Blik 1956/Þáttur nemenda, fyrri hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1956



ctr


Blessuð sértu sveitin mín

Ég ætla að lýsa hér í fáum orðum heimkynnum mínum, það er að segja Önundarfirði og Flateyri. Öllum finnst æskuheimkynni sín fegurst allra staða, líklega vegna þess hve margar minningar eru tengdar þeim, æskuminningar, sem aldrei gleymast. Mér finnst fjörðurinn minn alltaf jafn falllegur, t.d. að vorinu, er snjóinn tekur að leysa úr fjallahlíðunum og af láglendinu, árnar eru straummiklar og háværar, og hver lækjarspræna flæðir út yfir bakka sína niður á jafnsléttunni. Allir eru í vorskapi og fagna komandi sumri, þegar blessuð sólin skín og speglast í glampandi sjávarfletinum. Allir reyna að njóta góða veðursins, ungir sem gamlir.
Enginn trúir því, nema sá sem sér, hve sólarlagið þar getur verið dásamlegt. Hin hrikalegu fjöll, er umlykja fjörðinn, verða svo fjarlæg, litur þeirra er blár eða bleikur. Ég get alls ekki lýst því nóg og vel. Ég man, hve oft við krakkarnir stóðum og horfðum á sólina setjast yzt út við sjóndeildarhringinn. Við horfðum, þangað til hún var horfin, aðeins gullroðin skýin settu ævintýralegan svip á heildina. Ég man líka, hve oft við brutum heilann um, hvert hún færi. Snúningur jarðarinnar var ofar okkar skilningi. Að hausti, er grasið tekur að fölna og litir umhverfisins að dofna, er loftið einhvernveginn svo kalt. Það er kuldalegt að líta til fjallanna, sem eru orðin svo steingrá og hrikaleg. Nú brosa þau ekki eins og í sumar. Samt eru þau svo tilkomumikil og drottnandi.
Vetur konungur nálgast. Sumum finnst það skemmtileg tilbreyting að fá snjóinn. Ef til vill er fjörðurinn minn aldrei eins fallegur og á veturna, umvafinn hvítum snjó, og hvergi sér í dökkan díl nema á hæstu fjallatoppunum. Stundum er snjórinn svo mikill í byggð, að við göngum sums staðar ofan á garðaveggjunum. Snjókarlar og kerlingar standa víða vörð. Allt er svo hvítt og hreint. Krakkar leika sér á Goðahólnum, sem er um það bil 5 metra hár hóll, líklega leyfar gamals hofs frá heiðnum tímum.
Þar er allt svo friðsælt og rólegt „dásamlegasta þorpið á landinu,“ segi ég. Við allt er bundin einhver minning eða mynd frá skemmtilegum stundum, sem maður hefur átt. Margs er að minnast. Steinrunnin fjöllin, sem líkjast voldugum vegg, er um lykur þetta litla byggðarlag; spegilsléttur sjórinn eða smá gárur, er kyssa sandinn í flæðarmálinu; úfnar öldurnar og þungt brimhljóðið í óveðrinu; ánægjulegar stundir á öllum tíma ársins, vetur, sumar, vor og haust, allt er þetta svo skemmtilega líkt hvað öðru.

Jóhanna G. Kristjánsdóttir, Landsprófsdeild.

