafirnar fengju þau ekki fyrr, því að mamma lá á sæng og þessvegna varð pabbi að hugsa um jólin fyrir börnin. Undir kvöldið fór Pétur út, en sagðist mundu koma fljótlega heim aftur. En kvöldið leið og hann kom ekki. Börnin fóru að hátta og sofa. Einhverntíma um nóttina, mun hann þó hafa komið heim, en þá voru allir háttaðir og sofnaðir. Samt varð konan eitthvað vör við hann. Enginn veit, hvað hann var lengi heima, því að hann fór aftur út. Um nóttina varð fólk í næsta húsi vart við, að eldur var kominn upp í húsi Péturs. Var þá kallað í brunaliðið, en það var um seinan. Þó var hægt að bjarga konunni og ungbarninu, en hin tvö börnin brunnu inni.
Daginn eftir vaknaði Pétur niðri í skúrgarmi, er hann hafði sofið í um nóttina. Hann flýtti sér heim, því að það fyrsta, sem hann fann í vasa sínum, var ein jólagjöfin, sem hann hafði keypt daginn áður. Nú ætlaði hann að gefa þeim gjafirnar, en það fór öðru vísi en hann bjóst við. Þar sem heimilið hans var daginn áður, voru nú aðeins brunarústir. Nágranni hans sagði honum, hvernig komið var, og nokkrum dögum seinna dó konan hans.
Lengi á eftir mátti sjá Pétur sitja á rústunum og horfa í gaupnir sér. Hann fór að verða eitthvað utan við sig, hætti að raka sig og hirða, varð skítugur og rifinn. Hann flakkaði um bæinn svartur af skít. Hann sparkaði í allar tómar flöskur, sem hann sá á götunni. Allir krakkar voru hræddir við hann. Þó var hann ekkert vondur. En hann mátti aldrei sjá loga á jólatré. Sumir halda, að það sé af því, að hann hafi kveikt á jólatrénu heima hjá sér nóttina, sem hann kom heim, en gleymt að slökkva á því, þegar hann fór út og svo hafi kviknað í út frá því. En hvað um það, eftir þetta var hann alltaf kallaður Svarti-Pétur.“
Jón gamli þagnaði og leit á börnin. Það blikuðu tár í augum gamla mannsins, er hann sagði:
„Jæja, börnin mín, þá er þessi saga búin, og þið getið sjálf ímyndað ykkur, hvernig Pétri hefur liðið, þegar hann kom heim á jóladaginn.“

Ester Andrésdóttir.



LÚÐRASVEIT GAGNFRÆÐASKÓLANS.
Hér birtir Blik mynd af fyrstu lúðrasveit Gagnfræðaskólans.
Standandi frá hœgri: Sigurður Tómasson, Sigurgeir Jónsson, Úlfar Njálsson og Atli Einarsson.
Sitjandi f.h.: Karl Ellert Karlsson, Pétur Andersen, Oddgeir Kristjánsson, kennari, stjórnandi sveitarinnar, Guðmundur Lárus Guðmundsson og Hjálmar Guðnason. Í fyrra var Rúnar Jónasson í sveitinni í stað Karls Ellerts.



Dagur á engjum

Þegar farið er á engjar, er lagt af stað, þegar búið er að mjólka og borða hafragrautinn. Klukkan er oftast orðin hálf tíu, þegar lagt er af stað. Farið er á dráttarvél með kerru í togi og þar situr fólkið í, en einn verður auðvitað að aka. Þegar á engjarnar er komið, fer fólkið að finna hrífur sínar eða heykvíslar, eftir því hvort á að snúa eða breiða úr heyinu. Oftast vann ég við að breiða úr heyinu með heykvísl framan af deginum, en snúa heyinu svo, ef með þurfti. Matur var færður á engjarnar um klukkan tólf og var þá hætt að vinna og heykvíslunum stungið niður eða hent á jörðina. Gaman fannst mér að borða á engjum, því að það var nýstárlegt fyrir mig, sem alltaf hef verið í kaupstað, bæði vetur og sumar. Á engjunum borðuðum við af blikkdiskum og oftast notuðum við bara hnífinn til þess að borða fiskinn með. Með fiskinum fengum við feiti, sem strákarnir kölluðu „fallbyssufeiti“. Þegar búið var að borða, hvíldi fólkið sig, — það, sem það vildi, og vildu það flestir, því að það getur verið erfitt að vinna á engjum. Oftast fór ég að þvo upp matarílátin eftir máltíðina, en það gerði ég í flóði skammt frá tjaldinu, sem við borðuðum í. Í flóðinu var mikið af hornsílum og brunnklukkum, sem mér var ekkert vel við í fyrstu, en hafði svo bara gaman af, þegar ég var farin að venjast engjalífinu, og þá tók ég oft hornsíli eða brunnklukku upp á disk og athugaði og sleppti svo, þegar ég var búin að fá nóg af því. Matartíminn var oftast um klukkustund, en þá var fólkið yfirleitt búið að hvíla sig. Var þá aftur tekið til við vinnuna og unnið þar til kaffið kom, en það kom yfirleitt klukkan hálf fjögur, og var kaffitíminn oft hálf klukkustund. Síðan var unnið af miklum krafti til klukkan hálf sjö, en þá var farið heim og dagur á engjunum liðinn.

