Blik 1955/Þáttur nemenda

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1955


ctr


Frá liðnu sumri

Snemma í sumar fór ég ásamt systur minni til Þýzkalands. Við hlökkuðum mikið til að fara, þótt við kynnum ekki stakt orð í þýzku.
Daginn áður en við fórum til Reykjavíkur, vorum við önnum kafnar við að pakka niður og undirbúa allt til fararinnar, og við vorum svo ákafar, að okkur fannst tíminn aldrei ætla að líða. En loksins rann þó upp 18. júní, brottfarardagurinn frá Eyjum.
Skipið, sem við fórum með, átti að leggja af stað 19. júní, en ferðinni var frestað í nokkra daga. Og þessvegna lögðum við ekki af stað fyrr en 22. júní. Fyrst sigldum við til Akureyrar og stönzuðum þar í einn dag, en lögðum síðan af stað til útlanda.
Eftir fjögurra daga siglingu komum við til Newcastle í Englandi.
Newcastle er stór kolaborg, þessvegna er allt saman svart af kolareyk.
Okkur kom margt einkennilega fyrir sjónir. Fólkið t.d. er öðruvísi hérna en heima, finnst okkur að minnsta kosti. Svo sáum við járnbrautir og ýmiss konar farartæki, sem við höfðum aldrei séð áður. Við dvöldum einn og hálfan dag í þessari stóru kolaborg, en héldum síðan áfram til Hamborgar.
Eftir eins og hálfs dags siglingu komum við til Hamborgar. Það var skemmtilegt að sigla upp ána Saxelfi, útsýnið fallegt, tré til beggja handa og veðrið dásamlegt.
Þegar við áttum eftir svo sem hálfs tíma siglingu til Hamborgar, voru þjóðsöngvarnir, sá íslenzki og sá þýzki, spilaðir.
Klukkan níu að morgni lögðumst við að bryggju í Hamborg. Veðrið var fallegt og við fullar eftirvæntingar og glaðar yfir að vera komnar til Þýzkalands. Um fimmleytið sama dag komu afi og amma og sóttu okkur.
Samt gátum við ekki lagt strax af stað til Bremerhaven, en þar dvöldumst við yfir sumarið. Fyrst þurftum við að fara á einhverja tollstofu. Þar var skoðað í töskurnar okkar. Síðan gátum við haldið áfram. Það var dásamlega gaman að aka eftir veginum frá Hamborg til Bremerhaven, og sjá alltaf við og við glytta í kvöldsólina inn á milli trjánna.
Þó að þarna væri dásamlega fallegt, stór tré, slétt tún og engi, vantaði samt mikið á náttúrufegurðina. Það voru engin fjöll, heldur endalaust sléttlendi eins langt og augað eygði.
Brátt hvarf sólin og rökkva tók. Þegar við vorum komin á áfangastaðinn um tíuleytið, var komið kolniðamyrkur.
Daginn eftir var gott veður og fórum við strax út til að skoða okkur um. Við fórum á hjólum, en auðvitað gátum við ekki farið einar til að byrja með, því að við kunnum engar umferðarreglur og rötuðum ekkert um bæinn.
Í fyrstunni gekk okkur mjög illa að skilja fólkið, og var það oft mjög óþægilegt, en samt í aðra röndina skemmtilegt. Þá gat maður talað sem maður vildi, án þess að nokkur skildi mann. Þegar við vorum farnar að rata svolítið, fórum við oft í verzlanir fyrir ömmu okkar, en urðum þá að fara með miða, sem á stóð, hvað við áttum að kaupa.
Þó við færum smátt og smátt að skilja svolítið í málinu, þurftum við samt alltaf að fara með miða í verzlanirnar, og oft olli það dálitlum misskilningi, hve illa okkur tókst að skilja heimilisfólkið. En samt gátum við vel bjargað okkur.
Svo liðu dagarnir hver öðrum líkir. Við hjóluðum, fórum í cirkus, dýragarð og Tívolí, svo fórum við einnig í ferðalag, og skemmtum okkur vel á alla lund.
Loksins leið að þeim degi, er við áttum að fara heim. Við fórum með skipi frá Hamborg, sigldum til Belgíu og Hollands, og stönzuðum 2 daga í hvoru landi. Okkur leizt betur á Holland en Belgíu.
Síðan var haldið til Hull. Þar úði og grúði af skipum frá öllum heimsálfum.
Í Hull var dvalizt í 2 daga, og síðan haldið út á Norðursjóinn, ólgandi og óhugnanlegan, en samt fann ég ekki til sjóveiki, fyrr en við komum út í Atlantshafið, enda var þar hræðilegt óveður. Við lágum mest allan tímann veikar.
Eftir fjögurra daga siglingu komum við til Vestmannaeyja, og þótti okkur ákaflega gott að vera aftur komnar heim til Eyja. Þó að mjög skemmtilegt væri í Þýzkalandi, er samt alltaf betra að vera heima hjá sér.
Skipið stanzaði fyrir Eiðinu, og kom lítill bátur og sótti okkur.

Edda Tegeder, Gagnfræðadeild.