Svo fór um sjóferð þá

Það var kvöld eitt, að við lögðum af stað á m.b. „Gamm“, á handfæraveiðar. Veður var ekki mjög gott, austan kaldi, og frekar mikil undiralda, og báturinn lét því frekar illa, er við vorum komnir út fyrir garða. Þegar við vorum komnir á móts við Bjarnarey á leið austur, stanzaði vélin með miklum látum. Er farið var að rannsaka, hvað valdið hafði bæði stöðvuninni á vélinni og látunum, komust karlarnir að því, að komizt hafði sjór inn á hæðarboxið. Var þá farið að tappa olíunni af „boxinu“, og var ég látinn standa uppi á þilfari, taka á móti fötunni og skvetta úr henni út fyrir borðstokkinn. Það gekk allsæmilega að skvetta úr þrem fyrstu fötunum miðað við það, hvernig aðstæður voru, því að veltingurinn var mjög mikill.
En þegar átti að fara að skvetta úr þeirri fjórðu, þá gránaði gamanið heldur en ekki, því að þá kom stærðar alda undir bátinn og slengdi honum á hliðina, en þá af einhverjum bjánaskap þurfti ég líka að slengjast á hliðina, og fatan með þessum líka ilmandi og hressandi vökva „göslaðist“ yfir höfuðið á mér, og ekki gekk það neitt greiðlega að losa þetta fötuskrifli af hausnum. Þarna lá ég út við borðstokkinn og ríghélt mér, og bjóst við öllu hinu versta.
Eigi skal ég hér lýsa því, hvernig mér leið þarna með fullan „gúlann“ af hráolíu, því að það er ekki fyrir neinn, nema ef til vill H. Kiljan eða Hemmingway að lýsa því.
Þegar ég hafði hangið þarna út við borðstokkinn í u.þ.b. 15 mín. þá fór ég að geta gægzt yfir „stokkinn“, með naumindum þó, til lands, og aldrei hef ég óskað þess heitar, að vera kominn heim í hlýtt bólið heldur en þá, er ég lá þarna skjálfandi á beinunum.
Skyndilega tók ég eftir því, að bátur kom brunandi í áttina til okkar. Þegar þessi bátur, sem heitir „Jötunn“, var kominn í kallfæri, þá báðum við þá að draga okkur til hafnar. „Jú,jú“, svöruðu þeir, „komið bara með spotta, svo er það í lagi.“ Og þar með er sagan að mestu leyti búin, því að þeir drógu okkur inn og því næst bundum við „dallinn“ við bryggju.

Daníel J. Kjartansson, 3. bekk.

Á grasafjalli

Það er gaman að vera í sveit á sumrin, þegar gott er veður. Fuglarnir sitja í trjánum og syngja, og lömbin hoppa til og frá í kringum mæður sínar. Svo þegar túnin eru orðin fullsprottin, flykkjast allir út með orf og ljá og hrífur og taka til að slá og raka. Á einum slíkum sumarmorgni fórum við margir krakkar inn í dal til þess að tína fjallagrös. Við lögðum af stað klukkan hálf níu. Við fórum í bifreið inn að Stöð, en svo heitir innsti bærinn í dalnum. Þegar þangað kom, stukku allir af bifreiðinni og dreifðu sér um móana. Svo voru teknar myndir. Að því loknu var haldið á brattann.
Stór á rennur rétt fyrir innan Stöð. Upp með henni gengum við þar til við komum upp undir hlíðar Hellafjalls. Þá var haldið inn dalinn, þangað til við komum upp að Einbúa eftir svo sem tveggja klukkustunda gang. Þangað var ferðinni heitið. — Einbúi er stór klettur svona um það bil 8 mannhæða hár, klofinn sundur í miðju. Þar rennur lækur í gegnum klettinn.
Við krakkarnir fórum nú að skoða okkur um. Allt í einu hrópar ein telpan: „Krakkar, komið fljótt að sjá svolítið, sem ég fann!“ Öll komum við þjótandi til að sjá. Það var þá tófugren. Við horfðum inn í það og sáum þar mikið af beinum.
Nú var kominn vígahugur í okkur krakkana. Við lituðumst um til að vita, hvort við fyndum eitthvað meira markvert, og það varð. Eftir dálitla stund fundum við hrúgu af beinagrindum og skinntætlur af lömbum, sem tófan hafði verið búin að bera út úr greninu, það gerir hún, þegar yrðlingarnir eru farnir að stálpast.
Nú vorum við farin að þreytast. Við settumst því niður og tókum að borða nestið okkar. Þegar því var lokið, tókum við aftur til að tína grösin. Mikið var um þau, og pokarnir því fljótir að fyllast.
Brátt kom bifreiðin að sækja okkur og við héldum heim. Á heimleiðinni sungum við hástöfum: „Sig bældi refur við bjarkarrót.“

Anna Albertsdóttir, 1. C.




Efri myndin: Hljómsveit Gagnfrœðaskólans.
Frá vinstri til hœgri: Gunnar Jónsson, Daníel Kjartansson, Gunnlaugur Axelsson, Birgir Sveinsson, Óskar Björgvinsson, Guðmundur Guðfinnsson og Guttormur Einarsson.