Elín Óskarsdóttir, III. bekk bóknáms.

Dagur í Laugum

Ég vakna, teygi úr mér og lít á klukkuna. Hún er stundarfjórðung yfir 8. Sólin er komin upp fyrir stundu og hellir geislum sínum yfir landið, sem er að vakna af næturdvalanum. Hér og á þessari stundu gæti staka Sigurðar Breiðfjörðs átt vel við:

Dagsins runnu djásnin góð
dýr um hallir vinda.
Morgunsunnu blessað blóð
blæddi um fjalla tinda.

Þegar ég heyri, að ferðafélagarnir, en þeir eru 18 og allir úr Eyjum, eru farnir að busla og baða sig, skríð ég í skyndi upp úr svefnpokanum, fer í sundskýlu og fleygi mér því næst í lækinn. Þetta er morgunbaðið.
Eftir að hafa synt dálítið í læknum, sem er um eða yfir 30 stiga heitur, leggst ég með höfuðið upp við bakkann, og væri þá hægur vandi að sofna í þeim stellingum, ef maður gætti ekki að sér og væri á verði.
Því næst fer ég að virða fyrir mér umhverfið.
Hér í Landmannalaugum er dásamlegur staður, þótt inni í öræfum sé. Ekki er hér mikill gróður, aðeins víðáttulitlar grasflatir og fúamýrar, en hinn undursamlegi heiti lækur bætir gróðurleysið fyllilega upp. Einnig eru hér nokkrir pollar eða smátjarnir, sem í er allheitt brennisteinsvatn, sennilega 40—50 stiga heitt.
Það, sem kom mér mest á óvart í sambandi við þessa polla, var það, að ofan í þeim lá fólk í baði. Þarna lágu ístrubelgir miklir og þéttholda matrónur, og kváðust þau gera það í vissum tilgangi, sem ég hirði ekki um að greina frá hér.
Umhverfi Landmannalauga er þannig, að á aðra hönd er svart og geysiúfið hraun, enda er það talið eitt úfnasta hraun á landi hér og villugjarnt mjög, en á hinn bóginn eru víðáttu miklir aurar meðfram Tungnaá. Á víð og dreif eru snjóskaflar, og notar ferðafólk þá til þess að verja mjólk og önnur matvæli skemmdum.
Hér stendur sterklegur og reisulegur skáli, sem er eign Ferðafélags Íslands, og dvöldust nokkrir aðrir ferðalangar í honum um þetta sama leyti.
Eftir að hafa snætt hádegisverð, býst allur hópurinn til gönguferðar eitthvað upp í hraunið til þess að njóta útsýnisins. Sú för var sannarlega ekki farin erindisleysu, því að útsýnið var dásamlegt. Hekla gnæfði lengst í vestri há og tignarleg og skartaði að venju hvítum faldi. Hvert sem litið var, báru fjöllin í fjarska blámóðu himinsins.
Nú tók degi að halla, og er húma tók, safnaðist hópurinn í skálanum og tók tal saman. Var þá skrafað hátt og hlegið að mörgu, er fram var kastað.
Fast var liðið að miðnætti, er skálinn tæmdist, og hélt þá hver til síns heima, skreið ofan í svefnpokann sinn og sofnaði við léttan lækjarniðinn.

Guðni Alfreðsson, Landsprófsdeild.