Fiskiróður

Það var fagur júlímorgunn. Klukkan var fimm, þegar pabbi kom að vekja mig. Ég stökk upp í skyndi og klæddi mig. Fór síðan fram í eldhús til að drekka kaffisopann. Þegar því var lokið, var farið niður í skúr að beita lóðina.
Blíðskaparveður var þennan morgun, og leit út fyrir gott sjóveður.
Pabbi skar beituna, og vorum við þrír að beita, Herlúff, Baldvin og ég. Við beittum 30 strengi. Svo var haldið af stað. Þegar við vorum komnir út á Pallaklett, en það er mið norðaustur úr Digranesi við Vopnafjörð, var byrjað að leggja lóðina.
Við lögðum suður til að byrja með eina línu upp Bredduna og þaðan út, norður á Torfugrunn. Þegar búið var að leggja lóðina, fórum við á milli, eins og sjómenn segja vanalega, þegar byrjað er að draga frá sama enda og lagt er.
Þegar við vorum komnir norður aftur að Pallakletti, lágum við kyrrir hjá endabelgnum. Fallið var hið kjósanlegasta á honum, hægt suðurfall.
Því næst var bitakassinn fram tekinn, og allir settust að snæðingi. Þegar því var lokið, var hafinn undirbúningur að draga lóðina. —
Ég var beðinn að stýra og gæta vélarinnar. Herlúff þvoði stampana, Baldvin tók að dæla, og pabbi setti rúlluna á sinn stað. Svo var belgurinn tekinn og byrjað að draga. Pabbi dró og Baldvin var við rúlluna til þess að bera í fiskinn. Allt gekk eins og í sögu lengi vel. Ástæða var sæmileg á línunni, og Baldvin hafði nóg að gera, svo að þetta gekk allt slysalaust, þangað til búið var að draga töluvert af lóðinni. En þá fór að versna í því. Þá stóð steinbítur á hverjum krók, og þessir líka boltar! Þeir spöruðu ekki tennurnar, heldur bitu í allt, sem tönn á festi, enda fékk Baldvin að kenna á því. Þeir röðuðu sér á lappirnar á honum, svo að hann varð að hækka sig hærra og hærra. En þá ætlaði að fara verr fyrir honum. Hann stakkst á höfuðið útbyrðis. Ég hélt, að hann ætlaði að sýna okkur einhverja nýja köfunaraðferð! Honum tókst samt einhvernveginn að afstýra því í þetta sinn, sem var að mörgu leyti hagkvæmt honum, en við misstum af gamaninu fyrir vikið.
Svo man ég þá ekki fleira sögulegt í þessum róðri.
Við drógum það, sem eftir var lóðarinnar, og héldum í land.
Það er gaman að vera á sjó í góðu veðri. — Við brunuðum meðfram björgunum og fram með Róðrarstapa, sem stendur skammt frá landi.
Skarfarnir, sem sátu á stapanum, teygðu úr hálsinum og horfðu forvitnislega yfir til okkar, þar sem við brunuðum áfram knúðir 5 hestafla Skandíavél. Þegar við komum fyrir Svartanes, sem er nyrzti tanginn á Digranesi, þar sem vitinn stendur, bar sólina yfir Hágang. Við fórum framhjá Skálafjöru, Byrðingasundi og Byrþjófi yfir Steintúnsvíkina. Á henni er sker, sem heitir Serkur.
Á Steintúni var fólk að hamast í heyskap. Þvínæst fórum við framhjá Litlutá og Rauðubjörgum og lögðum svo upp í Sæluvík, þar sem við höfðum uppsátur.

Ingólfur Hansen, I. b. verknáms.

Á sjónum

Við erum staddir á Selvogsbankamiðum um borð í einum af Vestmannaeyjabátunum. Það er verið að draga línuna, og allt hefur gengið vel.
Menn eru glaðir, og spaugsyrðin fjúka.
Skipshöfnin er 5 menn.
Skipstjórinn, sem heitir Haukur, stendur í stýrishúsinu og andæfir. Einnig ber honum að reyna að ná með krókstjaka í fisk þann, sem hrekkur af línunni og flýtur aftur með bátnum.
Á öllum bátum hefur skipstjórinn gælunafnið „Kallinn“, jafnvel þótt hann sé yngsti maður á skipinu.
Vélstjórinn heitir Kjartan. Hann segir sig danskan í 3. ættlið. Þess vegna er hann oft kallaður Bauni. Hann stendur við rúlluna og ber í.
Stýrimaðurinn, sem heitir Friðrik, stendur við spilið og dregur.
Matsveinninn heitir Sigfús. Hann stendur í miðri fiskkösinni og blóðgar. Hinn óbreytti háseti heitir Gylfi. Hann dregur færið. — Hann er mjög hugsandi maður.
Hér hefir þá verið sögð deili á skipshöfninni í stórum dráttum.
Hérna kemur hluti af samtalinu:
Friðrik: Reyndu nú einu sinni að vera fljótur að bera í, Baunaslóði.
Kjartan: O, haltu þér saman, félagi sæll, hér gildir engin hroðvirkni. Hvað heldurðu, að Kristján (útgerðarmaðurinn) segi, ef allir önglarnir fara af línunni?
Friðrik: Það er víst ekki mikil hætta á því, að þú slítir þá, ekki sterkari en þú ert.
Kjartan: Ef þú hefðir 1/10 hluta af þeim kröftum, sem ég hefi, mættirðu vera þakklátur skaparanum.
Heyrið þið nú annars, strákar, sjáið þið kallinn, þarna er hann hálfsofandi og þarf ekkert að gera. Hann tekur ekki einu sinni fiskinn, sem ég missti.
Haukur: Mundu það, Bauni sæll, að hvísla lægra næst.
Sigfús: Ég held það væri hið mesta góðverk, sem ég gerði, að skera úr Baunanum raddböndin. Það er eins og hross sé að hneggja, þegar hann er að hlæja.
Kjartan: Og gættu bara að færinu. (Blautur vettlingur flýgur beint á nasir Sigfúsi).
Sigfús: Bölvaður smælinginn, ef þú finnur ekki salt í kaffinu þínu eða grænsápu í súpunni, þá er ég illa svikinn.
Kjartan: Hún hefur alltaf verið óæt hvort eð er.
Gylfi: Ég held nú, að þið ættuð að hugsa meira um þann gula en bölva og ragna.
Haukur: Þar fékkst orð upp úr prófessornum. Heyrðu, prófessor, hvernig eru annars afkvæmi stærstu flugu jarðar?
Gylfi: Líttu í spegil, og þá sérðu það.
Haukur: Já, en þá þyrfti að vera mynd af þér framan á honum. — Þarna fer einn!
Hann hleypur til og nær í stærðar þorsk, sem flýtur aftur með bátssíðunni. — Þarna sérðu bróður þinn, Sigfús! Hér hefur verið sagt frá broti úr samtali, sem er ekki ólíkt þeim, er eiga sér stað, þegar vel fiskast, en ekki nema þá.
Sjaldan er masið tekið alvarlega.