Neðri myndin: Gítarsöngkór Gagnfrœðaskólans.
Frá vinstri til hœgri: Bryndís Brynjólfsdóttir, Kolbrún S. Karlsdóttir, Halla Bergsteinsdóttir, Margrét K. Bergsdóttir, Sigrún Þorsteinsdóttir og Rósa Martinsdóttir, Elínborg Jónsdóttir spilar á gítarinn og stjórnar hópnum.




Mósa minnzt

Lýsing sú og eftirmælavísur, sem hér fara á eftir, eru um hest, sem frændi minn átti lengi og hafði miklar mætur á. Lýsingin og vísurnar eru eftir hann sjálfan.
„Ketill fóstri minn gaf mér hestfolald vorið 1925. Folald þetta var móálótt á lit og var nefnt Mósi. Þegar Mósi var orðinn fullþroskaður, var hann allra hesta mestur vexti og fríður mjög. Ég tamdi hann fjögurra vetra gamlan.
Mósi var hreinn klárhestur, sem kallað er, og afburða röskur hvort heldur var á stökki eða brokki. Hann fór svo mikinn á brokki, að ekki var það á færi nema allra fljótustu stökkhesta að fylgja honum.
Kraftar Mósa og þrek var ótrúlega mikið og engan hest hef ég þekkt með þvílíku afli og þoli. Viljinn var mikill, en þó brá sjaldan fyrir frekju. En mjög var hann óþolinmóður á áningarstöðum, þegar hann var á heimleið, og var hann þá gustmikill, er á stað var haldið.
Mósa reið ég oft fjallferðir. Oftast var ég þar í leitum, sem mest reyndi á mann og hest. Oft var þá hratt riðið, og margt volkið fékk Mósi í þeim ferðum. Engan þann hest þekki ég, sem fylgt gat Mósa á þeim ferðum frá morgni til kvölds, ef færð var erfið og hratt þurfti að ríða. En alltaf var hann eins að kvöldi sem að morgni, þegar af stað var lagt, og sá ég aldrei, að hann brigði sér neitt.
Síðustu árin, sem Mósi lifði, var hann notaður fyrir vagn. Svo virtist, sem honum stæði á sama, hvernig færð var eða hvort þungt eða létt var á vagninum, því að hann blés aldrei og gekk jafnhröðum skrefum svo sem laus væri. Svo var Mósi sver, að varla komst hann fyrir milli vagnkjálkanna.“

EFTIRMÆLAVÍSUR
UM MÓSA

1.

Sá, er fjallaferðir trað,
frár í svalli nauða,
er nú fallinn foldu að
fyrir kalli dauða.

2.

Hvassa glæddi hugur brún,
af hvörmum næddi þótti.
Hérna fæddist hann við tún,
hörðum gæddur þrótti.

3.

Orku beztur, aldrei sá
á þeim hesti lúinn.
Vaxtamestur var að sjá,
vel að flestu búinn.

4.

Hart um þeysti hauður vítt.
Hans ég treysti þori.
Háls var reistur, höfuð frítt,
hvataði geystu spori.

5.

Fætur teygði fljótt á brokk
fram og sveigðist kviður
Hálsinn reigði, hristi skrokk,
hryggur beygðist niður.

6.

Fór svo hraður fróns á veg,
fljóts um vað og grundu.
Oft úr hlaði hleypti ég
honum glaða stundu.

7.

Á Hvítárbökkum hreystiknár
hreyfði stökkum ungur.
Hugur klökkur harmar klár,
í hálsi er kökkur þungur.
Guðný Ragnarsdóttir, 3. bekk, skráði.




„Snúða- og pylsuráðherrarnir“ á ársfagnaði skólans 1. des.
Frá vinstri: Jóhannes Sævar og Grétar Þórarinsson.