Kristín og kisa

Kristín litla var með afbrigðum hræðslugjörn. Hún var myrkfælin og hrædd við flest dýr. Eitt af því sem hún hræddist mest, voru kettir, sem virtust alltaf flækjast fyrir henni. Það var eins og kettirnir fyndu á sér, að hún hræddist þá og þeir þyrftu þessvegna að erta hana svolítið með nærveru sinni.
Svo var það kvöld eitt í logni og glaða tunglskini, að pabbi hennar og mamma ætluðu að fá sér kvöldgöngu.
Mamma hennar tók til mjólk og bita, áður en hún fór, og bað Kristínu litlu að fá sér að drekka og gefa litla bróður líka. Svo áttu þau bæði að fara að hátta.
Þessu lofaði Kristín litla og allt gekk vel. Hún slökkti ljósið í eldhúsinu og fór inn í herbergið sitt, sem var á neðri hæð og bjóst til að fara að hátta. Hún byrjaði á því að loka glugganum, sem hafði verið opinn allan daginn. Svo var honum lokað á kvöldin, til þess að rotturnar kæmust ekki inn, því að glugginn nam hérumbil við jörðu.
Síðan dró litla stúlkan niður gluggatjöldin og hélt, að með því væri hún búin að loka allar hættur úti. En hún athugaði ekki, að með þessum varúðarráðstöfunum var hún búin að loka versta óvin sinn inni í herberginu hjá sér.
Þegar Kristín litla sárasaklaus settist á legubekkinn og ætlaði að fara að afklæða sig, skauzt svartur köttur undan legubekknum.
Og nú er spurningin, hvoru brá meira, Kristínu eða kettinum.
Kötturinn hljóp út í gluggann og ætlaði út, þar sem hann kom inn, en þar var allt lokað.
Kristín hljóp út og skellti hurðinni á eftir sér, en kattargreyið var lokað inni. Hann þaut um allt til að gá að útgöngudyrum, en allt kom fyrir ekki.
Kristín var að deyja úr hræðslu uppi hjá bróður sínum, sem var steinsofandi.
Eftir dálitla stund komu foreldrar hennar heim. Þeir spurðu Kristínu, hvers vegna hún væri ekki sofnuð.
Hún sagði þeim alla söguna.
Pabbi hennar fór inn í herbergið og hleypti kisu út, sem var fegin frelsinu.
En ekki þorði Kristín litla inn í herbergið fyrr en pabbi hennar var búinn að gá undir legubekkinn, hvort ekki væru fleiri kettir þar. Þegar svo var ekki, þorði hún fyrst inn í herbergið sitt.
Svo fór hún að hátta og sofa. En eitt er víst, að hún gáði alltaf eftir þetta undir legubekkinn til að vera viss um, að þar leyndist ekki köttur.

Birna Kristjánsdóttir, III. bekk verknáms.

Afmælisgjöfin

Ég man ennþá, þegar ég var í afmælisboðinu hjá leiksystur minni fyrir sjö árum. Það þótti nú gaman í þá daga að fara í afmælisveizlur. Mér hafði verið boðið klukkan þrjú. Ég man, að ég gerði allt til þess að „drepa“ tímann, mér fannst hann aldrei ætla að líða. Loksins kallaði mamma á mig og sagði, að ég skyldi þvo mér og hafa fataskipti. Þegar ég hafði þvegið mér vandlega og var komin í „fína“, gula kjólinn með rauðu bryddingunum, fannst mér ég líta út eins og prinsessa. Svo trítlaði ég af stað með afmælisgjöfina undir hendinni. Ég nam staðar fyrir utan hurðina og drap ofur laust á dyr. Afmælisbarnið kom til dyra og allur krakkahópurinn á eftir, eftirvæntingin skein út úr augunum á þeim. Hvað skyldi hún gefa henni?
Ég óskaði afmælisbarninu til hamingju með daginn og rétti henni gjöfina. Hún var fljót að slíta silkibandið utan af og komast að innihaldinu. Þegar ég leit framan í hana, gat ég lesið af andlitinu, eins og hún vildi segja: bara inniskór. Hún tók klaufalega í hendina á mér og sagði: „Ég þakka þér fyrir.“ Svo lagði hún inniskóna frá sér og fór að skoða Lísubók, sem hún hafði fengið frá einum leikbróður sínum. Hún var af leikkonunni Grace Kelly. Stelpurnar voru að dást að því, hve hún væri falleg. Ég stóð úti í horni eins og auli með grátstafinn í kverkunum af vonbrigðum og gat ekki tekið þátt í aðdáun þeirra. Ég, sem hélt, að henni myndi þykja þeir svo fallegir og mundi máta þá strax, og ef til vill vera í þeim. Loksins birtist mamma hennar í dyrunum og bauð okkur til að setjast inn. Við röðuðum okkur kringum borðið. Síðan hellti hún súkkulaði í bollana og bauð okkur að gera svo vel. Ég hafði svo að segja enga lyst, og mér fannst, að súkkulaðið og kökurnar væri ekki eins gott eins og mér hafði alltaf þótt það vera.
Þegar við höfðum lokið okkur af, áttum við að fara í leiki. Við vorum þá ekki á eitt sátt um það, í hvaða leik við skyldum fara, og varð þess vegna ekki úr neinu.
En allt á sitt upphaf, og allt sinn endi, og þetta boð líka.
Ég trítlaði af stað heim, en þó ekki eins létt í spori og þegar ég fór, því að ég hafði orðið fyrir sárum vonbrigðum.