Ólafur Kristinsson, Landsprófsdeild.

Æskuminningar gamallar konu

Margt er breytt frá því, sem áður var. Og viðbúnaður barnanna betri nú en hjá ömmum okkar og öfum, er þau voru börn. En börnin nú á tímum kunna ekki að meta það, sem skyldi.
Ætla ég að segja söguna, sem gömul kona sagði mér, er ég bað hana að segja mér frá æskuárum sínum. En hún er svona:
„Ég var yngst 16 alsystkina og 4 hálfsystkina. Þegar ég var á tíunda ári, fengu bæði faðir minn og móðir lungnabólgu. Og vegna þess, að faðir minn var brjóstþungur fyrir, þoldi hann það ekki og dó. En móðir mín lifði. — Sökum þess, að við vorum svo mörg systkinin, gat móðir mín ekki séð fyrir okkur öllum og okkur var komið niður á bæjunum í Rangárvallasýslu. Ég var ginnt að heiman með því, að ég ætti að fá heila köku, en svo stóran bita hafði ég aldrei fengið í einu. Skammturinn var 1/4 úr köku. Aldrei varð nú úr, að ég fengi kökuna. Yngsti bróðir minn var sendur með mig. Þegar ég var orðin 11 ára, kom móðir mín sem oftar í heimsókn. Og þegar hún var að fara aftur, þorði ég ekki að biðja um leyfi til þess að fylgja henni, sökum þess, að húsbóndinn var mjög strangur. Ég hafði aldrei mátt fylgja henni svo langt sem fram í dyr. Þegar húsbóndinn kom inn aftur, eftir að móðir mín var farin, var hann mjög hörkulegur og þreif kverið ofan af hillu.
Mér datt í hug, að móðir mín hefði dottið í smá-vatn, sem þarna var, og brast ég í grát. En húsbóndinn misskildi mig og hélt, að ég væri að gráta, vegna þess að ég hefði svikizt um að læra það, sem ég átti að læra í kverinu. Og þessvegna hrinti hann mér til og gaf mér flengingu. Yngsti sonur bóndans, sem var staddur í baðstofunni, er þetta skeði, varð svo vondur af að sjá slíka meðferð á munaðarlausu barni, að hann talaði um að setja niður dót sitt og fara að heiman. Kvaðst hann ekki þola slíka fólmennsku.
Þegar ég var orðin 15 ára og fannst ég vera orðin manneskja til þess að sjá fyrir mér sjálf, fór ég af bænum og til bróður míns, sem búsettur var í Þykkvabænum. Einn dag sem oftar var ég úti á engjum við slátt. Ég og bróðir minn settumst niður um stund til hvíldar. Lagðist hann niður og sofnaði, en ég sat bara og hugsaði. Er hann vaknaði aftur og leit undan hattbarðinu og á mig, fannst honum ég vera eitthvað svo hugsandi og eins og ég væri að hlusta eftir einhverju. Spurði hann mig, eftir hverju ég væri að hlusta. Þá sagði ég honum, að mér heyrðist eins og verið væri að spila líksöngslag, og fyndist það koma úr áttinni frá æskusveit minni.
Frétti ég það svo nokkrum dögum síðar, að einmitt þennan dag hefði fóstra mín verið að deyja. Og mátti ég vel sakna hennar, því að hún hafði verið mér verulega góð.
Einu ári eftir þetta langaði mig mjög mikið aftur í sveitina mína. Komst ég þá í vist á bæ einum í sveitinni minni og hefur mér liðið vel síðan.“

Edda Aðalsteinsdóttir, Landsprófsdeild, skráði.


ctr

Nemendur Landsprófsdeildar
skólaárið 1954-1955

Röð pilta: Sigfús Johnsen, Friðrik Jónsson, Haukur Þorgilsson, Kjartan Bergsteinsson, Gylfi Sigurjónsson, Kristján Torfason, Ólafur Kristinsson.
Röð stúlkna: Edda Aðalsteinsdóttir, Þórunn Gunnarsdóttir, Bryndís Gunnarsdóttir, Kristín Georgsdóttir, Unnur Jónsdóttir, Valgerður Ragnarsdóttir.