Þegar ég fór í fyrsta
skipti eftir kúnum

Þegar ég var 9 ára, fór ég í fyrsta skiptið í sveit. Ég fór aðallega til þess að gæta að eins árs gömlu barni, og svo átti ég að reka og sækja kýrnar.
Hér ætla ég að segja frá því, þegar ég fór í fyrsta skiptið eftir kúnum. Það var annar dagurinn minn í sveitinni. Klukkan hálfsjö var mér sagt að fara að sækja kýrnar, en þar eð ég eygði þær ekki frá bænum, var fimm ára gamall snáði látinn fara með mér. Við héldum af stað. Í mér var kvíði, því að ég var hálfhrædd við kýrnar. — Óvön öllum skepnum.
Á leiðinni þurftum við að vaða yfir smálæk. Strákurinn varð að leiða mig yfir hann, því ég var svo hrædd að vaða. Ég hafði heldur aldrei vaðið yfir læk áður, og mér fundust þetta einhver ósköp.
Þegar við komum að girðingunni, þar sem kýrnar voru á beit, klifruðum við yfir hana og rákum kýrnar að hliðinu. En þegar opna átti hliðið, tók að grána gamanið, því að ég þorði alls ekki að fara í gegnum þvöguna til þess að opna það, en strákinn skorti krafta til að geta opnað, því að lyfta þurfti grindinni upp. Svo að ég varð að opna hliðið. Ekki var um annað að tala. Þá datt mér í hug, að ráð mundi að opna það utan frá. Síðan fór ég aftur yfir girðinguna, og mér tókst að opna.
Ég gleymi því aldrei, hvað ég var hrædd, þegar kýrnar ruddust út. Ég þaut langt burtu frá hliðinu, því að mér fannst þetta alveg voðalegt. Ég hélt nefnilega, að þær færu ekki af stað fyrr en slegið væri í þær. En strákurinn, sem með mér var, var svo hissa á þessum aðferðum hjá mér, þessari „skrítnu kaupstaðarstúlku“, eins og hann orðaði það, þegar ég kom heim, að hann gat ekkert sagt.
Síðan héldum við heim á leið. Ég gætti þess að koma ekki of nálægt kúnum. Þegar við fórum aftur yfir lækinn, gleymdi ég alveg allri hræðslu við hann, því að hræðslan við kýrnar var svo mikil.
Þegar heim kom, var að því fundið, hve lengi við hefðum verið að sækja kýrnar. —
Allt kvöldið var ég þögul og kvíðin. Ég kveið svo fyrir morgundeginum, því að þá þyrfti ég aftur að sækja kýrnar.

Theodóra Kristinsdóttir, 3. bekk.

Netta

Ég var alin upp í sveit. Þar kynntist ég flestum húsdýrum. Vitrust af þeim, held ég, hafi verið tík ein, sem pabbi átti. Hún hét Netta. Hún var bæði fjárhundur og sjóhundur. Mikið var gaman að henni, þegar hún var hvolpur. Það var um vor. Róið var hjá okkur heima og var síli í fiskinum. Þá óð hún út í sjóinn í lendingunni eftir sílum. Hún gróf holu í sandinn fyrir ofan flæðarmálið og bar sílin í hana. Þegar holan var full, rótaði hún yfir hana með löppunum, en ekki vissi ég, hvort hún át sílin seinna.
Þegar Netta var þriggja ára, átti hún 6 hvolpa. En vegna þess að nóg var af hundum á bænum, þá lógaði pabbi öllum hvolpunum, þegar þeir fóru að stálpast. Hún bar sig illa á eftir.
Næsta ár varð hún aftur hvolpafull. Þá fór hún að koma heim svört af mold. Eitt sinn vantaði hana í tvo daga, svo að hún sást ekki. Þá kom hún heim svöng og moldug. Var hún þá búin að gjóta. Þegar hún hafði étið fylli sína, fór hún aftur frá bænum. Pabbi elti hana langt frá húsinu að tóftarbroti, þar hafði hún grafið sér holu langt inn í moldarvegg, svo að ógjörningur var að ná til hvolpanna. Svo leið meira en vika, og alltaf var henni færður matur að holunni.
Þá gerði mikla rigningu nótt eina. Morguninn eftir var hún komin með alla hvolpana undir húströppurnar heima. Holan hennar reyndist full af vatni, þegar að var gáð.
Pabbi tók tvo hvolpana að gamni sínu og bar þá niður á stéttina. Netta var ekki lengi að sækja þá. Hún beit í hnakkann á þeim og bar þá þannig til hinna hvolpanna. Hún fékk að hafa tvo þeirra.
Það er gaman að vera í sveit.

Valgerður Sigurðardóttir, 1. B.