Ingibjörg Bragadóttir, Gagnfræðadeild.

Huldukonan

Í gamla daga, þegar fólk trúði, að huldufólk væri í hverjum hól og hverjum steini, voru á bæ einum í sveit tvö systkini. Voru þau látin reka kýrnar á hverjum morgni upp á heiði, sem svo var kölluð. Voru þau oft smeyk að fara, því að uppi á heiðinni voru klettar tveir, sem þeim fannst líta út eins og karl og kerling, og hafði þeim verið sagt, að þetta væru Leppalúði og Grýla. Morgun einn sem oftar voru þau að reka kýrnar. Þegar þau voru komin upp á miðja heiðina, bregður þeim heldur en ekki í brún. Sjá þau konu bláklædda, sem hélt á blárri kaffikönnu, koma út úr gili einu. En það var sagt, að huldukonur væru alltaf bláklæddar.
Þegar konan kemur auga á þau, heyra þau hana kalla: „Hafið þið séð kýrnar mínar.“
Systkinin litu hvort á annað skjálfandi af hræðslu, því að þau héldu auðvitað, að þetta væri huldukona. Þau tóku til fótanna og hlupu allt hvað af tók. Drengurinn, sem var tveimur árum yngri, var alveg skelfingu lostinn af hræðslu. Hann var langt á eftir á hlaupunum og var alltaf að hnjóta um þúfur, og fannst huldukonan vera komin á hæla sér. Þegar þau loksins komust heim, hentust þau inn um bæjardyrnar og sögðu frá því, sem komið hafði fyrir.
Ekki var nú annað en hlegið að þeim heima. Rétt á eftir komu allar kýrnar aftur, því að systkinin höfðu ekki rekið þær alla leið, og þurfti vinnumaðurinn á bænum að fara með þær. Þegar hann kom aftur, sagði hann þeim, hver þessi huldukona hefði verið, sem þau voru svo hrædd við. Þetta var þá kona af næsta bæ, sem var að leita að kúnum sínum til morgunmjalta, jafnframt því sem hún var að færa morgunkaffi manni einum, sem hafði verið uppi á heiði um nóttina til að gæta að kúnum sínum, sem hann ætlaði að reka til Reykjavíkur, en það var títt í þá daga, því að ekki voru bílarnir þá. Og þótti konunni þetta mjög leiðinlegt, að börnin skyldu hafa orðið svona hrædd við hana.
Systkinin hlógu dátt að þessu og hétu því, að ekki skyldu þau verða oftar hrædd að reka kýrnar af ótta við að sjá huldukonu.

Elín Leósdóttir, III. bekk bóknáms.