Bekkurinn minn

Bekkurinn minn er fámennasti bekkur skólans, eða 14 nemendur. Þessir 14 nemendur ætla sér að reyna við landsprófið í vor. Það er vonandi, að það blessist. Landsprófsdeild kvað eiga að vera fyrirmyndarbekkur skólans, en mjög er vafasamt að svo sé.
Í fremstu víglínu situr Ólafur, hinn mikli stærðfræðingur. Ólafur er lágur vexti og grannur. Hann er mikið fyrir ærsl og ólæti, sem tíu ára væri. Bak við Ólaf sitja tveir merkir menn, Sigfús, sonur héraðslæknisins, og Kristján, sonur lögreglustjóra og bæjarfógeta Vestmannaeyja. Báðir eru þessir menn mátulega í holdum og góðir námsmenn. Þá koma þeir Haukur og Kjartan, öldungar og gluggastjórar, þ.e. þeir opna glugga stofunnar á morgnana, og eru þeir vel til þess starfs fallnir, þar eð báðir eru mjög skankalangir. Til vinstri handar Kjartani sitja þrjár fríðar og skrafhreyfnar yngismeyjar að nafni Kristín, Þórunn og Unnur. Samvinna þessara kvað vera mjög mikil, enda eru þær allar miklum námshæfileikum gæddar, eins og Bryndís og Valgerður, sem fyrir framan þær sitja og mér til hægri handar. Fremstir í þessum flokki eru þrír ágætir piltar. Já, ágætir sagði ég. Og þeir eru það líka. Við, sem að baki þeim sitjum, erum alltaf öðru hvoru hræddar um að hausinn á þeim Gylfa og Friðriki detti af þeim þá og þegar.
Þetta er þá mannfólkið, hið fagra og gáfum gædda, í bekknum mínum, landsprófsdeildinni í Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja árið 1954—1955.

Ein í Landsprófsdeild.

Við prjónana

Sólin var að ganga til viðar og varpaði róslitum bjarma inn um litla gluggann, svo að fátæklega stofan fékk á sig æfintýralegan blæ. Það er eins og ilmur liðinna tíma liggi í loftinu. Ekkert rýfur kyrrðina nema tifið í gömlu Borgundarhólmsklukkunni og marrið í ruggustól gömlu konunnar, sem situr og prjónar í ákafa. Hún horfir dreymandi augnaráði blöndnu söknuði út yfir hina tilbreytingarlausu húsabreiðu borgarinnar. Í huga gömlu konunnar bregður fyrir svipmyndum liðinna æskuára, þegar hún var lítil og átti heima á litlum bæ lengst inn til dala. Foreldrar hennar voru fátækir, en samt leið henni yndislega. Allir voru vinir hennar, blómin, flugurnar og kálfurinn, já og jafnvel stóra hrikalega fjallið, sem gnæfði hátt á móti henni, er hún kom út á hlaðið. Yfir allar hennar bernskuminningar slær gullnum æfintýraljóma. Hún sér það fyrir sér, þegar hún amma hennar sat á rúmi sínu og prjónaði og söng fyrir hana um hina fræknu riddara og hinar fögru meyjar, er þeir námu á brott. Amma hennar var svo góð og falleg og svo tignarleg með hinar silfurgráu hærur sínar. Og hin ástríka móðir hennar, hún, sem var bezt allra í heiminum, þreyttist aldrei á að segja henni frá því, sem var gott og fagurt, og hvernig mennirnir ættu að breyta, til þess að þeir yrðu guði þóknanlegir. Hún mundi, hve hrygg hún varð, er Ásgeir bróðir hennar kom inn með egg, sem hann hafði tekið frá litlu fuglunum. Hún varð ekki reið og hirti hann ekki eins og sumar fávísar mæður hefðu gert. Hún skýrði honum aðeins frá því með mildum orðum, að þetta ætti enginn að gera vegna þess, að ósk guðs væri sú, að enginn níddist á smælingjunum.
Á kvöldin, er hún fór að sofa, settist mamma hennar hjá henni raulaði fyrir hana hugljúf ljóð um Jesú, sem kom í heiminn til að frelsa hina aumu menn frá syndum þeirra. Og hún kenndi henni að signa sig og biðja, sem hún svo hafði kennt börnum sínum og barnabörnum.
Sólin var hnigin til viðar og húm haustkvöldsins færðist yfir borg og byggð. Skerandi ástarsöngur, sem bar vott um vonleysi, kvað við frá högna einum, er sat á húsmæni þar í grennd, vakti gömlu konuna upp af hugarórum sínum. Hún stóð upp og gekk frá prjónadóti sínu í saumakörfunni, gekk síðan út og lokaði á eftir sér hurð herbergisins og minninganna.