Í sveit

Ég var í sveit síðastliðið sumar hjá frænku minni.
Ég var eina barnið á heimilinu. Á bænum voru margar skepnur og þeirra á meðal margir yndislegir hestar. Þó var einn þeirra beztur. Hann var rauður að lit og hét Vængur. Nafn sitt hafði hann fengið af hvítum blettum, sem lágu frá bógnum aftur á lendar. Þeir voru svo jafnir, rétt eins og einhver hefði að gamni sínu, en þó af list, málað þessa skrautvængi á hann. Fleira hafði þessum hesti verið léð. Þegar stóðið var rekið heim í rétt, þá hneggjaði hann alltaf til mín. Ég brá við fljótt og náði í brauðbita. Hann var ekki alltaf stór, en aldrei bað Vængur nema einu sinni, hve lengi sem hann var heima við, og aldrei nema mig.
Þegar ég náði í hestana, sem átti sér oft stað, stóð hann kyrr og beið þar til, að ég komst á bak. Það var eins og hann hugsaði: „Ekki tjóir að biðja um brauðið, fyrr en heim kemur, en þá skal hún ekki sleppa.“
Vængur minn, ég vona að ég eigi eftir að sjá þig aftur og koma á mjúka, þægilega bakið þitt og gefa þér síðan stóran — stóran brauðbita.

Ingigerður Eymundsdóttir, 1. C.

Skólinn minn

Skólinn minn stendur á hæð fyrir sunnan Landakirkju. Ég kalla þetta skólann minn, af því að s.1. þrjú ár hefur líf mitt verið í nánum tengslum við þessa stofnun þarna suður á hæðinni.
Fyrst, er ég kom í skólann, var ég kvíðin og þó full eftirvæntingar. Ég hélt þéttingsfast um barnaprófsskírteinið mitt, er ég vildi sýna við niðurröðun í deildirnar. — Og hugurinn, — það var eins og ég væri í kapphlaupi. Ein hugmyndin skaut upp kollinum á fætur annari. Skyldu kennararnir t.d. vera eins strangir eins og alltaf var verið að segja manni? Voru bækurnar óskaplega erfiðar? Hvernig var svarti listinn? Hvernig skyldi þeim líða hér, sem áður höfðu skrópað dögum og vikum saman? Af slíku og þvílíku var hugurinn fullur, áður en skólasetningin hófst. — Og svo hófst hún. Ég sat við hliðina á skólasystur minni, og við hliðina á henni sat önnur, sem skældi. Hvað gat hryggt hana svona? Var það hræðsla við það, að skólasystir hennar og gamall sessunautur fengi nú ekki lengur að sitja hjá henni? Óttaðist hún kennarann? Ekkert skal ég um það segja.
Síðan hófst skólastarfið, skólagangan og lærdómurinn. Fyrst í stað reyndist þetta vera erfitt, af því að ég var óvön að vakna svona snemma. Allur agi var hér líka strangari en ég hafði vanizt áður. En þetta lagaðist allt, og fyrsti veturinn leið.
- Annað árið hófst. En nú stóð mér ekki ógn af því að byrja starfið. Ég hlakkaði til þess m.a. að hitta skólasystkini mín aftur. Margt var þá skrafað t.d. um unnin afrek frá liðnu sumri. Bezt af öllu fannst mér þó, að við vorum nú ekki kölluð pelabörn lengur. Nú höfðu aðrir tekið við þeirri nafnbót. Annað skólaárið leið með sínar gleði- og sorgarstundir til skiptis. Og nú er þriðja skólaárið hafið, og ég vona, að það byrji og endi eins vel og hin fyrri.

Aðalheiður Rósa Gunnarsdóttir, Landsprófsdeild.