Heimilisþáttur

Svo að ég á að skrifa ritgerð um heimilið.
Það, sem við köllum heimili í daglegu tali, finnst ef til vill sumum ekki mikið til koma, það er jú hús og fólk. En það er meira. Í þessu litla orði felst allt það, sem manni þykir vænst um: mamma, pabbi og systkini mín. Mamma er húsmóðirin, og það er ekkert smáræði, sem hún þarf að gera: elda mat, halda húsinu hreinu, þjóna okkur og hugsa um okkur öll að öðru leyti. Það er mikið starf, þar sem við erum 9 alls. Mér þykir vænzt um mömmu, og ég get sagt eins og skáldið: „Amma, hún er mamma hennar mömmu, og mamma er það bezta, sem ég á.“ Það sannar okkur bezt, hve góð hún er, þegar eitthvað amar að okkur, alltaf er hún tilbúin að hugga okkur eða telja í okkur kjark, þegar hann brestur.
Pabbi er húsbóndinn og fyrirvinna heimilisins. Hann vinnur utan þess.
Ég hef verið mikið að heiman, og þá finnur maður það bezt, hve gott er að vera heima.
Okkur systkinunum þykir vænt um hvort annað, en oft vill þó slettast upp á vinskapinn, t.d., þegar yngri systkini mín eru að rusla í skóladótinu mínu.
Einu sinni sem oftar var ég að gæta yngsta bróður míns og fór með hann upp á loft og inn í herbergið mitt og læsti hurðinni, svo að hann færi ekki fram á stigagatið og dytti ef til vill niður stigann. Svo hugsaði ég mér að nota tímann til að fara að lesa í Íslandssögunni minni — fyrir morgundaginn. Ég sökkti mér niður í lesturinn og gleymdi bæði mér og stráknum.
Ég rámkaði við mér, er ég fann þessa indælu lykt. Strákurinn var heldur betur búinn að laga til í herberginu mínu. Hann var búinn að henda öllum hárnálunum mínum um allt gólfið, hella niður úr fullu ilmvatnsglasi, og nú sat hann fyrir framan spegilinn með varalitinn minn og var að mála sig. Það var víst hreint listaverk. Hann var búinn að mála á sér tennurnar og munninn langt út á kinn, upp á nef og upp um allt enni. Svo ætla ég að sleppa skyrtunni að framan. Það hefði að öllum líkindum allt saman fengið fyrstu verðlaun á abstraktsýningu.
Ég skellihló að drengnum. Annað gat ég ekki. Hann virtist svo hrifinn af sér, þar sem hann skoðaði sig vandlega í speglinum.
Þegar mamma kom heim, hafði ég þvegið honum og fært hann í hreina skyrtu. Ég lét mömmu eftir að þvo skyrtuna.

E., III. bekk verknáms.

Gibba

Á bænum, sem ég var á í sveit í sumar, var heimagangur. Það var hvít gimbur, og kölluðum við hana bara Gibbu. Fyrst eftir að við komum, var hún svo stygg, að við gátum aldrei náð henni, og hún vildi ekki sjá pelann sinn, þótt við værum að bjóða henni hann. En þegar leið á sumarið, var hún alveg hætt að vera með nokkra fýlu við okkur og þáði nú alltaf pelann hjá okkur.
Það kom oft fyrir, að hún elti mig út á engjar og var hún þá að rólast í flekkjunum eða slæða úr múgunum, þegar verið var að raka saman. En eitt sinn, þegar verið var að binda, þá kom upp galsi í henni og hún fór þá að stökkva á baggana og vorum við þá hrædd um, að baggarnir myndu losna úr böndunum, svo að hún var rekin heim.
Hún átti það líka til að koma inn í bæ, þegar hana var farið að lengja eftir pelanum. Einu sinni var hún handsömuð inni á miðju baðstofugólfi, og var þá búin að gera þarfir sínar, svo að hún þótti þar ekki góður gestur.
Morguninn, sem við fórum, bauð ég henni pelann, en hún kunni sýnilega ekki við mig í ferðafötunum, því að hún þefaði af mér þó sérstaklega af andliti og höndum. Hún hristi þá bara hausinn og labbaði í burtu.

Þórey Bergsdóttir, III. bekk bóknáms.