Þórunn Gunnarsdóttir, Landsprófsdeild.

Brúsi

Við krakkarnir kölluðum hann alltaf Brúsa. Hann hlaut nafnið vegna þess, að hann hafði aðsetur sitt í vatnsbólinu, þar sem við kældum mjólkina. Hann var bæði stór og feitur silungur, með grátt bak og með rauðum doppum. Við krakkarnir tímdum ekki að veiða hann, en í stað þess tíndum við maðka, flugur og annað góðgæti, sem við hentum í vatnsbólið, og kemur hann þá jafnvel upp að bakkanum til þess að taka ætið. Þótti okkur þetta hin mesta skemmtun. Við vildum ekki segja fullorðna fólkinu frá Brúsa vegna þess, að við vorum hrædd um, að það mundi ef til vill reyna að veiða hann. Morgun einn síðla sumars, en þá var Brúsi orðinn hinn myndarlegasti silungur, kom vinnukonan á bænum heldur hróðug með stóran silung í hendinni og sagðist hafa veitt því athygli, að það hefði verið silungur í vatnsbólinu. En hún hefði ekki getað handsamað hann fyrr en núna. Við krakkarnir sáum strax, að þetta var Brúsi og löbbuðum hrygg út.

Baldur Þór Baldvinsson, I. bekk verknáms.

Tryggur hundur

Fyrir mörgum árum bjó maður austur í Skaftafellssýslu, sem Jón hét. Jón átti hund, sem kallaður var Státinn. Státinn var mjög tryggur og elti Jón, hvert sem hann fór.
Eitt sinn var Státinn með Jóni að smala fé uppi til heiða. Kalt var í veðri og mikið frost. Jón átti í miklum erfiðleikum við að smala saman fénu þennan dag og varð viðskila við hina smalamennina. Það var orðið áliðið dags og óveður að skella á. Jón neyddist til að taka þann kostinn að yfirgefa kindurnar og reyna að ná til byggða. Jón var yfirkominn af þreytu, þegar hann loks kom að vörðu, sem var vegvísir heim að bænum hans. Frá vörðunni að bænum var hálfrar klukkustundar gangur.
Jón settist niður undir vörðunni til að hvíla sig. Hann gleymdi sér og rankaði ekki við sér, fyrr en Státinn rekur upp mikið hljóð og er að reyna að toga í fótinn á honum og fá hann til að standa á fætur. Jón skreiddist örmagna áfram.
Státinn hélt sig alltaf mjög nærri Jóni. Í hvert skipti, sem Jón ætlaði að stanza, togaði Státinn í hann.
Seint um kvöldið komust þeir heim, og Státinn, sem vanalega fór á undan inn í bæinn, fór nú á eftir, eins og hann vildi vera öruggur um, að eigandi sinn kæmist heilu og höldnu inn í bæinn.
Menn töldu, að Státinn hefði bjargað lífi Jóns.
Öðru sinni sýndi Státinn tryggð sína við Jón. Það var, þegar færeysk fiskiskúta strandaði hér við Suðurland á svonefndum Tanga fyrir vestan Kúðaós. Var skútan með töluvert mikinn fisk, sem bjargað var á land. Átti að selja hann á opinberu uppboði, og komu nú margir menn víðsvegar að, bæði austan og vestan Kúðafljóts til að kaupa fisk. Þar á meðal var Jón. Vildi hann ekki hafa Státinn með sér í þessa ferð, því að langt var til sjávar, um það bil 3—4 klukkustunda ferð með lest. Svo að hann lokaði Státinn inni. Jón og samferðamenn hans komu austan megin við Kúðaós og fóru á báti vestur yfir ósinn. Létu þeir vakta hestana á meðan. Þegar þeir eru nýkomnir yfir ósinn, sjá þeir, hvar hundur kemur syndandi yfir ósinn og sá Jón, að það var Státinn. Voru menn undrandi yfir hugrekki Státins, sem ekki lét ískalt jökulvatnið um hávetur hindra sig að ná til eiganda síns. Státinn hafði verið lokaður inni tvær klukkustundir frá því að mennirnir fóru frá bænum. Þá var honum hleypt út og hljóp hann snuðrandi í hringi kringum bæinn, þar til hann fann för hestanna og rakti þau síðan til fljótsins. Mun Státinn hafa fengið hlýjar viðtökur hjá Jóni þrátt fyrir óhlýðnina að vera ekki kyrr heima.

Guðmundur Lárusson, III. bekk.

