Blik 1955/Gömul minni

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1955



Gömul minni



Hugsum okkur, að við félagarnir úr G.Í.V. frá árunum 1949—1951 værum saman safnaðir á einum stað. Hvað mundum við tala um? Jú, spaugileg atvik og léttar stundir.
Munið þið?
Hve oft var ekki hlaupið upp veginn til skólans á síðustu mínútu til þess að ná því að fá X en ekki S við nafnið sitt í nemendaskránni.
Á vorin biðum við oft með óþreyju eftir langþráðri göngu út í Stórhöfða. Svo einn daginn, þegar kennurunum fannst við heldur letileg ásýndum, var ákveðið að viðra skyldi flokkinn. Skólastjórinn gaf fyrirmæli um ½ klst. frí til þess að skipta um föt og skó. Heim var hlaupið í töluvert léttara skapi. Þegar búið var að skipta um föt, var komið við í verzlunum og keypt sér eitthvað hressandi í nesti. Hálftíminn var liðinn og ferðin skyldi hafin. Hópurinn flokkaðist niður og gamanyrðin fuku.
Leiðin út í Stórhöfða fannst okkur ekki löng að þessu sinni. Það var ákveðið að gerast útilegumenn og smugum við í fylgsni okkar: Höfðahelli. Þá urðu strákarnir að sýna karlmennsku sína og kanna „ókunnar slóðir“ fyrir ,,hið veika kyn“. Að sjálfsögðu heyrðum við ýmis undarleg hljóð og bergmál af draugasögum úr öllum áttum. Þegar komið var innst inn í hellinn, settumst við í kring um kertistýru og hlýddum á mergjaða draugasögu af vörum eins okkar snjöllustu kappa. Hugarangist skein úr hverju andliti og ekki var laust við, að sumir skylfu. Mörgum var því hughægra, þegar komið var fram í hellismunnann og á móti hljómuðu fjörugar raddir frá þeim söng- og sólelsku.
Nú var skriðið úr fylgsni og ráðizt með miklum bægslagangi til niðurgöngu úr Höfðanum. Skulum við nú leggja við hlustirnar og reyna að grípa á lofti ýmsar setningar frá hinum ýmsu flokkum.
A. og B. tala um síðasta landafræðipróf.
A. Mundir þú, hvað höfuðborgin í Englandi hét?
B. Já, já. Ég skrifaði auðvitað Grimsby. En hvað gazt þú skrifað um myndun Alpafjalla?
A. Ég skrifaði bara, að þau væru fellingafjöll og hefðu myndast í fellibyljum.
Nú breytist vindáttin og mannkynssagan þýtur fyrir eyrum okkar. Nemendurnir kappræða við kennarann um hina fögru Maríu Antoinette og við hlustum af mikilli hrifningu. Þá gellur rödd við: „Hún var hálshöggvin árið 1793 e.Kr.“, og við heyrum aðra rödd spyrja: „Er þetta rétt hjá honum, Einar?“, og kennarinn svarar: „Hárrétt“. Hinn sami spyr aftur: „Heyrðu, Einar, er vont að vera hálshöggvinn?“
Næst heyrum við erlendar tungur mæla. Sleep baby, sleep. Sleep baby, sleep, tunglið sefur, stjörnurnar sofa og stóri himinn sefur. Þá heyrist einhver kveða. „Hvaða skelfingar svefn er þetta?“
Nú drögumst við eilítið afturúr og mætum þar fyrir ættfræðingum tveim, sem fullyrða, að þeir séu komnir í beinan lærlegg af ættstofni Ata-Hula.
Í heilsufræði koma fram ýmsar kenningar um manninn og nú skulum við heyra, hvort þær muni standast vísindi nútímans.
Ein þeirra var sú, að barkinn væri framhald vélindans og næði niður í maga.
Nú herðum við gönguna aftur og náum tali af stofnendum „Þagnarbandalagsins“. Það hefur á sinni dagskrá:
Algert afnám allrar óþarfa mælsku í kennslustundum.
Við fáum þær upplýsingar, að félagarnir séu sektaðir um kr. 0.25 fyrir hvert óþarfa orð, séu lögin brotin. Gjaldkerinn trúir okkur fyrir því, að þetta sé orðið all velstætt fyrirtæki fjárhagslega.
Fengum við að njóta þessa rausnarlega félagsskapar síðar á skólaárinu eða þegar þeir á Bolludaginn héldu fyrirmyndar veizlu bekknum til heiðurs. Var þar almenn ánægja yfir stofnun svo merkra samtaka og mörg minni flutt. Þegar formanni fannst tími til kominn að hætta veizluhöldum, steig hann upp á stól, baðaði út höndunum og bað hljóðs. Lagði hann áherzlu á skyldurækni félagsmanna, enda sýndi hinn gildi sjóður, hve miklu mætti áorka. Þakkaði hann að lokum gott hljóð og var ákaft hylltur af veizlugestum.
Þökkum allar ánægjustundir í skólanum.

M. og M. mey-nemendur 1948—1951






VIÐURKENNING SKÓLANS. Um nokkurra ára skeið hefir Gagnfræðaskólinn viðurkennt fágaða framkomu nemenda sinna, ástundun, siðprýði og dyggð í trúnaðarstarfi í þágu skólastarfsins, með því að gefa þeim, sem til þess hafa unnið, viðurkenningarkort skólans, sem er prentað í mörgum litum og hið fallegasta. Það er 22.5x15 cm. að stærð. Á kortinu er tekið fram, fyrir hvað nemandinn hefir hlotið viðurkenninguna. Ógjarnan er það afhent fyrr en nemandinn hefir lokið námi að fullu i skólanum.