Huldukonan í Básum

Eins og kunnugt er hafa Íslendingar alltaf frá upphafi Íslandsbyggðar trúað því, að huldufólk væri til. Sagan, sem ég ætla að segja hér, er huldufólkssaga, sem gerðist fyrir mörgum árum í Siglufirði. Mér var sögð hún, þegar ég var þar fyrir þrem árum.
Þessi atburður gerðist fyrir rúmlega 30 árum.
Dag einn í blíðskaparveðri lögðu fjórir menn af stað úr Siglufjarðarkaupstað til þess að sækja möl til byggingar í svo kallaða Bása, sem eru austanmegin fjarðarins. Þangað er á léttum árabát 20—30 mínútna róður.
Þeir lögðu af stað á litlum vélbát og höfðu stóran nótabát í togi. Á honum skyldi flytja mölina. Básarnir myndast við nokkurra metra háa kletta. En sléttir bakkar liggja upp frá þeim. Í fjörunni fyrir neðan er mölin tekin. Það er trú fólks í Siglufirði, að huldufólk búi í klettum þessum, og sé ró þess raskað, muni eitthvað illt henda þann, sem því hefur valdið.
Nokkrum sinnum áður hafði möl verið sótt þangað.
Nokkru eftir að þessir flutningar hófust, dreymdi einn manninn, að til hans kæmi kona og segði, að illa færi fyrir þeim, ef þeir hættu ekki malarsókninni í Básana. Maðurinn tjáði fólki draum sinn, og var honum ráðlagt að hætta að sækja mölina. Hann skeytti því engu. — Lendingin hjá þeim tókst vel og þeir fylltu bátinn af möl. Síðan var haldið heimleiðis. Þegar þeir voru komnir nokkurn spöl frá landi, skall snögglega á mikið óveður. Fyrr en varði var það orðið svo mikið, að mennirnir fengu ekki við neitt ráðið. Enginn þóttist muna annað eins veður. Loks sökk nótabáturinn, og dró hann vélbátinn með sér niður í djúpið. En í sama bili og bátarnir hurfu, lægði veðrið eins skyndilega og það hófst.
Aldrei fannst neitt, hvorki af mönnum né bátum.

Hrefna Jónsdóttir 2. b. B.

Strandaglópar

Það var sumardag einn fyrir nokkrum árum. Okkur nokkrar stelpur langaði til að fara undir Löngu. Við löbbuðum niður á bryggju með nesti og nýja skó, ef svo mætti segja, til þess að vita, hvort enginn bátur væri að flytja fólk yfir Botninn.
Þegar við komum á bryggjuna, vorum við svo heppnar, að tveir strákar voru að fara á árabát undir Löngu með fólk, og við fengum að fljóta með. — Ferðin gekk að óskum alla leið.
Við böðuðum okkur og lágum síðan í sólbaði í sandinum góða stund á eftir.
Þegar fór að líða á daginn, og við hugðum til heimferðar, sáum við, að báturinn lá við bryggju, og enginn lifandi maður sást nálægt honum. Við urðum nú hálfhræddar um, að við kæmumst ekki heim. Við vildum því reyna að klifra yfir steinana, sem liggja meðfram klettunum og inn að Eiði. Þegar við höfðum með erfiðismunum klöngrazt yfir nokkra steina, sáum við, að ógerningur mundi vera að komast þarna í land sökum dýpis, þegar steinunum sleppti. Við snerum því við, og nú vorum við orðnar alvarlega hræddar. Enginn hreyfing sást við bátinn hinumegin við Botninn. Við vissum ekkert, hvað við áttum til bragðs að taka. Við tókum að hrópa af öllum lífs- og sálarkröftum. En hvernig sem við hrópuðum, virtist enginn heyra til okkar. Hvað gátum við gert?
Við settumst á ráðstefnu í fjörunni, en okkur datt alls ekkert ráð í hug. Þá varð einni okkar litið til lands. Hún sá bátinn stefna í áttina til okkar. Við urðum fegnari en frá verði sagt og hlupum allar niður í flæðarmálið.
Nú komu strákarnir, og við vorum ekki seinar á okkur að hlaupa út í bátinn. En þá kom babb í bátinn. Strákarnir sögðust ætla að fá sér bað, áður en þeir færu með okkur heim að bryggju. Við urðum heldur en ekki fyrir vonbrigðum. Hvað áttum við nú til bragðs að taka? Við vorum orðnar bæði svangar og þreyttar og vildum umfram allt komast undir eins heim.
Allt í einu tók ein okkar upp á því að háskæla. Það þurfti ekki meira til. Strákarnir reru þegar með okkur yfir Botninn. Ferðin sú gekk að óskum. Mikið vorum við á eftir þakklátar henni leiksystur okkar, sem fann ráð til að sigra strákana. Hún var ekkert blávatn, stúlkan sú.

Hólmfríður Sigurðardóttir, Landsprófsdeild.

síðari hluti