Afmælisboðið

Eitt er það, sem veldur okkur æskufólkinu oft leiðindum. Það er feimnin og óframfærnin, sem stafar næstum alltaf af minnimáttarkennd.
Til sönnunar ætla ég að segja hér ofurlitla sögu.
Það gerðist fyrir þrem árum, að mér ásamt nokkrum krökkum öðrum var boðið í afmælisveizlu til vinkonu minnar.
Ég snyrti mig og snurfussaði, eins og ég bezt kunni og tiplaði svo af stað með alla þá eftirvæntingu og spenning innanborðs, sem rúmast getur í þrettán ára meyjarhjarta.
Móðir afmælisbarnsins vísaði mér inn í stofu, þar sem allir boðsgestir voru. Eitthvað svipað þessu var að segja um alla hina.
Tveir drengir byrjuðu að hvíslast á. Allir litu upp sem einn maður og horfðu á þá. Aumingja strákarnir steinþögðu og urðu ennþá vandræðalegri á svipinn. Við urðum öll afskaplega fegin, þegar húsmóðirin opnaði dyrnar og bauð okkur að gera svo vel að koma og fá okkur ofurlitla hressingu. Hennar er ekki vanþörf, hugsaði ég.
Við röðuðum okkur kring um borðið. Enn hélzt þessi andstyggilega þögn. Glamrið í skeiðunum og hver minnsta hreyfing lét óeðlilega hátt í eyrum. — Loksins sigraðist einn drengjanna á feimninni og hóf samræður. Við hin urðum alls hugar fegin. Helzta umræðuefni okkar voru kennararnir. Já, þeir eru sígildir í þeim efnum, það má nú segja.
Húsmóðirin kom inn og bauð okkur meira kaffi og kökur. Jú, mig langaði í meira. En það veit sá, sem allt veit, að ég hefði ekki komið einum dropa niður, hvernig sem nú á því stóð. Nei, ómögulega. Enginn vildi meira kaffi né kökur.
Við settumst nú aftur inn í stofuna.
Líklega hefði sama þögnin og vandræðin endurtekið sig, ef húsbóndinn hefði ekki komið og lífgað upp á mannskapinn.
Við stelpurnar reyndum að sýnast dömulegar og sætar, en strákarnir voru ósköp héralegir, og gátum við því ekki helgað okkur leikjum eins og vera bar. Hvaða dama haldið þið að fáist til að standa á öðrum fæti uppi á stól og gala eins og hani? Nei, við afþökkuðum slíkt.
Allt tekur sinn endi og þetta boð líka.
Mér fannst ég verða að viðra af mér öll vandræði þessa kvölds með því að hlaupa í sprettinum heim og skeyta engu, þótt pilsin fykju upp fyrir hné og götuleirinn slettist á nælonsokkana.

Bryndís Gunnarsdóttir, Landsprófsdeild.

Afi minn og huldukonan

Þegar afi minn var ungur (um tvítugt), var hann hjá foreldrum sínum á Fossi í Reynishverfi í Mýrdal, og stundaði hann mikið að skjóta fýl til matar, því að þá var ekki of mikið af mat á bæjum almennt. Fékk hann þá leyfi hjá nokkrum bændum í Reynishverfi til að skjóta fýl í Reynisfjalli. Einnig fékk hann leyfi hjá Víkurbændum að mega skjóta fýl austan í Reynisfjalli, en þeir áttu þar nytjar, og var sá staður nefndur Grafarhöfði.
Nú er það eina nótt, að afa dreymir, að það kemur til hans kona og segir við hann: „Þú skalt ekki skjóta fýl vestan í Reynisfjalli, því að bændur ætla að taka af þér byssuna, ef þeir sjá þig skjóta þar, þótt þú hafir fengið leyfi nokkurra þeirra, en ég skal sjá um, að þeir geti það ekki.“
Spyr afi þá konuna, hvort hún geti það. Kvað hún já við því. Þá spyr afi hana hvar hún eigi heima. Hún kvaðst eiga heima í Skorunni fyrir sunnan Háastand, en þessi sérkenni eru í hömrunum vestan í Reynisfjalli.
Nú líða nokkrir dagar, og afi gleymir draumnum, en ekki kom skotveður.
Dag nokkurn kom indælt veður og sér afi mikið af fýl uppi í hnjúknum, sem er skammt frá, þar sem draumkonan sagðist eiga heima. Tekur afi þess vegna byssu sína og fer upp hnjúkinn og ætlar að skjóta þar. Miðar hann á hvern fýlinn eftir annan en hittir aldrei. Skilur hann ekkert í þessu.
„Þetta er ekki einleikið,“ hugsar afi minn. Um leið dettur honum í hug draumurinn og fer í burtu austur í Grafarhöfða, því að hann hafði leyfi Víkurmanna til að skjóta þar. Þar skaut hann og geigaði honum ekkert skot.
Kom hann svo heim til foreldra sinna með stóra kippu af fýl. Verða foreldrar hans undrandi og spyrja, hvar hann hafi verið að skjóta. Segir afi, sem satt var, að hann hafi skotið fýlinn í Grafarhöfða. Foreldrar hans segja honum þá, að sex bændur í Reynishverfinu hafi lagt af stað til hans og ætlað að taka af honum byssuna, og hafi þeir farið með öllum brúnum.
Verður afa mínum þá ljóst, hvað draumkonan hefir veitt honum mikla hjálp, og muni hún vera huldukona, sem við köllum svo.
Afi minn hét Jónatan Jónsson og var hann lengi vitavörður í Vestmannaeyjum.

Guðfinna Guðmundsdóttir, I. bekk bóknáms.