Þegar ég kvaddi vini mína í sveitinni

Ég var 10 ára, þegar þetta gerðist.
Ég vaknaði snemma þennan morgun, svo að ég missti ekki af mjólkurbílnum, því að ég átti að fara heim til Eyja. Skólinn átti að byrja eftir tvo daga. Ég hlakkaði ekkert til að fara heim, því að ég varð að skilja við svo góða kunningja, hundinn Lappa og hestinn Blesa. Lappi hafði elt mig hvert sem ég fór allt sumarið, og ég lék við hann eins og krakka. Á hverjum morgni, þegar honum var hleypt upp úr kjallaranum, fór hann beint að dyrunum, þar sem ég svaf, og gaf frá sér smá bofs til þess að vekja mig. Um leið og ég birtist í dyrunum, flaðraði hann upp um mig allan og sleikti hendur mínar. Eitt sinn varð ég að sofa úti í hlöðu, vegna þess að það komu svo margir gestir. Vaknaði ég þá um morguninn við það, að eitthvað rakt og mjúkt strauk vanga minn og var það Lappi, sem var að sleikja mig.
Ég rak og sótti kýrnar allt sumarið og fór þá alltaf á Blesa. Þegar ég var á baki honum, fannst mér ég vera fær í flestan sjó, því að ég treysti honum fullkomlega. En núna varð ég að skilja við þá, og það þótti mér verst.
Ég byrjaði á því þennan morgun að fara út í móann, þar sem Blesi var á beit, til þess að kveðja hann. Ég klóraði honum bak við eyrun og kyssti á snoppuna á honum, og hvíslaði kveðjuorðum í eyra hans. En hann strauk flipanum eftir vanga mér. Lappi var með mér, eins og venjulega, og hann vildi auðsjáanlega einnig sýna mér vináttu. Settist ég því niður og talaði við hann eins og ég hafði gert svo oft áður, og sleikti hann hendur mínar í sífellu. Það var auðséð, að hann skildi það, sem ég sagði við hann. Því næst héldum við heim á leið, og gengu þeir Blesi og Lappi við hlið mér. Skildi ég við Blesa við túnhliðið.
Þegar heim að bænum kom, skipti ég um föt og lét í tösku þau, sem ég fór úr. Því næst bar ég farangur minn út að brúsapalli. Ekki leið á löngu, þar til bifreiðin kom. Þá kvaddi ég allt heimilisfólkið og við ókum að Selfossi.
Um Stokkseyri fór ég til Eyja með v.b. Gísla Johnsen.

Guðjón Herjólfsson, Gagnfræðadeild.

Skemmtiferð nemenda

Ingólfur Hansen.

Það var kl. 6,40 e.h. laugardaginn 1. júní í fyrra, að flugvélin Gunnfaxi hóf sig á loft af flugvellinum hér í Vestmannaeyjum með 28 farþega innanborðs. Þetta voru allt nemendur 3. bekkjardeilda Gagnfræðaskólans hér auk eins kennara, Einars Hauks Eiríkssonar, sem var fararstjóri hópsins. — Veður var stillt og milt þennan dag, en þokumóða lá yfir jörðinni, svo að eigi sást til hennar úr gluggum flugvélarinnar, nema þar sem þokan var þynnst. Komið var til Reykjavíkur eftir 40 mínútna flug.
Í biðskýlinu á flugvellinum kynntumst við hinum væntanlega bifreiðarstjóra okkar, sem var ungur maður að nafni Halldór Helgason. Flestir okkar nemendanna munu hafa farið í kvikmyndahús um kvöldið eða skemmt sér á annan hátt.
Flestir okkar drengjanna sváfu í gagnfræðaskólahúsinu við Lindargötu næstu nótt, en hitt kynið mun hafa sofið hingað og þangað úti í bæ hjá skyldfólki eða kunningjum.
Kl. 10 næsta morgun mættum við öll hjá gagnfræðaskólabyggingunni og lögðum af stað í ferðalag vestur á Barðaströnd og skyldu margir sögustaðir skoðaðir á leiðinni.





Skemmtiferðabifreiðin.