Ferðasaga og eftirskrift

Stefán Ólafsson, afi minn, sagði mér eftirfarandi ferðasögu: Þann 12. janúar 1913 var ég staddur á Garðarsbryggju á Seyðisfirði, þegar Botnía kom þangað frá útlöndum, en með henni ætlaði ég til Vestmannaeyja. Hún var með 6 tonna mótorbót, sem átti að fara til Vestmannaeyja. Botnía hreppti vont veður á leiðinni upp og báturinn var farinn að losna á þilfarinu, og var hann látinn í land þar. Með skipinu var Gísli J. Johnsen, og átti hann bátinn. Það talaðist svo til með okkur, að ég sigldi Gamminum, en svo hét báturinn, til Vestmannaeyja. Gammurinn var eins og áður er sagt 6 tonn að stærð og með 10 hestafla Dan-vél. Ekkert stýrishús var á bátnum, aðeins hola fyrir manninn, sem stýrði, til að standa í. Þá voru fengin að láni siglingaljós hjá Stefáni Th. Lagt var svo af stað til Eyja 14. sama mánaðar og var aðeins komið við á Norðfirði. Svo var haldið áfram áleiðis suður.
Við hrepptum leiðinda veður og lifði ekkert ljós hjá okkur ofanþilfars, luktirnar voru svo slæmar. Með mér voru Kort Elísson og unglings piltur, Stefán Sigurðsson að nafni, báðir úr Eyjum.
Gekk nú allt slysalaust, þangað til við komum suður í bugtir, þá gerði austan landsynningsrok, og þótti okkur leitt að geta ekki brugðið upp ljósi, því að þá var 16 tíma myrkur á sólarhring. Að kvöldi 3ja sólarhrings er sama veður, en kominn bylur, og sáum við hvergi til lands. Þóttist ég þá vera kominn nógu langt og sneri bátnum upp í veðrið og ætlaði að halda upp í um nóttina og sagði við strákana, að þeir skyldu leggja sig á bekkina í mótorhúsinu. Ætlaði ég að vera sjálfur uppi fyrst til að byrja með. Þegar ég var búinn að andæfa upp í um það bil hálf tíma, þá sá ég vitaljósið í Eyjum rétt hjá okkur, og fórum við þá vestur fyrir eyjuna og inn á höfn og komum kl. 12 að bryggju. Eftir að veðrið skall á, stóð ég lengst við stýrið í 19 klukkutíma, og urðum við fegnir að komast í land.
Við að heyra eða lesa frásögn sem þessa, verður manni hugsað um þær miklu breytingar, sem orðið hafa á vélbátunum. Nú eru þeir vel flestir margir tugir tonna að stærð. Vélaorkan er talin í hundruðum hestafla. Allir eru þeir raflýstir. Auk hinna mörgu öryggistækja, sem nú eru í hverjum bát, má þar nefna talstöðvar, dýptarmæla, miðunarstöðvar o.fl. Hinn litli bátur, sem áður er frá sagt, er aðeins 6 tonn að stærð, vélin 10 hestöfl, engin rafljós, siglingaljósaluktirnar svo lélegar, að það logar ekki á þeim í stormi eða ágjöf, ekkert stýrishús er á bátnum, aðeins lítil hola, er sá, sem stýrir, stendur í. Má segja með sanni, að hann standi úti við stýrið, hvernig sem viðrar. Engin talstöð, ekkert hægt að láta vita af sér, þó að eitthvað væri að og svona mætti lengi telja. Já, víst er breytingin mikil og betra að stunda sjóinn á bátunum nú og meiri afla von. En hitt er þó mest um vert, hve öryggi sjómannanna er miklu meira nú en áður, en það hlýtur alltaf að vera aðalatriðið.

Gunnar S. Jónsson, III. bekk.


ctr
Nemendur Gagnfræðadeildar
skólaárið 1954-1955

Röð pilta: Garðar Gíslason, Júlíus Sigmarsson, Karl Bergsson, Viðar Óskarsson, Gunnar St. Jónsson, Guðmundur Lárusson, Magnús Sveinsson, Gísli Guðjónsson, Gísli Einarsson, Garðar Björgvinsson.
Röð stúlkna: Ólöf Svavarsdóttir, Elín Árnadóttir, Jóna Ingvarsdóttir, Sigríður Sigurbjörnsdóttir, Edda Tegeder, Guðlaug Gunnarsdóttir, Málfríður Ögmundsdóttir, Guðlaug Pálsdóttir, Ingibjörg Andersen, Viktoría Karlsdóttir, Viktoría Jóhannsdóttir, Svala Hauksdóttir, Sonja Gränz, Fríða Dóra Jóhannsdóttir, Þóra Þórðardóttir.
Tvo pilta vantar á myndina, þá Júlíus Magnússon og Kolbein Ólafsson.