Allir skemmtu sér vel í bifreiðinni við söng og gítarundirleik. Voru bæði söngvarar og gítarar orðnir hásir og ekki trútt um, að margra hljóma kenndi í gítarleiknum og söngnum. Þar voru sungin bæði nýjustu rock-lög jafnt sem gömul og góð þjóðlög.
Útsýnið var fagurt og margbreytilegt, og höfðu fæst af okkur séð það fyrr, er þarna bar fyrir augu. Við ókum fram hjá Þyrli í Hvalfirði og námum staðar á hvalstöðinni. Þar sáum við tvo hvali. Annar var í flæðarmálinu. Þarna lyktaði mjög „af peningum“, og þótti okkur þefurinn ekki góður.
Næst var numið staðar á Ferstiklu, hinum merka stað, þar sem séra Hallgrímur Pétursson, hið mikla sálmaskáld okkar Íslendinga, andaðist. Á Akranesi var komið við og bærinn skoðaður lítilsháttar, en svo haldið í skyndi upp að Reykholti, bæ Snorra Sturlusonar. Vildu þá sumir taka upp hátt Snorra og fá sér bað í Snorralaug og feta þannig í fótspor þessa merka höfðingja Sturlungaaldarinnar og rithöfundar. Í Reykholti tókum við margar myndir af styttunni af Snorra, þessari ágætu gjöf frænda okkar Norðmanna. Einnig skoðuðum við kirkjuna þar rækilega. Um kvöldið ókum við til Borgarness, þar sem Gunnar Hlíðar hafði útvegað okkur gistingu. Við sváfum í barnaskólahúsinu. Þar gistu þá líka sömu nótt nemendur frá Selfossi, og kynntumst við þeim dálítið. Sökum þess að lagfæringar fóru fram á skólahúsinu, urðum við að láta okkur nægja að sofa í búningsklefum og baðherbergi skólans. Féll það í hlut sumra stúlknanna að sofa í baðherberginu. Af ótta við það, að drengjunum yrði sú freisting um megn að skrúfa frá krönunum, höfðu telpurnar lágt um sig, þegar þær höfðu gengið til náða, og er það þó talið sjaldgæft í slíkum ferðalögum.
Næsta dag mestallan var ekið viðstöðulítið vestur — vestur. Aðeins var numið staðar andartak á einstaka stað, svo sem í Brautarholti, Búðardal, á Hríshóli, hjá Brekku í Gilsfirði og á Bæ í Króksfirði. Setzt var að í Bjarkarlundi á Barðaströnd. Þar gistum við um nóttina. Um kvöldið skruppu nokkrir okkar að Reykhólum, því að þar er sundlaug. Þar busluðu sumir af okkur um kvöldið. Sumum okkar hitnaði heldur betur þarna í lauginni og urðu ,,grænir“. Varð einhverjum að orði, að „grænkunni“ hefði slegið út á þeim þarna á Reykhólum. Sumum gekk seint og erfiðlega að sofna um kvöldið, af hvaða ástæðum, sem það nú var.
Morguninn eftir var haldið heim á leið og var ferðinni heitið til Reykjavíkur um kvöldið.
Á leiðinni komum við að Skarði á Skarðsströnd, hinum merka sögustað; og tók Kristinn bóndi þar mjög vel á móti okkur. Hann sýndi okkur ýmislegt markvert á staðnum svo sem kirkjuna og hina frægu altaristöflu, sem send var á heimssýninguna í Frakklandi árið 1900. Taflan er talin gjörð á 16. öld. Kristinn bóndi benti okkur á, hvar smjörskemmur Ólafar ríku hefðu staðið. Sér þar enn fyrir rústunum. — Já, ekki var þeim í „gamla daga“ vandur maturinn, smjörinu safnað í skemmur, og fékkst enginn um, þótt farið væri að farða, er á veturinn leið.
Næst var numið staðar í Bakskógi á Fellsströnd. Þar í sólskininu voru teknar margar myndir m.a. af Ester Andrésdóttur, þar sem hún lék sinn heitt elskaða Prestley með gítarinn. Sáum við þá fyrsta sinni stiginn rock-dans úti í íslenzkri náttúru. Þarna fundum við líka þrastarhreiður í skóginum o.fl.
Við héldum síðan til Borgarness og snæddum þar kvöldverð, saltkjöt með góðri súpu. Þar gerðum við jafnframt merka uppgötvun. Að máltíð lokinni vorum við sannfærð um, að tvennt mundi botnlaust á Íslandi: Kerið í Grímsnesi og maginn á Hjalla, svo óskaplega hafði hann í sig látið af kjötinu og súpunni.
Við komum til Reykjavíkur kl. hálf tólf um nóttina og sváfum aftur í gagnfræðaskólahúsinu við Lindargötu.
Daginn eftir ókum við til Þingvalla og skoðuðum markverðustu staðina þar, svo sem Almannagjá, Lögberg, Öxarárfoss, Drekkingarhyl o.fl. Svo skruppum við að Sogsfossum og skoðuðum virkjunina undir jörðu og á og litum svo niður í Kerið í Grímsnesi. Daginn eftir skoðuðum við ýmis söfn í höfuðstaðnum
Þetta dásamlega ferðalag endaði með því, að við fórum öll í Þjóðleikhúsið um kvöldið og sáum óperettuna „Sumar í Týrol“. — Hver nemandi var nú frjáls og gat farið heim til Eyja, er hann lysti, en farmiða fengum við á vegum skólans. Hver nemandi lagði fram kr. 200.00 úr eigin vasa. Annan ferðakostnað greiddi ferðasjóður nemenda. Mér er tjáð, að ferðalag þetta hafi kostað rúmar 18.000.00 krónur.

Ingólfur Hansen.


Til baka