Í sveit

Það var um vorið. Við skyldum reka kálfana í betri haga, þangað sem nokkrir vetrungar og eldri naut voru. Við lögðum af stað um sexleytið. Allt gekk vel, þar til við komum að gömlum húsum, þar sem nautin áttu að vera, en þau sáust hvergi. Fórum við því að leita þeirra og fundum þau brátt. Þá fór félagi minn að ná í kálfana, en ég ætlaði að reka nautin á móti honum og var ríðandi.
Einu nautinu var auðsjáanlega illa við að láta mig reka sig eins og mér sýndist.
Ég var með jakka í hendinni og barði nautið með honum. Þá varð tuddi reiður, krafsaði svo lítið í jörðina og hljóp síðan að okkur, mér og hestinum.
Hausinn á tuddanum kom á fótinn á mér og varð ég þannig á milli hans og hestsins. Hesturinn varð hræddur og prjónaði, en féll svo á hliðina að tóftarbroti, sem við vorum við. Ég varð hræddur. Hesturinn áttaði sig furðu fljótt, reis á fætur, og ég hélt mér á baki. Hann æstist, svo að ég réð lítið við hann. Samt náðum við til félaga míns.
Eitt sinn var ég í vegavinnu. Kom þá tuddi í heimsókn. Í kaffitímanum vopnuðust tveir vegavinnumennirnir rekum og gengu á móti tudda með reidd vopnin. Þegar þeir nálguðust hann, setti hann hausinn undir sig og rótaði í jörðinni með framlöppunum.
Nú voru garparnir, sem vildu sýna, að þeir flýðu ekki eins og ég, komnir svo nærri, að þeir náðu til að greiða honum högg. Þeir drógu ekki af þeim heldur. Högg lenti á haus tudda. Hann hristi hausinn og myndaði sig til þess að stökkva á mennina. Þeir urðu hræddir og tóku til fótanna.
Garpur einn úr Reykjavík, Halldór hetja Snorrason, 12 ára gamall, sigraði tudda mjög glæsilega daginn eftir.
Við vorum þrír saman að sækja hross. Halldór hafði heyrt sögurnar af nautinu. Var hann því óðfús að komast nálægt því. Hann gekk nú til tudda. Við hlógum að honum og héldum, að hann mundi fljótt snúa við.
Þegar Halldór átti eftir á að gizka 10—12 metra að tudda, kölluðum við á hann. Í stað þess að snúa aftur til okkar, kraup drengurinn á fjóra fætur og tók að róta og sparka eins og tuddi og skreið nær honum. Þegar Halldór átti ófarna 5—6 metra að tudda, varð tuddi smeykur og hopaði hægt aftur á bak. Þá stóð strákur upp og stökk til okkar, en tuddi horfði undrandi á eftir honum.
Við vissum, að þetta gat verið hættulegt dirfskubragð og afréðum að segja engum frá því. En Dóri, sjálfur sigurvegarinn, gat ekki látið sigur sinn í þagnargildi liggja.
Aumingja mennirnir, sem flýðu vopnaðir daginn áður, skömmuðust sín.

Gunnar Guðvarðsson, II. bekk bóknáms.

Dagur í flökun

Æ, hvaða hávaði er þetta? Er það síminn eða hvað? — Það er þá vekjaraklukkan að vekja mig í vinnuna. Ég fálma út í loftið til að stöðva hana, felli um lampann á náttborðinu en tekst þó að lokum að lægja mesta rostann í klukkuskömminni. Ég fer fram úr rúminu og klæði mig. Svo lít ég út og sé, að það er dásamlegt veður, og mér finnst það hræðileg tilhugsun að þurfa að fara í flökun núna. En það þýðir nú lítið að tala um það. Ég er með stírurnar í augunum en vakna svo alveg við það, að koma út og niður í stöð. Þar er fólkið í óða önn að koma til vinnunnar. Kl. 8 er flautað og við eigum að fara að vinna. Oftast nær var mér sagt að fara að „snyrta“ fiskinn og var ég orðin mjög leið á því. Það getur stundum verið gaman að vinna í flökun, en oftast er það óttalega leiðinlegt. Við fáum kaffitíma um morguninn kl. 9.40—10. Einu sinni í kaffitíma komu tveir strákar með vatnsbyssur og fóru að sprauta á okkur. Fyrst tókum við þessu sem gamni, en þegar þeir héldu áfram, þá varð ég bálreið og stóð kyrr til að vita, hvort þeir mundu ekki hætta. Þá stanzaði annar strákurinn til að sprauta á mig og hann hætti ekki, fyrr en kaffitíminn var búinn og þá var ég orðin alveg gegn blaut. Svona eru þessir strákar.
Tíminn sniglast áfram og það liggur við að maður æpi upp yfir sig af ánægju, þegar það gellur við í flautunni og vinnudagurinn er senn á enda. En erfiðleikarnir og leiðindin eru fljót að hverfa, þegar komið er út í góða veðrið og maður hefur hvílt sig um stund. Á kvöldin fer maður svo út sér til skemmtunar og hressingar og flökunin er með öllu grafin og gleymd. En þegar maður er kominn í rúmið, hvarflar að manni, að á morgun sé aftur dagur og vinna í flökun. En svefninn er fljótur að sigra þreytt augu og nóttin líður oftast draumlaust.
En að morgni endurtekur sig sama sagan. Æ, hvaða hávaði er þetta? Er það síminn eða hvað?

Ein í III. bekk.

Hann var kvæntur maður og átti yndislegt heimili. Stofurnar voru sólríkar, húsgögnin vönduð, teppin þykk og dýr. Kilir bókanna í skápnum voru með réttum litum og bækurnar sjálfar hæfilega margir metrar samanlagt. Svo var þar öll nýjasta heimilstækni. Konan hans var hreinasta perla, sagði hann. Allt lék í lyndi. Hamingjan hló við honum. Og — þó ekki.
Það var hún perlumamma!